24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (779)

17. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

* Mér skilst nú svo, að það, sem hv. 3. landsk. sagði um till. þær, sem hér liggja fyrir, og þar á ég náttúrlega við till. minni hl. og frv. að svo miklu leyti, sem það fylgist að, komi heim við það, sem hv. þm. hefir áður haldið fram í þessu máli, sem sé að hann hefir verið eindregið á móti því, að kaupstaðirnir fengju að hafa kjördag að haustinu til. En ekki skil ég nú það, að maður, sem vill láta fækka þingum um helming, þ. e. a. s. hafa ekki þing nema annaðhvert ár, gera stjskrbreyt. til þess, geti haldið því fram, að það sé verulegur ókostur að bíða í fjóra mánuði til að fá upplýst um úrslit kosninga. Hv. þm., sem vildi fjarlægja fólkið svo mjög frá áhrifum á þingið, að láta það koma saman aðeins annaðhvert ár, er aftur á móti svo bráðlátur um kosningar, að honum finnst það ekki geta komið til mála að láta bíða í fjóra mánuði eftir úrslitum þeirra, — svo ef þetta tvennt er borið saman, þá verða ástæður hv. þm. heldur veigalitlar. Ég skal benda hv. þm. á það, að í menningarlandi, sem við þekkjum nokkuð til, í Svíþjóð, fara kosningar ekki fram á einum og sama degi, ég held að þær standi yfir heilan mánuð eða lengur, svo að það er í sjálfu sér til fordæmi fyrir því, að kosningar standi yfir nokkuð lengi. En jafnvel þótt ekkert fordæmi væri til, ef það væri nauðsynlegt fyrir okkur, þá er sjálfsagt að taka það upp, sem skynsamlegt er, án tillits til þess, hvort eitthvað svipað tíðkast hjá öðrum.

Það er kosturinn við mína till., að bændur fá þá að kjósa í sveitunum á þeim tíma, sem þeim þykir heppilegastur, og kaupstaðabúar á sínum tíma. Þá er aðeins eftir að brúa það bil, sem er á milli fyrri og síðari kosninga, og það hefi ég gert með því að láta menn ekki vita um úrslitin. Ég hefi útilokað hættuna. Það myndi áreiðanlega allt geta haft áhrif á kaupstaðakosningarnar, eins og mér skildist hv. 3. landsk. líka benda á. Og mér skildist eiginlega hv. 3. landsk. mæla frekar á móti brtt. hv. meiri hl. í ræðu sinni, en vera jafnvel minna á móti mínum brtt. — Mér skilst afstaða hv. þm. vera eins og karlsins í hreppsnefndinni, sem sagði: Ég er nú alveg sammála því, sem Jón á Bala sagði, en allt um það hlýt ég að greiða atkv. með till. prestsins. — Svona er afstaða hv. þm. Honum finnst mínar till. miklu betri, en samt læzt hann ætla að fylgja till. hv. meiri hl.