22.01.1930
Neðri deild: 2. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

Minning Hrafns Hængssonar

forseti (BSv):

Með því að á þessu ári er 1000 ára minningarafmæli Alþingis, þá viljum vér minnast hins fyrsta lögsögumanns, Hrafns Hængssonar, er tók við lögsögu á Alþingi 930, eftir að Úlfljótur hafði sett lögin með samþykki landsmanna. Hrafn Hængsson hafði lögsögu á Alþingi í 20 vetur. Má nærri geta, hversu merkur maður hann hefir verið, sem fyrstur gegndi því trúnaðarstarfi, sem mest var og vandasamast í landinu. Hann er fyrsti maðurinn, sem vér vitum, að fæddur er á Íslandi. Ketill hængur, faðir hans, sonur Þorkels Naumdælajarls, fluttist hingað til lands öndverðlega á landnámstíð og bjó hinn fyrsta vetur við Rangá hina ytri. Var bær sá síðan nefndur að Hrafnstóftum, því að þar fæddist Hrafn. Síðan byggði Ketill að Hofi á Rangárvöllum, og bjó Hrafn þar eftir hann.

Ég ætla ekki að rekja ætt eða æfiferil þessa merkilega höfðingja, en vil biðja alla hv. þdm. að standa upp minning hans til virðingar.

Allir deildarmenn stóðu upp úr sætum sínum.