31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (824)

22. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég get nú verið stuttorður út af þessum þremur síðustu ræðum.

Mér þykir furðu sæta, hve hinn ágæti fulltrúi kvenna, hv. 2. landsk., tók því illa, þegar ég minntist á illa meðferð á honum af hennar eigin flokki, þar sem það virðist vera almennt samkomulag, að þessi hv. þm. fái ekki að lifa lengur í pólitískum skilningi en þetta þing. Mér finnst það hart, eftir alla þá þægð, sem hv. þm. hefir sýnt sínum flokki allan þennan tíma, að vera nú kastað á gaddinn. Annars er það svo um tvo af hinum hv. landsk. þm., sem töluðu, að þeir minna á leikfang nokkurt, þar sem lítill karl er látinn stökkva út úr öskju og gera sig gildan. Þessir tveir hv. fulltrúar Íhaldsflokksins, sem ekki eiga að fá að bjóða sig fram aftur, eru látnir koma með skilaboð frá flokknum, og láta þó eins og þeir hafi eitthvert vit á málinu sjálfir. Það verð ég að taka fram í þessu sambandi, að miklu er það virðulegra, sem frá hv. 2. landsk. kemur, heldur en hv. 5. landsk. Því að þó að það sé vitleysa, sem hv. 2. landsk. kom með, var það þó viðkomandi málinu. En eftir að hv. 5. landsk. byrjaði að tala, þá hlustuðu menn á hann með þá spurningu í huga, hver hefði skrifað þessa ræðu. Hann stamaði sig fram úr henni með mestu vandræðum, eins og hann hefði ekki verið búinn að lesa hana nema tvisvar yfir. Ég var einn af þeim, sem voru að hugsa um þetta. Ég sló því fljótt föstu, að ræðan væri skrifuð fyrir hann. En þegar kom fram í ræðuna, var hún svo vitlaus, að mér þótti sem enginn mundi skrifað hafa nema sá, sem gaf sjálfum sér þá viðurkenningu, að hann væri pólitískur dvergur. Annars er sennilegast, að ræða sú, sem hv. 5. landsk. las hér upp, hafi verið skrifuð af einum flokksbróður hans í Nd., sem mun vera minnst ritfær í flokknum; og það jafnvel svo herfilega, að hann hefir áður orðið að láta annan flokksbróður sinn skrifa fyrir sig ræður. Kom þetta í ljós þegar hann fór að reka í vörðurnar í handritinu og stamaði fram úr sér þessari setningu: „Hvar er ég nú staddur í dósa?“

Þetta minnir á það, sem sagt var í Englandi, að það væri enginn Íri svo aumur, að hann hefði ekki annan enn aumari í eftirdragi. Hv. 5. landsk. hefir farið í smiðju til þess af flokksbræðrum sínum í Nd., sem sjálfur þarf að láta aðra skrifa fyrir sig ræðurnar. Enda var ekkert orð af viti í þessari ræðu hv. þm.

Hann talaði um það, hvernig Atli á Bjargi hefði verið stunginn með spjóti, en hann hefði heldur átt að minnast á, hvernig hann sjálfur stingur á sullunum, sem frægt er um úr skagfirzkum lækningum. Hann virðist ánægður með ranglæti sinna eigin flokksbræðra, og minnti í því sambandi á framkomu prestsins í Hornafirði. Veit hann ekki, að presturinn hefir hlotið fyrirlitningu alþjóðar fyrir að „axla“ umkomulausa konu? Veit hann ekki, að hæstiréttur hefir nú fyrir fáum dögum staðfest fógetaúrskurðinn í þessu Hornafjarðarmáli? Hv. þm. minnist ekkert á þá áfellisdóma, sem einstakir íhaldsmenn hafa kveðið upp yfir hæstarétti. Hv. þm. talaði um, að stj. væri hlutdræg í embættaveitingum og léti fylgismenn sína sitja fyrir þeim stöðum, sem losnuðu. Ég skal í því sambandi taka það fram, að ef hann hefði sjálfur sótt lögum samkv. um það læknishérað, sem honum mun vera svo ríkt í minni, þá gat svo farið, að stj. hefði litið í náð til hans, litið á þörf hans að komast þangað, sem hann var óþekktur. Má hann kenna heimsku sinni um, að hann ekki komst nær Keflavíkinni heldur en raun ber vitni um.

Mér þótti hart, að hv. þm. skyldi leyfa sér að áfella Jón heit. Magnússon í gröfinni, því það var hann, sem flutti frv. um fækkun dómara í hæstarétti á þinginu 1924. Ég fylgdi því þá að vísu, en hv. þm. er svo ófróður, að hann hélt, að ég hefði flutt frv. Jón heit. Magnússon átti sízt skilið að fá ákúrur frá þessu peði Íhaldsflokksins, því að hann hefir verið eini foringinn, sem hafði tök á liðinu í Íhaldsfl. og kunni að halda molunum saman.

Hv. þm. lauk máli sínu með því að minna á vindmyllu, en það er einmitt sönn táknmynd af ræðunni, því að vitleysurnar hringsnerust hver um aðra eins og vindmylluhjól, og þó voru þær fengnar að láni hjá hinum nafntogaða andlega öreiga, hv. 2. þm. G.-K.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. gefist síðar tækifæri til þess að taka upp mál sinnar stéttar, og verður þá rætt nánar við hann um það. En mér er ekki grunlaust um, að Íhaldsfl. sé farinn að verða þess var, að læknauppreisnin reynist ekki gróðamál fyrir flokkinn. Blöð flokksins eru farin að láta sér hægt um það, vegna þess að þau eru farin að finna „goluþytinn“ utan af landinu og þykir hann ekki hlýr.

Þá sný ég mér að hv. 3. landsk., en ég þarf ekki að fara mörgum orðum um síðustu ræðu hans; ég finn það aldrei betur en þegar minnstu peð Íhaldsflokksins eru að tala, hvað ræður hans eru mikið skárri en þeirra, þó að hann hafi bæði týnt flokki sínum og blaði og sé sjálfur oltinn úr foringjasætinu. Því þó að ræður hv. þm. séu lítið annað en blekkingar og vitleysur, þá eru það miklu skemmtilegri vitleysur en hjá flokksmönnum hans, er um þetta mál hafa talað. — Hv. 3. landsk. vildi sverja fyrir ummæli sín um íslenzka fánann, en það er þýðingarlaust. Allir vita, að leiðtogar gamla heimastjórnarflokksins svívirtu ísl. fánann í ræðu og riti og beittu allskonar brellum til þess að hann yrði óvinsæll í landinu. Þá fyrst, þegar svo var að þeim kreppt, að þeir voru eins og skorðaðir milli skjalda, beygðu þeir sig undir það ok, að þola íslenzka fánann. Hv. þm. ætti ekki að verja framkomu sína í því máli né samherja sinna.

Hv. þm. sagðist ekki lesa sorpblöð síns flokks. (JÞ: Þau eru líka til hjá hinum flokkunum). Ég býst við, að hv. þm. geti ekki hreinsað sig af þeim blöðum, sem flokksmenn hans gefa út og einn af guðræknustu mönnum Íhaldsflokksins hefir til sölu í bókabúðinni í Austurstræti. Hann getur ekki neitað því, að Íhaldsfl. á hluti í þessum blöðum. Og ég geri jafnvel ráð fyrir, að hann hæli sér af því, að flokkurinn hafi keypt upp eitt blað af Stormi, sem átti að koma út daginn fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hér í bænum. Það var búið með fréttamiða að tilkynna útkomu þess og yfirlýst af ritstjóranum, að blaðið væri tilbúið til útburðar um bæinn. Talið er, að flokkurinn hafi þurft að gefa 700 kr. fyrir þetta eint. af blaðinu; en hvort hann hefir fengið eitt atkv. fyrir hverja krónu, sem hann gaf til þess að losna við blaðið, skal ég ekkert fullyrða um.

Hv. 3. landsk. verður að játa það, að hann sagði í ræðu sinni í gær, að það væri eiginlega ómögulegt fyrir 60 ára dómara að fá atvinnu; en hann gætti þess ekki, að þessi umsögn hlaut að spilla hans málstað og styðja réttmæti þess ákvæðis, sem í frv. stendur og á að tryggja það, að dóminn skipi menn á bezta aldri og í fullu fjöri. Þess vegna þykir það tilvinnandi að láta aldraða dómara fara úr embætti, þó þeir haldi fullum launum. Hv. þm. virtist ganga út frá því, að dómararnir ættu ekki að fá full eftirlaun, en vitanlega er til þess ætlazt samkv. stjskr., þó það sé ekki tekið fram í frv.

Það þarf meira en að segja, að það sé broslegt að halda því fram, að hæstaréttarlögin frá 1919 hafi verið illa undirbúin. Ég hefi sýnt það og sannað með gildum rökum, að svo var; og meira að segja menn úr Íhaldsfl. héldu því fram tveimur árum eftir að lögin gengu í gildi, að nauðsynlegt væri að breyta þeim, af því þau væru svo ófullkomin. Einn af hæstaréttardómurunum tók líka í sama streng, og hæstaréttarritarinn skrifaði ritgerð um þá galla, sem á lögunum væru, og benti á nauðsynlegustu umbætur. Hvers vegna létu þessar raddir til sín heyra? Af því að þeir, sem voru málinu kunnugir, og þjóðin öll fann, að lögin höfðu verið afarilla undirbúin.