30.01.1930
Efri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (814)

22. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Þetta frv. er að ýmsu leyti svo úr garði gert, að hjá því verður varla komizt, að því fylgi ummæli frá öðrum en höfundi þess og flm. við þessa umr. Skal ég þó taka það fram strax, að aths. mínar verða færri en frv. á skilið. Ber tvennt til þess. Fyrst það, að ég er enginn lagamaður, og er því vanbúinn til þess, að svo komnu, að gagnrýna þau hin einstöku ákvæði frv., sem eru lögfræðilegs efnis. Hitt er það, að ýmsar þær aths., sem ég vildi gera við frv., eiga samkv. þingsköpum ekki heima við þessa fyrstu umr. málsins.

Ég skal fyrst víkja að því, að það er rétt hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir hæstaréttarheitinu á okkar æðsta íslenzka dómstóli. Því er haldið fram í aths. við þetta frv., og kom einnig fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að nafnið hæstiréttur væri ekki viðeigandi heiti á æðsta dómstólnum í landinu, af því að dómstigin væru. ekki nema tvö. Frv. sjálft sýnir, að þetta er ekki á fullum rökum byggt. Þó að frv. velji hæstarétti nýtt heiti, hefir höfundur þess þó ekki komizt hjá því að velja dómnum heiti á erlendu máli, heiti, sem þýðir hæstiréttur og ekkert annað.

Það er jafnrétt hugsun í því að kalla okkar æðsta dómstól hæstarétt, þó að dómstigin séu aðeins tvö. Ég veit ekki betur en að það séu margir dómstólar í landinu. Fyrst er það nú dómstóllinn, sem lögmaðurinn hér í Reykjavík skipar. Svo allir dómstólarnir, sem sýslumennirnir úti um land skipa. Þá er það fógetarétturinn, gestarétturinn o. s. frv. En einn dómstóli er yfir þessum dómstólum öllum — hæstiréttur. Segjum, að af þeim hv. þm., sem sæti eiga í þessari deild, væru þrettán jafnháir, en sá fjórtándi bæri höfuð og herðar yfir hina alla. Hann væri þá þeirra hæstur, jafnt þó að hinir væru jafnháir, en ekki misháir. Eins er það með hæstarétt. Hann er hæsti rétturinn í landinu, hvort svo sem aðrir réttir í landinu eru jafnháir eða ekki.

Annars skiptir þetta engu máli í sjálfu sér. Ég vildi aðeins benda á það, að það er rétt hugsun í hæstaréttarnafninu og því ekkert því til fyrirstöðu að halda því. Og það er auðséð, að hæstv. dómsmrh. þykir nafnið viðeigandi, úr því hann þýðir á erlent mál sitt nýja heiti á réttinum með þeirri hugsun, að rétturinn sé hæsti rétturinn í landinu.

Röksemdaleit hæstv. dómsmrh. til Noregs fannst mér óviðeigandi, eins og ég hefi áður fengið tækifæri til að taka fram hér á Alþingi. Og það var hreint og beint broslegt, þegar hann fór að lýsa ópum og húrrahrópum mannsafnaðar á torgi einu í Noregi, þegar krakkakríli kom þar fram á veggsvalir eins hússins. Afturhvarfsstefnan í Noregi á við þau rök að styðjast, að þjóðin varð fyrir því óláni, að hin innlenda menning slitnaði í sundur og týndist í þrjú hundruð ár, og það var ekki nema eðlilegt, að Norðmenn færu að reyna, þegar þeir vöknuðu eftir þetta tímabil, að reisa við hjá sér og vekja aftur til lífs eitthvað af því, sem hafði verið þeirra þjóðleg eign áður, en þeir höfðu glatað vegna þeirra erlendu áhrifa, sem þeir áttu við að búa. Þó að aðstaða okkar Íslendinga hafi á undangengnum öldum verið um margt lík aðstöðu Norðmanna, glötuðum við í engu okkar fornu menningu. Það er því misráðið af okkur að fara að herma þessa afturhvarfsstefnu eftir Norðmönnum. Afturhvarfsstefnan á erindi til þeirra þjóða einna, sem glatað hafa sínum þjóðlega arfi.

Þó að ég hafi þetta á móti röksemdum hæstv. dómsmrh. fyrir því að skíra hæstarétt fimmtardóm, ber þó engan veginn að skilja þessi ummæli mín svo, að ég sé á móti því heiti. Mér stendur á sama. Við Íslendingar erum í fullum tengslum við fortíð okkar á þessu sviði, hvort heldur sem við nefnum æðsta dómstólinn í landinu fimmtardóm eða ekki.

Þá vil ég víkja að þeim ummælum í innganginum að grg. þessa frv., „að það sé alveg óhætt að fullyrða, að hæstiréttur hafi ekki undanfarin ár notið þess trausts, sem æskilegt væri“. Ég tilfæri þessi ummæli orðrétt, og gæti tilfært fleiri, því að það er margt fleira, sem hnígur í sömu átti í hinni margorðu grg. þessa frv.

Þessum ummælum vil ég algerlega mótmæla fyrir hönd alls þorra manna í öllum stjórnmálaflokkum. Hæstiréttur nýtur, sem betur fer, óskoraðs trausts allrar þjóðarinnar, eins og hann er skipaður og eins og dómarar hans hafa rækt starf sitt. Þó eru til undantekningar frá þessu, og eins og oft hefir komið fram, er hæstv. dómsmrh. sjálfur ein af þeim fáu. Hann hefir, eins og svo margir aðrir, orðið undir, sem kallað er, við dómsúrslit, en hefir ekki haft skapstillingu til að bera ósigur sinn eins og aðrir borgarar telja sér skylt að gera, ef hæstaréttardómur gengur þeim á móti, heldur hefir hann síðan, bæði hér á þingi og í Tímanum, verið með róg og níð um hæstarétt. Ég man aðeins eitt annað dæmi um þetta sama. Ég man það, að einn héraðsdómari fékk ávítur hjá hæstarétti fyrir meðferð sína á gæzlufanga, og hann undi þeim svo illa, að í fyrsta sársaukanum út af þessu skrifaði hann óvirðandi um réttinn í opinberu blaði. Þegar þessi tvö dæmi eru tekin frá, og þau bera frekar vitni um skapbresti þessara tveggja manna en að réttinum hafi mistekizt, veit ég ekki betur en að hæstiréttur njóti óskoraðs trausts, sem betur fer.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að efnisákvæðum frv. Um þau má það segja, að þau hníga öll í þá átt að rýra réttaröryggið í landinu og gera æðsta dómstólinn háðan umboðsvaldinu, og þá fyrst og fremst dómsmálaráðherranum. Ég vil færa þessum orðum mínum nokkurn stað og nefni þá fyrst ákvæði frv. um tilnefningu dómaranna í þennan nýja fimmtardóm. Það álíta margir æskilegt að láta fleiri en 3 dómara skipa æðsta dómstólinn í landinu, og get ég sett mig inn í hugsun þeirra manna. Til þess að ná því takmarki, að t. d. dómarar skipi réttinn, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eru tvær leiðir. Önnur sú, að fjölga fastadómurunum, hin sú, að hafa aukadómara, sem samkv. embættisskyldu sinni taki sæti í réttinum, þegar málin þykja þess verð, að fleiri en þrír dæmi. Það, sem mér finnst athugavert við ákvæði þessa frv. um kvaðningu aukadómara, er það, að fastadómararnir eiga að kveðja þá til dómsetu. Ég er ekki á móti þessu ákvæði vegna þess, að ég vantreysti fastadómurunum til að nota kvaðningarvald sitt, en það er auðséð, að með því að leggja þeim þetta vald í hendur er skapaður möguleiki til tortryggni gegn réttinum, af því að búast má við, að menn verði óánægðir með, að aukadómarar séu tilkvaddir í eitt skipti, en ekki annað. Ef betra þykir að fara þessa leið en að fjölga fastadómurunum, ætti því að hlífa réttinum við slíkum möguleika fyrir álösun og ákveða, í hvaða flokkum mála aukadómarar skuli taka sæti.

Þá er í frv. farið fram á að afnema þá tryggingu, sem hæstiréttur getur nú sjálfur komið fram, um að ekki séu skipaðir aðrir í dómarasæti í réttinum en hæfir reynast. Hver nýr dómari verður að ganga undir nokkurskonar próf, greiða fyrstur dómsatkv. í nokkrum málum, og ef hinum dómurunum þykir hann ekki hafa sýnt næga hæfileika og þekkingu, geta þeir meinað honum setu í réttinum. Umboðsvaldið er ekki einrátt um það að skipa dómara í hæstarétt, heldur hafa þeir dómarar, sem eftir sitja á hverjum tíma, nokkurt vald í því efni, enda virðist það sjálfsagt, því að það er engin sönnun, út af fyrir sig, um það, að maður sé hæfur til að vera dómari í hæstarétti, þó að hann hafi lokið fullnaðarprófi í lögum og fullnægi öðrum ytri skilyrðum. Burtfellingin á þessu ákvæði er því spor í þá átt að rýra álit réttarins, en fær hinsvegar hæstv. dómsmrh. kærkomið vald í hendur.

Þá skal ég aðeins drepa á ákvæði frv. um dómsuppkvaðningu. Þetta er óheppilega orðað í frv., sem virðist gera ráð fyrir, að dómararnir megi ekki undir neinum kringumstæðum undirbúa dómsatkv. sitt eftir að málaflutningnum er lokið. Þetta mega þeir nú, og þennan rétt er sjálfsagt, að þeir hafi, til þess að tryggja það, að dómsatkv. fari þeim sem bezt úr hendi. Samkv. ákvæðunum um hina opnu atkvgr. — þó að það sé reyndar óljóst eftir frv. — virðist sem dómurum sé líka gert það að skyldu að skýra frá dómsatkv. sínu frammi fyrir þeim áheyrendum, sem réttarsalinn skipa í það og það sinn. Þetta er ekki svo í Noregi, enda skal ég ekki staðhæfa, að það sé í frv. — það er óljóst orðað —, enda þótt til þess sé bent í aths.

Ég skal ekki fara meira út í þessi atriði, enda þótt ég geri ráð fyrir, að menn með sérþekkingu hafi fleira við þau að athuga.

Þá vík ég að því, er ég tel mesta missmíði á frv., sem er bein tilraun til að nema burt það réttaröryggi, að hæstiréttur sé framvegis óháður umboðsvaldinu. Ákvæði til tryggingar þessu eru í 57. gr. stjskr., en í frv. er gengið á svig við þau öll og sum brotin. Í 57. gr. segir svo:

„Þeim dómendum, sem ekki hafa að auki umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi“.

Dómurum verður því alls ekki vikið úr embætti með lagasetningu. Tilætlunin er sú, að tryggja það, að dómurum verði ekki vikið úr embætti nema embættin séu lögð niður. Þetta ákvæði er til þess að tryggja það, að umboðsvaldið geti ekki vikið dómurum frá eftir eigin geðþótta. Þá stendur í 57. gr.: „og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana“. — Nú orkar tvímælis, hvort hér sé á ferðum nýskipun á dómstólunum, svo að þetta ákvæði eigi við. En þó að svo væri, sýnir stjskr.gr. ekki annað en það, að núverandi hæstaréttardómarar eru skyldir til að taka sæti í fimmtardómi.

Loks er heimilt samkv. stjskr. að láta dómara fara frá, þegar hann er orðinn 65 ára, enda haldi hann óskertum launum. Þetta er trygging fyrir því, að dómarar þurfi ekki að óttast, að óvinsældir hjá valdhöfunum rýri efnalega afkomu þeirra.

Þessi ákvæði um vernd dómstólanna gegn yfirgangi umboðs- og löggjafarvaldsins er í fullu samræmi við 2. gr. stjskr. og þá þrískiptingu valdsins, sem þar er ákveðin, að framkvæmdarvaldið sé hjá konungi, löggjafarvaldið hjá Alþingi, en dómsvaldið hjá sérstökum dómendum.

Þessi skipting valdsins milli þriggja jafnhárra aðilja er skilyrði fyrir því að vera réttarríki. Svo verður ekki litið á það ríki, þar sem dómstólarnir eru háðir umboðsvaldinu. Hér er því um skýlaust stjskr.brot að ræða.

Þá er svo ákveðið í frv., að dómararnir megi ekki sitja í embætti sínu eftir að þeir eru orðnir 60 ára. Þetta fer auðvitað í bága við 57. gr. stjskr., en þó er annað verra. Frv. segir ekkert um það, hvað á að taka við þessum mönnum, þegar þeir fara úr embætti. Allir vita, að vorri almennu eftirlaunalöggjöf er svo háttað, að þeir, sem ekki hafa hærri laun en dómurunum eru ætluð, verða í tæka tíð að hafa í huga að sjá fyrir sér, er þeir láta af embætti. Allir vita, að varla er þess að vænta, að sextugur maður gerist sjálfstæður atvinnurekandi, og þá liggur auðvitað beinast við fyrir lögfræðing að leita sér atvinnu á vegum hins opinbera. Þessir menn gætu oft og tíðum verið með óbiluðum starfskröftum og fjölskyldu í ómegð. Það er því hætt við, að áhyggjur þessara manna fyrir framtíðinni kynnu að hafa áhrif á dóma þeirra, jafnvel ósjálfrátt. Þetta ákvæði er því með öllu ófært, nema svo sé ákveðið sem í 57. gr. stjskr., að dómararnir haldi fullum launum. Með því móti verður réttaröryggið óskert að þessu leyti, en kostnaðarsamt getur þetta orðið, og stjskr.breyt. þarf til þessa.

Þá kem ég að 3. lið 8. gr. Þar segir, að forseti fimmtardóms og aðaldómarar megi ekki vera yngri en 30 ára og ekki eldri en 60 ára. „Undanþegnir þessu skilyrði eru þó þeir, er skipa hæstarétt þegar fimmtardómur tekur til starfa“. En svo segir, að enginn fastur dómari megi vera eldri en 65 ára. Stjskrgr. gefur umboðsvaldinu rétt til að veita dómara lausn með fullum launum, t. d. vegna heilsubilunar, þegar hann er orðinn 65 ára. En það er allt annað en að dómarar séu skyldir að láta af embætti á þeim aldri. Hæstv. dómsmrh. verður því að breyta stjskr. til þess að þetta komist í framkvæmd.

Þá er 2. gr. frv., þar sem ákveðið er, að hæstiréttur skuli lagður niður og veitingarvaldið lagt óskorað í hendur umboðsvaldsins.

Það getur verið, að það sé ekki til ætlazt í frv., að valið á hinum þrem fyrstu dómurum í fimmtardómi sé frjálst, en ég álít, að til þess að stjskr. sé fullnægt eigi að taka það skýrt fram, að dómendur hæstaréttar eigi að flytjast yfir í fimmtardóm.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta væri hið merkasta mál, er kæmi frá þessu þingi. (Dómsmrh.: Sem lægi fyrir). Hæstv. ráðh. sagði nú hitt, en hann má leiðrétta orð sín.

Ég skal kannast við þetta. Ég kalla það einsdæma atburð, ef þúsund ára afmæli Alþingis verður haldið hátíðlegt með því, að dómsmrh. fær konungsvaldið til að bera fram frv., sem fer í bága við þann grundvöll, sem þjóðskipulag vort er reist á, þann, að æðsta dómsvaldið sé óháð umboðsvaldinu. Mér þykir sorglegt, að önnur eins ósköp geti komið fyrir á sjálfri afmælishátíðinni.