14.03.1930
Efri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (680)

92. mál, útflutningsgjald af síld

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi afarlitlu að svara þeim tveimur hv. ræðumönnum, sem talað hafa síðan ég flutti mína framsöguræðu. Orð þeirra hafa aðallega gengið í þá átt að sanna, að síldartollurinn væri óréttlátur eins og nú er. En þetta var hreinasti óþarfi; a. m. k. hefir meiri hl. fjhn. viðurkennt þetta sama. Hinsvegar virtist mér háðir hv. ræðumenn kannast við, að eins og sakir standa sé það nokkuð viðurhlutamikið, að þetta frv. gangi fram, vegna þess tekjumissis, sem það bakar ríkissjóði. Báðir hafa þeir gert ólítinn samanburð á milli sjávarútvegs og landbúnaðar og þótti ríkissjóður hafa lagt meira fé fram til hins síðarnefnda. Ég ætla mér ekki í neinn slíkan samanburð. En ég vil hinsvegar benda hv. þm. á, eins og þeir hafa báðir viðurkennt, að ríkisstj. hefir fullan hug á að gera báðum atvinnuvegunum jafnhátt undir höfði. Bæði hv. frsm. minni hl. og hv. þm. Ak. hafa einmitt bent á, hvað Alþingi og landsstj. hafa gert fyrir síldarútveginn. Og þó að ég viðurkenni fyllilega, að síldareinkasalan og bræðsluverksmiðjan réttlæti enganveginn þetta misrétti, þá verður samt að líta á það, að á sama ári og ríkissjóður leggur fram 1 millj. kr. til þess að gera þennan atvinnuveg tryggari, er hæpið að það sé sanngirniskrafa að skattar hans séu lækkaðir. Og því mun enginn neita, sízt hv. þm. Ak., að stofnun síldarbræðsluverksmiðjunnar sé til svo mikilla hagsmuna fyrir útveginn, að hún bæti á vissan hátt mikið úr því misrétti, sem útflutt saltsíld, eða eigendur hennar, hafa orðið að þola undanfarin ár. Það er ekki nema réttlátt, að málinu sé vísað til athugunar og rannsóknar, svo að stj. geti síðan borið það fram eins og rök standa til. Mér virðist, að eins og málið liggur fyrir nú, sé það líklegasta leiðin til að vinna því gagn, að vísa því til stj. Þeir vita það báðir, hv. frsm. minni hl. og hv. þm. Ak., að málið getur ekki gengið fram á þessu þingi. Fyrir því liggja sérstakar ástæður, sem ég þarf ekki að telja upp hér. Það var hv. þm. Ak., sem minnti á, að á tveimur síðustu þingum hefði verið gerð tilraun til að lagfæra tollana, en það fékkst ekki. Skilningur þingsins, sem nauðsynlegur var til þessa, hefði ekki fengizt. Ég sé ekki líklegt, að nokkur breyt. hafi orðið í því efni frá síðasta þingi. Hinsvegar þykir mér líklegt, að ef stj. gerir tilraun til að finna hagkvæma lausn og leggur til breyt. í þessu efni, þá væru nokkrar líkur til þess, að einhver ávinningur fengist á næsta þingi. Ég tel réttara að koma málinu inn á þá braut en að halda áfram að berja höfðinu við steininn. Það verður að taka hlutina eins og þeir eru og gera ráð fyrir, að Alþingi hafi ekki breytt skoðun sinni frá því á síðasta ári.