31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (820)

22. mál, fimmtardómur

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég ætla aðeins að taka það fram, að aths. mín í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, var ekki þess eðlis, að hæstv. dómsmrh. þyrfti að stökkva upp eins og strákur og ausa yfir mig illkvæðisorðum af verstu tegund. Ég vænti þess, að hæstv. forseti d. mundi af sinni venjulegu prúðmennsku svara fyrirspurn minni blátt áfram. Ég las bara upp úr 27. gr. þingskapanna þessi orð: „Lagafrumvarp, er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni, eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frv. til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn, vísar forseti því frá“. — Þetta var allt og sumt, sem ég dirfðist að segja. Það var svo sjálfsagt, að einhver fyrispurn kæmi fram um þetta atriði, að ég var þess albúin að gera það, undir eins og frv. kom fram, og það án þess að fara í smiðju, eins og hæstv. ráðh. lætur sér sæma að bera mér á brýn. Já, hæstv. ráðh. hefir áður sýnt „lofsverða“ viðleitni í því að ófrægja mig utan þings og innan og telur mig sennilega ekki læsa, því annað og meira þarf ekki til þess að geta kynnt sér þingsköp Alþingis. Máske er það vegna þess, að ráðh. hefir ekki gefizt færi á að skeyta skapi sínu á mér fyrr á þessu þingi, að hann getur nú ekki lengur setið á sér að reyna að svala sér á mér, af því að ég gerði mína sjálfsögðu skyldu sem þm. Ég aumka þjóðina, að hafa fyrir ráðh., já meira að segja dómsmrh., mann, sem ekki kynokar sér við að nota hin lægstu meðul og hina strákslegustu framkomu (Forseti hringir.) til þess að koma fram ofsóknarhneigð sinni. (Forseti GÓ: Ég skal taka það fram, að ég hefði ef til vill átt að hringja oftar, því að nokkrir hv. þm. hafa notað alveg óviðeigandi orðbragð hér í deildinni í gær og dag. En ég kýs heldur að brýna fyrir hv. dm. að vanda framkomu sína, og gefa mér ekki ástæðu til að hringja þá niður). Ég er aðeins að svara dylgjum og árásum hæstv. ráðh., og þá eru stór orð nauðsynleg, eins og fleiri hv. þdm. hafa oftlega reynt. Ráðh. var að dylgja um það, að ég hefði farið í smiðju til lögfræðings nokkurs hér í bæ, sem ekki nyti svo mikils trausts, að hægt væri að sækja gull í greipar hans. Flestir munu skilja, við hvaða lögfræðing er átt, og ég legg það óhrædd undir dóm manna, hvers álits sá maður nýtur. Hefði ég farið í smiðju til hans, hefði ég frekar sýnt hyggindi en heimsku.

Að öðru leyti nenni ég ekki að svara hæstv. ráðh. Allt hans hjal var óviðkomandi frv. því, sem fyrir liggur, og ég vil hvorki óvirða þingið né sjálfa mig með því að fara að karpa við ráðh. um hluti, sem ekki koma þessu máli við. Það mætti að vísu halda langa ræðu út af þeim orðum, sem hæstv. ráðh. kastaði til mín vegna meinlausrar og sjálfsagðrar fyrirspurnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem ráðh. hrósar sigri yfir því, að rógur hans sé búinn að grafa undan því áliti, sem ég vona og veit, að ég nýt á meðal mætari manna en hæstv. ráðh. er.