03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

10. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Með lögum frá 1919 voru sett ákvæði um dýrtíðaruppbót á laun embættismanna. Þessi lög hafa nú þegar tvisvar verið framlengd, 1925 og 1928. Fjhn. hefir orðið sammála um, að lög þessi verði framlengd enn, eða þar til fengin er endanleg skipun á launalögunum. N. er öll sammála um þetta. Hinsvegar er n. ekki sammála um, til hve langs tíma ákvæði frv. skuli gilda. Í frv. er gert ráð fyrir því, að þau gildi til ársloka 1932, og minni hl. n., eða hv. 1. þm. N.-M. og ég, vill samþ. frv. óbreytt. En meiri hl. n. vill ekki láta þetta ákvæði gilda lengur en til ársloka 1931 og hefir komið fram með brtt. um það. Þar sem hv. þdm. er mál þetta fullkunnugt áður, þykist ég ekki þurfa að fjölyrða um það nú. Hér er heldur ekki nema um lítilfjörlegan skoðanamun að ræða, sem enga verulega þýðingu hefir. Ef reynast skyldi óumflýjanlegt að framlengja þetta til 1932 og það verður ekki gert núna, þá verður það vitanlega gert á næsta þingi. Hinsvegar hefði ég talið réttara að framlengja lögin til ársloka 1932, eins og frv. gerir ráð fyrir, því enda þótt ný launalög verði gengin í gildi áður, sem þó er óvíst, þá mundu þessi ákvæði um leið falla niður af sjálfu sér, og er þá enginn skaði skeður. Ég legg þó enga sérstaka áherzlu á það, hvort heldur gengið verður að frv. óbreyttu eða brtt. samþ.