26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

Þingvíti

Ingólfur Bjarnarson:

Með leyfi hæstv. forseta vil ég gefa skýringu á því, hvernig á því stóð, að fjvn. var fjarstödd í gær. — Það var fyrir eindregin tilmæli búnaðarmálastjóra, að fjvn. brá sér upp fyrir Kolviðarhól til þess að athuga með eigin augum hið nýfengna og merkilega samgöngutæki, snjóbílinn, og sjá, hvernig hann starfaði. Við fórum svo snemma, að ekki var hægt að tilkynna forseta þetta, enda álitum við það ekki nauðsynlegt, þar sem við álitum, að við kæmum nógu snemma til að koma á fundinn. En svo komu tafir. Fyrst bilaði önnur bifreiðin, og varð að draga hana niður í Reykjavík, og svo urðum við að bíða eftir manninum, sem fer með snjóbílinn, en hann sagðist hafa verið tafinn af ófyrirsjáanlegum ástæðum.

Þetta er í stuttu máli sagt ástæðan fyrir því, að við gátum ekki komið á fundinn í gær. Við töldum rétt, að það kæmi fram, af hverju þetta stafaði, en það er ekki svo að skilja, að við séum að kvarta undan þessu viti, sem einkum mun vera í því fólgið, að dagkaupið er af okkur dregið, og ég get vel virt þann dugnað hæstv. forseta, að spara fé ríkissjóðs, og ég vil lýsa því yfir, að við erum fúsir að taka við þessu viti og munum hlíta þessum dómi hæstv. forseta.