13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1931

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er að vissu leyti rétt hjá hv. þm. Vestm., að við hv. þm. Ísaf. höfum lagzt hvor á sína sveif um form og efni þessa rithöfundar. Ég trúi því raunar ekki, þó að hv. þm. Ísaf. segi það sjálfur, að honum sé alveg sama um formið, ef honum bara líki efnið. En það er ekki rétt, að ég vilji styrkja H. K. L. eingöngu vegna hans snjalla forms. Hann hefir skrifað margt — og auðsjáanlega miklu meira en hv. þm. Vestm. hefir hugmynd um, — sem hrífur lesandann bæði að formi og efni. Þetta tvennt verður að fara saman svo vel sé. Það, sem guð hefir sameinað, má maðurinn ekki sundur skilja. Hitt er líka misskilningur, að H. K. L. eigi að fá styrk til að skrifa um jafnaðarstefnuna. Það er ekki aðalverksvið Halldórs Kiljans Laxness. Hans aðalstarf er alls ekki á pólitísku sviði. Ef hæsta. forseti vill leyfa mér það, vil ég lesa upp nokkra kafla úr ritum H. K. L. í svo sem 1–2 klst., sem hv. þm. Vestm. hefir tæplega. heyrt. (Forseti JörB: Það get ég ekki leyft hv. þm). Ég verð að sjálfsögðu að beygja mig undir úrskurð hæstv. forseta, þó það sé illt, að hv. þm. Vestm. fái ekki tækifæri til að hlýða á góðar bókmenntir.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vil bæta því við, að mér þykir vænt um, að okkur flm. skuli hafa bætzt jafn-ágætur liðsmaður og kona hv. 2. þm. G.-K.