24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (790)

17. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

* Ef tveir kjördagar eru hafðir, verður vitanlega ómögulegt að setja þá svo, að ekki megi segja, að þeir, sem síðar kjósa, hafi að sumu leyti betri aðstöðu. Með röksemdafærslu hv. 3. landsk. má í rauninni eins segja, að þeim, sem falla frá í sveitakjördæmunum frá því að þeir neyttu kosningarréttar síns til fyrsta vetrardags, sé veittur miklu betri réttur en þeim, sem eins stendur á með í kaupstöðum og kauptúnum. Þetta er engin ástæða til að vera á móti mínum brtt. Fyrir þessi sker verður aldrei sýnt, og till. hv. meiri hl. gera það ekki fremur en mínar. Ef það er rétt, að þetta sé eina ástæða hv. þm. til að greiða atkv. gegn till. mínum, vona ég, að hann hverfi nú frá villu síns vegar.

Þá verð ég að svara hæstv. forseta, sem gekk úr sæti sínu til þess að geta beint aths. sínum til mín. Einkum fann hann ástæðu til að skopast að því, að ég hefði talað um réttlætistilfinningu, og þótti það hin mesta goðgá. En ég vil nú mega segja: Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er. Ef hann finnur slíka hvöt hjá sér til að fyllast háði og spé, ef minnzt er á réttlætistilfinningu, þá ætti hann að líta í grg. stjfrv. Þar stendur svo, — með leyfi hæstv. forseta:

„En um leið hefir kaupstöðunum verið gert töluvert erfiðara fyrir. Virðist engin leið út úr því vandamáli, til að unna bæði sveitum og kaupstöðum réttlætis í þessu máli, en að hafa kjördegi tvo, fyrir sveitir á vorin, fyrir kaupstaði á haustin“.

Þarna minnist hans eigin elskulega stj. á réttlæti, og finnst mér hv. þm. ætti að taka í lurginn á henni fyrir.

Það er annars ekki svo ýkjamikill munur á till. mínum og hæstv. stj. í þessu máli. Ef um öfgar er að ræða hjá mér, þá fer hæstv. stj. einnig með öfgar. Við erum sammála um aðalatriðið, að hafa kjördagana tvo, aðeins vil ég láta fleiri njóta réttlætisins. Því ber að sama brunni, hv. þm. á að beina ásökunum að sinni kæru landsstj., en ekki mér.

Annars var einn stór misskilningur í þessu máli hjá hv. þm. Hann var að beiðast þess, að sveitirnar fengju nú að vera í friði í nokkur ár með sinn kjördag. Vil ég þá fyrst minnast þess, hverjir það voru, sem ákváðu kjördaginn 1. vetrardag. Það voru bændur sjálfir, sem réðu því. Þá voru sárfáir embættismenn á þingi, og engir jafnaðarmenn til að standa fyrir öfgunum. Bændur ákváðu þennan kjördag þá vegna þess, að þeim þótti hann hentugastur. — En nú verða menn að muna það, að enginn fer fram á, að bændur séu sviptir kjördeginum að vorinu. Þeir hafa fengið sinn rétt. Hér er aðeins farið fram á, að þeir unni öðrum réttlætis jafnframt.