14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (720)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Eins og tekið hefir verið fram, er það efni og undirrót þessa frv., að hægt verði fyrir hlutaðeigendur þarna efra að ráða nokkru um það, hver taxti verður settur á upp- og útskipun á þessum stað.

Það er alls ekki sagt, þótt þetta verði samþ., að hafnarnefnd notaði sér þetta tækifæri, en aðstaða hennar verður betri, ef hún hefir þessa heimild og tilgangurinn er sá, að sjá um, að upp- og útskipun verði ekki dýrari en nauðsyn krefur. Þess vegna er það ekkert annað en hagsmunamál bænda þarna efra, sem hér er verið að hugsa um, og því engin ástæða til fyrir þá menn, sem vilja hlynna að hag þeirra, að vera að berjast á móti þessu. — Hitt kann vel að vera rétt, að það ætti líka að veita sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu íhlutunarrétt um þetta, og mætti þá koma með brtt. við 3. umr. um það, að sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu væri veittur hinn sami réttur og sýslunefnd Mýrasýslu.