14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (BSv):

Það er satt, að þessi mál hafa ekki komizt hér að að undanförnu, þótt þau væru stundum á dagskrá, en það hefir eingöngu verið sakir langra umr., er orðið hafa um önnur mál. Hitt er eigi rétt, að andúð gegn þessum málum ráði þar nokkru, enda sagði hv. þm. það ekki berum orðum. Ég get ekki tamið tungu hv. þdm. og neyðist til að taka af dagskrá þau málin, sem órædd eru, þegar fundi þarf að slíta. — Út af samkomulagi því, sem hv. þm. minntist á, að væri á komið milli flokkanna um þingfrestun á morgun, vil ég geta þess, að á þetta hefir ekki verið minnzt við mig hálfu orði. — Annars vil ég láta þess getið um eitt þeirra mála, sem hv. þm. ber fyrir brjósti, að það átti nýlega að koma hér til umr. að kvöldlagi, en þá þótti hv. þm. of framorðið og beiddist undan, að það væri rætt að því sinni. Mér þótti miður að geta ekki tekið málið þá, og sagði hv. þm., að ég gæti þá ekki sagt um, né borið nokkra ábyrgð á, hvenær það kæmist að. (HG: Þetta mál er á dagskránni í dag). — Út af tilmælum hv. þm. um að taka þau mál, er hann nefndi, á dagskrá á morgun, vil ég segja, að ég er fús til þess, en ég get ekki ábyrgzt honum, að þau verði rædd, með því að ég veit ekki, hve miklar umr. verða um önnur mál.