13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég býst við, að mönnum þyki þurrt að heyra það, sem ég hefi nú að segja, eftir allt þetta skemmtilega bókmenntaskraf. En ég skal fara fljótt yfir sögu og aðeins stikla á stærstu atriðunum. Ég verð að biðja afsökunar á því, að ég gleymdi að minnast á eitt þskj., 269, í ræðu minni áðan.

Fyrsta till. á því þskj. er frá hv. þm. Barð., um uppbót á læknisvitjanastyrk. N. mælir eindregið með þeirri till.

Næst kemur hin margumtalaða brtt. hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Ísaf., um styrk til Halldórs Kiljans Laxness. Ég hefi þau skilaboð frá meiri hl. fjvn., að hún leggur á móti till.

Þriðja brtt. er frá hv. 1. þm. Reykv., um lífeyri til Gunnlaugs Indriðasonar. N. hefir óbundnar hendur um þá till. — Fjórða og síðasta brtt. á þessu þskj. hefir verið tekin aftur.

Þá ætla ég að minnast á þær brtt., sem hafa verið gerðar aths. um. Skal ég fyrst nefna brtt. hv. 2. þm. Skagf., um styrk til raforkuveitu í Skagafirði. Það er aukaatriði, þó að ég færi inn á það áðan, að mér teldist, að eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, væri ekki eins mikið að hafa í aðra hönd og við mætti búast. Borið saman við árangur af einkaveitum annarsstaðar, er það ákaflega lítið. En þetta er ekkert aðalatriði. — Ef hér er um beztu skilyrðin á landinu að ræða, þá er ég vondaufur um góðan árangur í rafveitumálunum. En með því að samþykkja þessa till. hv. þm., er verið að samþykkja allt þetta mikla rafveitubákn. Fordæmið væri skapað og ekki hægt að neita öðrum, sem á eftir kæmu. Það er óviðeigandi, þegar um jafnmikið fjárhagsmál er að ræða og þetta, að ráða því til lykta með einföldu fjárlagaákvæði. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ef í rafveitufrv., sem liggur fyrir þinginu, yrði samþ. annað hlutfall um fjárframlag en farið er fram á í brtt., mundu þeir þm. Skagf. fallast á, að þetta fyrirtæki félli undir sömu ákvæði. En það er örðugra að kippa þessu til baka, ef minna verður ákveðið í frv. eða væntanl. lögum.

Ein af ástæðunum til þess, að hv. flm. taldi þetta mál svo aðkallandi, er sú, að Sauðárkrókur sé um það bil að skipta um raftæki. Þetta eru kannske rök í málinu, en ég verð að segja, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, liggur ekki svo mikið á, að 1–2 ár geti haft nokkur veruleg áhrif. — Það er hreinasti misskilningur, að ég haldi, að hægt sé að virkja allt landið á einu og sama árinu, enda liggja fyrir upplýsingar frá flokksmönnum hv. þm. um, að það taki aldir, en ég vil, að þetta mál sé athugað rækilega frá öllum hliðum.

Um ábyrgð ríkissjóðs í sambandi við þetta get ég verið fáorður. Það hefir komið fyrir, að svo gálauslega hefir verið farið með slíkar ábyrgðir, að áður en ábyrgðirnar voru fengnar, hefir verið leitað láns í útlöndum. Síðan hafa komið viðvaranir til forráðamanna landsins frá merkum fjármálamönnum. Ef slíkt færi að endurtaka sig, mundi það verða illt fyrir lánstraust okkar.

Hv. 1. þm. Rang. vil ég svara því, að hann hefir misskilið mig, ef hann heldur, að ég hafi sagt, að fjárveitingar til Hólakirkju hafi orðið henni til skemmda. Ég sagði bara, að það hefði verið gert við kirkjuna fyrir nokkrum árum, en nú væri áhugi orðinn mikill í þá átt, að bæta enn upp á hana og færa hana í sitt forna horf.

Ef till. hv. 3. þm. Reykv. um styrk til Kvenfélagasambands Íslands verður samþ., er ætlazt til, að kvenfélög á Norður- og Austurlandi fái sinn hluta af styrknum. Vitanlega yrði þá líka að veita styrk kvenfélögum á Suður- og Vesturlandi.

Um risnuna til skólastjóra menntaskólanna skal ég geta þess, að vegna hennar hljóta þeir að verða fyrir meiri útgjöldum en þeir geta borið af launum sínum, og n. fannst sjálfsagt að bæta þeim það upp. Einnig finnst n. sjálfsagt að glæða skólalífið og koma á nánari samvinnu milli kennara og nemenda. Hv. 1. þm. Rang. sagði, að hann vildi ekki veita styrk til þess að kaupa fyrir sykur og rúsínur handa skólapiltum. Ég skal engar forskriftir gefa um þetta, en ég býst við, að ef hv. þm. heimsækti skólastjórana og fengi kaffi, vildi hann fá sykur í það, og ef hann fengi jólaköku, vildi hann ekki hafa hana rúsínulausa.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að það mundi hafa verið venja, þegar um minni háttar lendingarbætur hefði verið að ræða, að styrkja ekki framkvæmd þeirra með ríkissjóðsábyrgð, af því að upphæðir í því skyni væru svo smáar, að hrepparnir væru álitnir einfærir um framkvæmdirnar. Þessu væri nú ekki til að dreifa að því er snerti till. hans um styrk til Keflvíkinga, af því að þar væri um svo stóra upphæð að ræða. En ég vil segja hv. þm., að fyrir fjvn. lá beiðni frá Húsvíkingum um viðlíka háa fjárhæð, en ekki farið fram á ríkissjóðsábyrgð. Það er auðvitað rétt, að því stærri fyrirtæki, sem þorpin ráðast í, því meiri þörf er þeim á styrk, en þess ber að gæta, að möguleikarnir til að standa undir slíkum fyrirtækjum eru þá líka meiri. Annars er örðugt að greina á milli þess, hvað eru lendingarbætur og hvað er hafnargerð.

Um styrkinn til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur skal ég geta þess, að hann skar sig úr í fyrra, fyrir það, hvað hann var hár, en þar sem menn hafa ætlað, að hann væri veittur í eitt skipti fyrir öll, var hann samþ. Fjvn. flytur nú aðra till. sama efnis, en hefir lækkað upphæðina.