14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

Afgreiðsla þingmála

Sigurður Eggerz:

Það, sem hér er farið fram á, er ekki annað en það, að almennir mannasiðir fái að gilda hér í þingsalnum. Ef maður mætir öðrum á götu, þætti það ósæmilegt af þeim að ávarpa hvor annan með uppnefnum. Lægri kröfur má ekki gera í þingsalnum.

Að Sjálfstæðisflokksnafnið sé ekki réttnefni, er hin mesta firra. Það er í alla staði eðlilegt nafn á flokknum, þar sem hann skipar sjálfstæðismálunum efst á dagskrá. Hitt er annað mál, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins þora ekki að nefna hann sínu rétta nafni, af því að það lætur svo vel í eyrum þjóðarinnar, og hafa þeir því tekið það ráð að uppnefna hann.

Það virðist varla þurfa að deila um það, sem skýrum stöfum stendur í grein hæstv. dómsmrh. í „Tímanum“ 15. febr. Þar segir svo:

„En er leið að fundarlokum, kvaddi Kragh, fulltrúi vinstri manna, sér hljóðs og óskaði eftir, að fram kæmu frá hálfu Íslendinga skýringar á því, hvað Danir hefðu gert á hluta Íslendinga, sem hefði þurft að leiða til þess, að heill landsmálaflokkur væri myndaður á Íslandi með nafni og stefnuskrá, er benti til þess, að nokkrum hluta Íslendinga þætti líklegt, að Danir væru að innlima landið pólitískt, fjárhagslega og menningarlega“.

Allir, sem kunna að lesa, skilja, að hér er heimtuð greinargerð fyrir því, hvernig á því standi, að flokkur á Íslandi skuli leyfa sér að kalla sig Sjálfstæðisflokk. Er það í þessu sambandi næsta einkennilegt, að eftir að þetta kom fram í lögjafnaðarn., treysti stjórnarflokkurinn sér ekki til að nefna Sjálfstæðisflokkinn sínu rétta nafni. Það er allhart að þurfa að standa í deilum á sjálfu löggjafarþingi þjóðarinnar um svo sjálfsagðan hlut sem það, að stjórnmálaflokkur í landinu velur sér heiti eftir hlutverki sínu. Er slíkt og annað eins þvílíkt brot á öllum almennum velsæmisreglum, að furðulegt er, og full ástæða til að hæstv. forseti víti það. Að sjálf ríkisstj. skuli ganga í broddi fylkingar um það að uppnefna annan stærsta flokk þingsins — er vitni svo mikils eskimóaháttar, að manni hlýtur að ofbjóða.