14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (716)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls og sé ekki ástæðu til annars en að fallast á till. hans í málinu. Ég held, að þetta umrædda skeyti stafi af einhverjum misskilningi sýslu- manns viðvíkjandi frv.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá er það bæði rétt og sjálfsagt, að almenningi þar efra veitist nokkur réttur til að ákveða um verð á út- og uppskipun þar, sem mörgum hefir til þessa þótt býsna hátt. En þessi réttur næst ekki nema með því að veita þessa heimild í lögum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. segir, að báðar þessar sýslur hafi lagt fé til þessa mannvirkis, þá er það að vísu rétt; en það er vitanlega ekkert aðalatriði, hvort báðar sýslunefndir eða aðeins önnur er höfð með í ráðum um að ákveða taxtann og ráðstafa þessum málum, því að það, sem í þessu efni er hagsmunamál annarar, er um leið hagsmunamál hinnar.

Það er alveg rétt, að það skiptir mjög hag sýslnanna, hvernig þetta er framkvæmt, og hér er verið að fá þeim nokkurt vald í hendur til að kveða um það, hver gjöld verði lögð á búendur þar efra vegna hafnarinnar. Ég legg eindregið til, að þetta mál nái fram að ganga, því að það er ekki eftir neinu að bíða.