01.04.1930
Efri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (611)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Erlingur Friðjónsson:

Frv. þetta hefir hlotið óeðlilega afgreiðslu hjá allshn. Það kom snemma fyrir þingið, eins og bezt sést á því, að frv. er prentað á þskj. 131, 17. marz er málið fyrst afgr. af n. og 11 dögum síðar skilar nefndin svo þessu makalausa nál., sem er ekki nema þumlungur að lengd. En áður en ég vík nánar að þessu nál. eða hinni rökstuddu dagskrá meiri hl. n., verð ég að svara hv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum. Hann heldur því fram, að málið hafi ekki hlotið nægilegan undirbúning, þar sem aðeins liggi fyrir símskeyti frá 5 bæjarfulltrúum á Siglufirði, þess efnis, að Alþingi samþ. frv. um breyt. á l. nr. 30 1918 eða 58 1918 í þá átt, að Siglufjarðarkaupstað sé heimilt að taka sérstakan bæjarstjóra, þegar hann vill, ef slíkt frv. kæmi fram á annað borð. Þetta símskeyti bæjarstj. á Siglufirði ber það með sér ótvírætt, að búizt var við, að slíkt frv. myndi lagt verða fyrir þetta þing. Ella myndi bæjarstj. að sjálfsögðu ekki fara að senda Alþingi áskorun um að samþykkja slíkt frv. Ég tók það fram í framsöguræðu minni fyrir þessu máli, að ég var beðinn að flytja þetta frv. af einstökum bæjarfulltrúum, og áréttuðu þeir þetta í skeyti því, sem ég gat áður um.

Hv. frsm. meiri hl. lagði mikið upp úr því, að bæjarfógeti hafði setið hjá atkvgr. um þetta skeyti, sem ég drap á, en hvað var eðlilegra, þar sem þetta snerti bæjarfógetann sjálfan að nokkru leyti? Hvað það snertir, að bæjarfógetinn á Siglufirði gegni oddvitastarfi bæjarstj. vel og samvizkusamlega, er því einu til að svara, að um það eiga borgararnir að dæma; slíkt kemur Alþingi ekki við. Og þó að bæjarfógetinn hafi ekki atkvæðisrétt í bæjarstj., verður að gæta þess, að hann fer ekki með umboð borgaranna í bæjarstjórninni.

Skal ég þá víkja að hinni rökstuddu dagskrá, sem meiri hl. allshn. vill afgreiða mál þetta með. Hljóðar hún á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að engar upplýsingar liggja fyrir um það, hver nauðsyn Siglfirðingum er á að aðskilja bæjarfógeta- og bæjarstjórastarfið á Siglufirði, og með því að ekki er annað kunnugt en sá embættismaður, sem að lögum nú gegnir bæjarstjórastarfinu, leysi öll sín störf, bæði sem embættismaður ríkisins og oddviti bæjarstjórnar, vel og samvizkusamlega af hendi, þá telur deildin ekki“ o. s. frv.

Þessi röksemdafærsla hv. meiri hl. allshn. er harla einkennileg, ef athugað er, hver afstaða þingsins hefir verið í þessum málum að undanförnu. Ég hygg, að það hafi aldrei verið rannsakað, þegar um hefir verið að ræða, hvert kaupstöðum skuli leyft að taka sérstakan bæjarstjóra, hvort hlutaðeigandi bæjarfógeti hafi verið fær um að gegna starfi sínu sem embættismaður ríkisins og oddviti bæjarstjórnar í senn.

Þegar Akureyrarkaupstaður fékk sinn bæjarstjóra, óskaði meiri hl. bæjarstjórnarinnar þar þessa fyrir hönd borgaranna. Gekk það tregðulítið að fá þessu framgengt við Alþingi.

Mér þykir rétt að taka það fram í þessu sambandi, að 3 af kauptúnunum öðluðust rétt til þess að kjósa sér bæjarstjóra um leið og þau fengu bæjarréttindi. Eru nú 12 ár liðin frá því að Siglufjörður var tekinn í tölu kaupstaðanna, en samt á að meina honum um réttindi til þess að taka sér bæjarstjóra, þó að aðrir bæir hafi fengið slíkan rétt samtímis því að þeir öðluðust bæjarréttindin, svo sem var um Hafnarfjörð, Vestmannaeyjar og Seyðisfjörð. Hafnarfjörður öðlaðist þennan rétt fyrir 23 árum, eða 1907, og munu flestir fallast á það, að ekki hafi verið fyrir 23 árum þeim mun umfangsmeira starf bæjarfógetans í Hafnarfirði en bæjarfógetans á Siglufirði, að rétt sé að standa á móti þessu máli. Vil ég í þessu sambandi gera samanburð á útfluttum og innfluttum vörum til Siglufjarðar og útfluttum vörum til hinna þriggja kaupstaða, sem ég áður nefndi, um það bil, sem þeir fengu réttindi til þess að kjósa sér bæjarstjóra, því telja má, að erfiði í fógetaembætti fari mjög eftir því, hversu innheimta ríkistekna er mikil eða lítil.

Er lengst síðan Hafnarfjörður fékk réttindi til þess að kjósa sér bæjarstjóra, en það var árið 1907. Hefi ég ekki átt kost á því að kynna mér manntalsskýrslurnar fyrir það ár, en árið 1911 eru íbúar Hafnarfjarðar 1484. Innfluttar vörur þangað 5 árum eftir að hann fékk kaupstaðarréttindi, eða 1912, nema 341250 kr., en útfluttar vörur 1099385 kr., og nema þannig innfluttar og útfluttar vörur þangað samtals 1440635 kr.

Akureyri er næst í röðinni og fær réttindin til þess að kjósa bæjarstjóra 1917. Hefi ég ekki manntalsskýrslur fyrir það ár, heldur fyrir 1915 og 1920. Eru fyrra árið 2099 íbúar þar, en hið síðara 2542. Innflutningur varanna til Akureyrar 1917 nam 2435000, en útfluttar vörur 2556000, eða samtals 4991000.

Næstar verða svo Vestmannaeyjar. Þær fá bæjarstjóra 1918. Eru þar árið 1915 1902 íbúar, en 1920 2396. Innfluttar og útfluttar vörur nema samanlagt árið 1918 á aðra millj., en 1927 eru fluttar inn vörur til Vestmannaeyja fyrir 2472000, en út fyrir 4598000, eða samtals 7070000.

Þá kemur Seyðisfjörður, sem fær rétt til þess að kjósa bæjarstjóra árið 1919, og vil ég taka nokkur ár til samanburðar, til að sýna, í hve örum vexti sá bær hefir verið og hve miklar ástæður voru til þess að láta hann fá þessi réttindi þá, miðað við Siglufjörð nú. — 1911 eru þar 891 maður, 1915 902 og 1920 843. Ég held því, að íbúum Seyðisfjarðar hafi verið farið að fækka, þegar honum voru veitt þessi réttindi, að atbeina hv. þm. þeirra, sem gerir allt, er í hans valdi stendur, til þess að koma fram því, sem hann telur kjördæmi sínu fyrir beztu. Útfluttar vörur frá Seyðisfirði 1919 námu 1048000 kr., en innfluttar 1340000, eða samtals 2388000 kr.

Þá kem ég loks að Siglufirði, og munu menn, er ég hefi látið hagskýrslurnar vitna um réttmæti kröfu Siglfirðinga, sannfærast um það, að Siglufjörður hafi meiri þörf fyrir að mega taka sér bæjarstjóra en fyrir hendi var um Seyðisfjörð árið 1919, og aðra kaupstaði þegar þeir fá réttindi til þess að kjósa sér bæjarstjóra.

Á Siglufirði eru nú 1900 íbúar, en þegar Seyðisfjörður fær réttindin til þess að kjósa sér bæjarstjóra, eru þar ekki nema á níunda hundrað. 1927 nema útfluttar vörur frá Siglufirði 8246000, en innfluttar 2687000, eða samtals 10927000 kr. En þegar Seyðisfjörður fær rétt til þess að hafa bæjarstjóra, eru inn- og útfluttar vörur þangað samtals 2388000, eða ríflega 1/5 á móti Siglufirði. Siglufjörður skarar því fram úr öllum kaupstöðum að þessu leyti, þegar þeir fá réttinn til þess að taka sér bæjarstjóra, og ef tekið er tillit til þess, hversu erfitt er um innheimtur á slíkum stöðum, hefði Siglufjörður fyrir löngu átt að vera búinn að öðlast þessi réttindi. Hv. þm. Seyðf., sem leit svo á, að Seyðisfjörður hefði átt að fá bæjarstjóra á sínum tíma, með þeim aðstæðum, sem ég hefi áður lýst, hlýtur, þegar hann er fræddur um þetta, samkvæmt sinni fyrri skoðun, að viðurkenna, að sjálfsagt sé, að Siglfirðingum sé þessi réttur fenginn í hendur. Hvergi er eins erfitt um lögreglustjórn eins og á Siglufirði, nema ef til vill í Vestmannaeyjum, en hinsvegar eru Vestmannaeyjar ekki sambærilegar hvað innheimtu opinberra gjalda snertir. Því að samtala inn- og útfluttra vara þaðan er 7070000, en frá Siglufirði 10927000, eða með öðrum orðum um 60% hærri hvað Siglufjörð snertir. Vestmannaeyjar eru að öðru leyti sambærilegar Siglufirði, þar sem báðir þessir kaupstaðir eru bæjarfógetaumdæmi hvor fyrir sig, og þó að íbúatala Vestmannaeyja sé ef til vill hærri en íbúatala Siglufjarðar, hefir það lítið að segja, því að það skiptir bæjarfógetaembættið litlu, hvort þar er 100 hræðum fleira eða færra.

Löggæzla og dómstjórn er mikið erfiðari í kaupstöðum en sýslum og gerir því bæjarfógetaembætti miklu erfiðara en sýslumannsembætti. Bæjarfógetaembættið á Siglufirði er að líkindum erfiðasta fógetaembætti utan Reykjavíkur hvað löggæzlu og dómgæzlu snertir.

Sem dæmi um, hvað sýslumannsembætti eru léttari en bæjarfógetaembætti mætti nefna það, að á einu ári dæmdi þekktur sýslumaður, sem hafði tvær sýslur til yfirráða, aðeins 4 dóma. Á sama tíma dæmdi bæjarfógeti nokkur, ekki langt frá, 240 dóma og úrskurði.

Það verður ekki réttlætt að setja bæjarstjóra á Seyðisfirði með því, að sýslumannsembættið þar sé svo erfitt. Slíkt er einungis fyrirsláttur.

Annars kom mér mjög á óvart aðstaða hv. frsm. meiri hl. í þessu máli. Mér flaug í hug, þegar ég bar saman aðstöðu þessa hv. þm. í þessu máli og öðrum málum hliðstæðum, sem áður hafa legið fyrir þinginu, gamla sagan um góða og efnilega barnið, sem einhver forynja nam á burt af heimili barnsins, en skildi eftir ljótan og leiðan umskipting. Ég kann því miður ekki aðra lýsingu betri á hv. frsm. vegna þess, hversu mjög skoðanir hans á þessu máli hafa breytzt í þá átt, er miður skyldi. Ég vildi samt óska þess, að einhver góð vættur færi okkur aftur góða barnið, en sendi umskiptinginn heim í sína átthaga, því ég hlakka lítið til að starfa með þessum nýja hv. 2. þm. S.-M. hér í þessari hv. deild, og óska því að heimta aftur hinn gamla og góða þm. S.-M.