26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

Þingvíti

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefir skýrt frá þeim ástæðum, sem voru þess valdandi, að fjvn. var ekki á þingfundi í gær, og hefi ég þar engu við að bæta. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti hafi fundið gildar ástæður til að fella þennan úrskurð, en ég skal ekki gera það að umræðuefni. En það lítur út fyrir, að það eigi að fara að taka hér upp nýja siði, og ég er ekkert á móti því. En hæstv. forseta hefði verið innan handar að fá upplýsingar hjá ríkisstj. um fjarveru okkar. Henni var kunnugt um för okkar, þó að hún hefði ekki getað skýrt frá þeim töfum, sem fyrir okkur komu.

Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, munum við ekki taka á móti kaupi fyrir þennan dag, heldur láta þann úrskurð standa, sem hæstv. forseti felldi í gær, hvað sem síðari yfirlýsingum hans líður. Hann má hafa sitt gildi eins og til var ætlazt. Ég skoða þetta sem nýja reglu, sem eigi að innleiða, hvað sem yfirlýsingu hæstv. forseta nú líður. Annars er það ekki svo óvanalegt, að þm. séu fjarstaddir. Það þarf ekki annað en líta í Þingtíðindin til að sannfærast um það, þó þeir fyrir þær sakir hafi ekki verið settir í þingvíti.

Eins og allir vita, er fjvn. ekki svo fjölmenn, að fjarvera hennar einnar geti valdið því, að deildin væri ekki ályktunarfær. Í fjvn. eru 7 menn, svo að eftir eru 21 maður, þó að hún færi burt, og eins og kunnugt er, þarf ekki nema 15 þm. til að fundarfært sé, en þó hefir vafalaust það verið fjarvera fjvn. fyrst og fremst, sem olli því, að þessi úrskurður var felldur, og eins og hv. þm. Borgf. tók fram, er þessu skeyti því sérstaklega beint til fjvn.

Ég vona því, að svo framarlega sem þm. fá ekki leyfi eða eru veikir, þá verði þessu stranglega framfylgt hér eftir, og hefir það þá vonandi þau áhrif, að betur vinnist þingstörfin hér eftir. Ég geng því út frá því, að hér eftir verði farið eftir þeirri reglu, sem upp var tekin hér í gær. Það er síður en svo, að ég uni illa þessum úrskurði. Ég vona aðeins, að hann verði látinn standa og eftir honum verði farið framvegis.