31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (822)

22. mál, fimmtardómur

Forseti (GÓ):

Ég ætla að segja fáein orð, sérstaklega út af ummælum og fyrirspurn hv. 2. landsk. um það, að þessu máli bæri að vísa frá.

Ég skal þá fyrst geta þess, að það leikur mikill vafi á, hvort sú grein frv., sem hv. 3. landsk. minntist á, brýtur í bága við stjskr. eða gerir það ekki. En þó svo væri, að gr. þessi gengi eitthvað of nálægt stjskr. í einhverju einstöku atriði, þá hygg ég, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, og hv. deild eigi að hafa góða aðstöðu til þess að rannsaka þetta og fleiri ákvæði, sem hún liti líkum augum á.

Til eru fordæmi um það, að frv. væru borin fram, sem nokkur hluti þm. hefir álitið að einhverju leyti brjóta í bága við stjskr. Ég vil í því sambandi nefna úrskurð um slíkt mál hjá hv. núv. þm. Snæf. Það var frv. um Landsbankann. Hann benti á, að ef eitthvað væri athugavert við frv. í sambandi við stjskr., þá gæti þingdeildin vel breytt því samkv. till. n. Þessi úrskurður var kveðinn upp 20. apríl 1927. Í sömu átt mun og hafa gengið úrskurður forseta Nd. í því máli á sama þingi.

Ég sé því ekki ástæðu til að vísa þessu frv. frá.