03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

10. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Það er almenn krafa frá öllum embættismönnum, að launakjörin séu tekin sem fyrst til athugunar. Á síðasta þingi var talsvert mikið rætt um að koma fram með þáltill. um að skora á stj. að hraða þessari endurskoðun. En ástæðan til þess, að ekki var komið með þáltill., var sú, að gengið var út frá, að stj. mundi hraða endurskoðuninni. Ég vil framlengja þessi lög, en aðeins til eins árs, af þeirri ástæðu, að ég tel nauðsyn á því vera, að endanleg skipun verði sem fyrst gerð um launamálið. Ég vil svo að síðustu beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort byrjað sé á endurskoðun launalaganna og hvenær megi vænta þess, að málið verði lagt fyrir þingið.