13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 2. þm. G.-K. vill sýnilega enn halda áfram að tala um kvennamál sín hér. Ég álít, að orð hans um sína konu og annara í þessu sambandi hafi verið honum til skammar — og aftur til skammar. En eitt er víst: ég ætla ekki að ræða við hann um mínar vinkonur, né heldur hans eiginkonu eða vinkonur.

Hv. þm. vék að því, að honum þætti undarleg sú háttsemi mín, þegar ég mælti með einum rithöfundi og minntist aðeins á galla hans. Ég fæ ekki skilið, hvernig hv. þm. hefir komizt að þessari niðurstöðu. Ég drap á það, að ein bók Kambans hefði vakið hneyksli hjá ýmsum fariseum og hlotið svipaða dóma og sumt af ritum Halldórs Kiljans Laxness. Hvorugum þeirra lagði ég þetta til lasts. Þvert á móti. En ég veit upp á hár, að öll þessi hneykslun hv. þm. á ritverkum Kiljans eru eintóm látalæti. (ÓTh: Það getur hv. þm. alls ekkert sagt um). Ójú, við erum málkunnugir, hv. 2. þm. G.-K. og ég, og skröfum öðruhvoru saman. Hv. 2. þm. G.-K. veit það eins vel og ég, að það er svo um flesta þá rithöfunda, sem nokkur manndómur er í og þora að ganga í berhögg við fúa og feyskju þjóðskipulagsins, eins og bæði H. K. L. og G. K. hafa gert, að þeir hljóta jafnan illt umtal og harða dóma afturhaldsmannanna.