14.03.1930
Efri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (626)

92. mál, útflutningsgjald af síld

Erlingur Friðjónsson:

Ég vil láta nokkur orð fylgja þessu frv., hvort sem það á að fara til 3. umr. eða til stj. Ég talaði ekki langt mál við 1. umr., og mun ekki heldur gera það nú, en vil þó benda á nokkur atriði, er snerta þetta mál.

Það er svo langt síðan farið var að skattleggja síldarútveginn með miklu hærri skatti en alla aðra atvinnuvegi landsins, að þá var hann í höndum útlendinga, ekki aðeins veiðin, heldur og vinnan í landi. Þeir, sem þekkja til nyrðra á þeim slóðum, sem Norðmenn stunduðu mest veiðiskapinn, vita, að þeir fluttu hingað mikið af verkafólki, er vann að verkun síldarinnar í landi. Það hefir ef til vill ekki verið ósanngjarnt, að atvinnuvegur, sem er svo mjög í höndum útlendinga, væri skattlagður hærra en þær atvinnugreinir, er voru í höndum landsmanna sjálfra. En þótt síldarútveguirnn hafi flutzt í hendur innlendra manna að lengmestu leyti, hefir hið háa Alþingi ekki tekið þá stefnu að samræma útflutningsgjald af saltsíld við gjald af annari framleiðslu landsmanna. — Fyrst framan af var síldin eingöngu veidd til að flytja hana út saltaða eða kryddaða, en nú hefir það mikið færzt vöxt, að hún sé unnin í bræðsluverksmiðjum og flutt þannig út. En eins og kunnugt er, er gjaldið af síld þannig unninni í samræmi við gjald af öðrum vörutegundum. Nú er svo komið, að ca. 5/7 af þeirri síld, sem hér veiðist, er brædd í verksmiðjum, en aðeins 2/7 saltaðir eða kryddaðir. Við þessa breyttu verkunaraðferð hefir orðið sú breyt. á veiðiskapnum, að það eru hin minni skip, sem nú veiða aðallega til söltunar, en stóru skipin til bræðslu. Hið háa og óeðlilega útflutningsgjald af saltaðri og kryddaðri síld lendir því aðallega á smærri skipunum og smærri útgerðarmönnum.

Þetta tvennt tel ég mikil rök í málinu: Í fyrsta lagi, að það er orðinn svo lítill hluti af þeirri síld, sem veiðist, sem út er fluttur saltaður eða kryddaður. Og í öðru lagi, að það eru aðallega hinir smærri útvegsmenn, sem salta eða krydda afla sinn. Þess má geta í þessu sambandi, að 12–30 smálesta vélbátar geta ekki veitt til hræðslu, svo að arðvænlegt sé. En á sama hátt er það kunnugt um þau stærstu skip, sem notuð eru til síldveiða, togarana, að þeir veiða eingöngu að heita má til bræðslu, en alls ekki til söltunar. Ég hygg, að það hafi ekki verið nema tveir togarar af nálægt 200 skipum síðastl. ár, sem stunduðu síldveiðar til söltunar. Eða með öðrum orðum 1% veiðiskipanna.

Það hefir réttilega verið tekið fram af fleiri hv. dm. en einum, að síðustu árin hefir ríkið styrkt þennan atvinnuveg á tvennan hátt. Fyrst og fremst með því að setja lög um síldareinkasölu, og í öðru lagi með því að láta ríkið koma upp bræðslustöð til vinnslu síldar. Hvorttveggja þetta léttir undir með atvinnuveginum, og er skylt að þakka það. En eins og hv. 4. landsk. þm. benti á, eru þetta ekki nein útgjöld fyrir ríkissjóð. Þingið sýndi aðeins með þessu skilning sinn á nauðsynjamálum atvinnuvegarins, og hagaði sér samkv. því. Það mætti benda á, að fleiri atvinnugreinar hafa verið styrktar af þingi og stj. þessi árin, ekki eingöngu með löggjöf, heldur með beinum fjárframlögum. Það stendur næst að nefna það, sem gert hefir verið fyrir landbúnaðinn á síðustu árum, þar sem það er nú yfir millj. króna, sem beint er til búnaðar á fjárl. fyrir 1931, og fer sívaxandi. Þá má einnig benda á Búnaðarbankann, sem vitanlega á að verða til stórkostlegra hagsbóta fyrir landbúnaðinn. Þá er áburðareinkasalan, sem hefir afarmikla þýðingu. Einnig eru á ferðinni hér í þinginu tvö frv., að ég hygg, sem til samans gera ráð fyrir rúmlega 200 þús. kr. auknum fjárframlögum til landbúnaðar. Ég er ekki að telja þetta eftir og skal í því sambandi benda á, að það mun hafa oltið talsvert mikið á mínu atkv. um tvö þýðingarmikil atriði í lögunum um Búnaðarbankann. En ég vildi sýna, að það er ekki eftirtöluvert, þó að eitthvað sé gert fyrir sjávarútveginn líka.

Ég skal viðurkenna, að það er mjög eðlilegt, að hv. þm. sjái eftir þeim tekjum, sem ríkissjóður mundi missa, ef frv. yrði samþ. En sá tekjumissir sýnir einmitt, hvað þessi atvinnurekstur hefir verið skattlagður frekar öðrum undanfarin ár, því að hér er ekki farið fram á annað en að samræma útflutningsgjald af síld og öðrum vörum, og nema burt þann skatt, sem lagður er á síldarútveginn fram yfir aðrar atvinnugreinar landsins. Og eftir því, sem meiri hl. hv. fjhn. hefir reiknað út þennan tekjumissi ríkissjóðs, þá nemur hann hvorki meiru né minnu en rúmum 2 millj. kr. á síðustu tíu árum, ef gert er ráð fyrir, að þessi reikningur sé nokkuð á rökum byggður hjá hv. meiri hl. n. Og hér er þó um meira að ræða en þetta, því að í frv. mínu er ekki gert ráð fyrir að létta af síldarútveginum innflutningsgjaldi af tómum tunnum, sem nemur árlega nærri 70 þús. kr. ef gert er ráð fyrir, að nálægt 200 þús. tunnur séu fluttar inn á ári til jafnaðar. Og þegar þessu er bætt við þessa áætlun, sem gerð hefir verið um tekjur ríkissjóðs síðustu 10 árin, þá er það komið upp undir 3 millj., sem hann hefir ranglega grætt á þessari atvinnugrein á einum áratug með því að skattleggja útfluttar vörur hennar umfram aðrar.

Ég flutti hér í fyrra og hitteðfyrra tvö frv., sem gengu í þá átt að færa þessi útflutningsgjöld til, jafna þeim niður á þá síld, sem út er flutt söltuð eða krydduð, og þá, sem unnin er í bræðsluverksmiðjum. Eins og stendur hefir ríkissjóður ekki meiri tekjur af 600 þús. hektólítrum af síld, sem fer í bræðsluverksmiðjur, en af 100 þús. hektólítrum síldar, sem út er flutt söltuð eða krydduð. Og þegar athugað er það, sem ég benti á áðan, að það eru aðallega smærri útgerðarmennirnir, sem borga útflutningsgjaldið af saltaðri síld, en þeir stærri skipta við bræðsluverksmiðjurnar, þá finnst mér miklu eðlilegra að jafna þessa tolla á síldinni heldur en að láta allt standa óbreytt eins og nú hefir verið um mörg ár, eða eiginlega síðan síldarútvegurinn hófst. Það má líka benda á til enn meiri skýringar, að af 120 kr. virði af fiskilýsi, kjöti og ull og öðrum fleiri afurðum lands og sjávar fæst ekki meiri greiðsla til ríkissjóðs en af 30 kr. virði af útfluttri síld, ef hún er söltuð eða krydduð.

Ég verð að játa mér nægja þessi orð, sem ég hefi látið fylgja frv. mínu, hvort sem það fær að fara til 3. umr. eða því verður vísað til stj. En ég vil enda orð mín með því að gera fyrirspurn til hæstv. stj., hvað hún hyggst að gera í þessu máli, ef því yrði vísað til hennar. Ég vildi gjarnan fá að vita það, áður en ég greiði atkv. um málið, hvort vænta megi, að stj. taki það til íhugunar á þann hátt að taka til greina þær skoðanir, sem ég hefi haldið fram í umr. um það, nefnilega, að hér sé ranglátlega skattlagður hluti þeirra manna, sem síldveiði stunda. Ef stj. hefir engu að svara, má búast við, að reyndin verði lík og fyrr, og þá er vitanlega þýðingarlaust að kasta málinu í þá gröf, eins og hv. 4. landsk. þm. komst að orði.