29.01.1930
Efri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (765)

17. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er mjög lítið fyrirferðar, eins og allir sjá, en þó gerir það ráð fyrir töluverðum breyt. á kjördegi, og skal ég í stuttu máli gera grein fyrir þeim.

Í fyrra bar ég fram brtt., sem gekk í sömu átt, nefnilega, að kjördagur í sveitum skyldi vera á vori, en að hausti í kaupstöðunum. Þegar þetta mál var til umr., varð ekki samkomulag um þetta, en í fyrra vetur samþ. Alþingi hinsvegar að færa kjördaginn frá 1. vetrardegi yfir á vorið, og var þetta gert vegna sveitanna, sem höfðu sýnt fram á það með rökum, að þeim var hér um bil ómögulegt að sætta sig við haustkjördag, sökum allskonar erfiðleika, sem honum væru samfara.

Alltaf þegar þm. hafa komið fram með brtt., sem gengið hafa í þessa átt, hafa kaupstaðirnir risið upp til mótmæla og komið með áskoranir um að láta þetta óbreytt. Ég minnist þess ennfremur, að þegar þetta mál var hér til umr. fyrir nokkrum árum, þá strandaði það á því, að hv. þdm. álitu, að engin sanngirni mælti með breyt., þegar tekið væri tillit til kaupstaðanna. Hinsvegar er það vitanlegt, að það er miklu hægara fyrir sveitirnar að hafa kjördag á vori en hausti, og því er það athugandi, hvort hv. Alþingi getur ekki fullnægt báðum aðilum.

Ég geri ráð fyrir, að komið verði fram með ýms rök gegn þessu og borið við erfiðleikum á framkvæmd þessa, ásamt fullyrðingum um, að kjördagur þurfi að vera hinn sami um allt land. En þá má benda á, að það hefir ekki verið svo hér á landi, enda eru þess dæmi, að maður, sem hefir boðið sig fram til þings í einu kjördæmi og fallið þar, hefir komizt að í öðru við sömu kosningar.

Í Svíþjóð, sem þó á mikli betri og fullkomnari samgöngutæki en við, sem þetta land byggjum, hefir það verið svo, að til skamms tíma hefir farið allt að því mánuður til þingkosninga, eins og drepið er á í grg. Þessu mun að vísu hafa verið breytt nú nýlega, en gamla venjan var þessi.

Ég mun ekki fjölyrða frekar um þessa breyt., en vænti þess, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni umr. Að endingu vil ég svo taka það fram, að þetta er eina færa leiðin til þess að fullnægja bæði kröfum sveita og kaupstaða í landinu.