26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

Þingvíti

Pétur Ottesen:

Það er undarlegt, hversu hv. þm. Dal. hagar orðum sínum. Hann talar um, að „farið hafi verið eftir lögum“, en hér hefir enginn verið að bera á móti því. Ég sagði aðeins, að hér væri um að ræða nýja framkvæmd á lögum, sem ekki hefði áður tíðkazt. En þess var von, að hv. þm. reyndi að snúa út úr á þennan hátt, því að hann gat ekki sloppið heilskinna frá slettirekuhætti sínum með öðru móti, og vafamál, hvort honum tókst það með þessu.