31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (825)

22. mál, fimmtardómur

Jón Baldvinsson:

Ég hefi ekki hlustað á þær umr., sem farið hafa fram hér í deildinni í dag um þetta frv., sem fyrir liggur, en vildi þó segja nokkur orð um það við þessa umr. Það eru einkum tvö atriði í þessu frv., sem ég tel vera til mikilla bóta frá því, sem nú er. Í fyrsta lagi hin opinbera atkvgr. dómaranna, þar sem ætlazt er til, að þeir geri grein fyrir í heyranda hljóði, hvers vegna þeir greiða atkv. á þann hátt, sem þeir gera. Almenningur hefir ekkert getað fylgzt með störfum og framkomu hinna einstöku dómara til þessa, og verður það að teljast mjög óheppilegt.

Ég var að ýmsu leyti óánægður með þá breyt., sem gerð var á hæstaréttarlögunum 1924, þó að ég fylgdi henni. Sérstaklega var það ákvæðið um fækkun dómenda, sem mér þótti horfa til hins lakara. En það var annað, sem ég mat þá meira, að breyt. hnigu í þá átt að hreyfa við þessari gömlu og steingerðu stofnun. Þegar einhver stofnun í þjóðfélaginu er orðin stirðnuð í gömlu formi, þá er nauðsynlegt að hleypa þar inn nýju lífslofti.

Þegar stjórnir ríkjanna sitja lengi á stóli, halda þær að þeim séu allir vegir færir, en þá er hætt við, að þær grói fastar við fortíðina eins og íhaldsstj. fyrrv., og þá verður tafarlaust að steypa þeim af stóli og skipta um. Vera má, að framsóknarstj. sé að stefna út á sömu braut og áliti, að hún hafi óskorað vald í landinu. En þá er full ástæða til að stjaka við henni, ef hún haltrar inn á villigötur íhaldsins.

Ein breyt. var gerð á hæstaréttarlögunum 1924, sem talsvert dró úr íhaldsskipulagi stofnunarinnar, en hún var sú, að dómstjóri skyldi kosinn árlega, í stað þess að vera skipaður æfilangt, og í öðru lagi var hæstaréttardómurum heimilað að greiða sérstakl. atkv. í málum. Þetta tvennt áleit ég spor í áttina til þess að draga úr íhaldi stofnunarinnar, og þess vegna fylgdi ég lagabreytingunni. En ég lýsti því þá yfir, að ég myndi síðar verða fylgjandi fjölgun dómara í réttinum, þegar tækifæri gæfist.

Aðalkostir þessa frv. eru þeir, að það gengur enn lengra inn á þessa braut í frjálslyndisáttina. Samkv. því eru dómarar skyldaðir til þess að gera grein fyrir atkvgr. sinni opinberlega, en það hlýtur að tryggja réttaraðstöðu almennings í þeim efnum, sem þarf að sækja undir dómstólana. Þess vegna skil ég ekkert í hv. 3. landsk., að hann skuli leggjast á móti þessu frv., þar sem það bætir svo mikið úr þeim lögum, sem nú gilda. — Hv. 3. landsk. vitnaði til stjskr. í ræðu sinni í gær, þar sem tekið er fram, að hæstaréttardómarar eigi að dæma eftir lögunum; það er rétt, að þetta eiga dómararnir að gera. En þrátt fyrir það eiga þeir ekki að gróa fastir í skilningi fortíðarinnar á lögunum og dæma eftir úreltri réttarmeðvitund og tíðaranda. Ef þeir gera það, þá er full þörf á að breyta stofnuninni í samræmi við nútímann.

Ef hæstiréttur á að dæma eftir bókstaflaga frá miðri 19. öld, eða eldri, en mikill hluti laganna mun vera frá þeim tíma, þá er í ég í engum vafa um það, að jafnvel hv. 3. landsk. mundi ekki álíta slíka bókstafsdóma réttláta; a.m.k. vænti ég þess.

Það hafa orðið svo stórfelldar breyt. á síðari árum, eftir heimsstyrjöldina, á þjóðskipulagi og stjórnarfari ríkjanna, að réttarfarshugtök þjóðanna eru á ýmsum sviðum gerólík þeim, sem áður voru ríkjandi. En hér á landi búum við enn að forneskjulegu skipulagi að því er snertir þá dómsmálastofnun, sem hér er um rætt.

Í stríðslokin var keisurum og furstum steypt af stóli í flestum ríkjum Mið-Evrópu, og alþýðan tók þar við stjórnartaumunum. En eitt var það, sem lýðræðisflokkunum í Þýzkalandi láðist að hreyfa við í skipulagsbyltingunni 1919, en það var löggjöfin um dómstólana í landinu og skipun þeirra. Þetta hefir kostað þýzka ríkið fjárútlát, sem skiptir mörgum milljörðum marka. Furstar og aðalsmenn hafa gert svo ósanngjarnar fjárkröfur til ríkisins fyrir sérréttinda- og eignatap á stríðsárunum, og dómararnir hafa úrskurðað þær kröfur samkv. fornum tíðaranda og réttarvenjum, sem ríktu þegar keisarinn og furstarnir voru þeirra yfirmenn. Þetta sýnir, hvað það getur verið hættulegt og afleiðingaríkt, þegar dómstólarnir eru ekki í samræmi við sína samtíð og réttarmeðvitund þjóðanna á hverjum tíma. Í Þýzkalandi er almenningsálitið gagnstætt dómstólunum, eins og gefur að skilja.

Ég gæti sagt hv. 3. landsk. sögu eftir einum mikilsmetnum lögfræðingi um það, hvernig þyrfti að búa dómarana úr garði, svo að þeir reyndust öruggir til að dæma eftir bókstaf laganna. Hann sagði, að það þyrfti að gera á þeim sérstaka „operation“, og hengja þá síðan upp í tukthús. Eftir eins árs dvöl þar myndu þeir að líkindum orðnir nógu skrælnaðir og tilfinningadofnir til þess að dæma eftir lagabókstafnum.

Síðan hinar nýju þjóðskipulagsstefnur fóru að ryðja sér til rúms, hafa orðið árekstrar milli þeirra og dómstólanna, og mætti segja ýmsar sögur af því. Flokksmyndun jafnaðarmanna hér á landi hófst 1916, og á þessu tímabili, sem flokkurinn hefir starfað að landsmálum, mætti nefna ýms dæmi þess, að íhaldssinnaðir dómarar hafi gengið mjög á rétt jafnaðarmanna. — Það er ekki langt síðan dómsforsetinn í hæstarétti Dana sagði í viðtali við nafnkunnan blaðamann, að hann hataði jafnaðarmenn. Og þá var fullkomlega 1/3 hluti þjóðarinnar í jafnaðarmannaflokknum. Blaðamaðurinn sagði aftur frá þessu á prenti. Samflokksblöð dómstjórans kröfðust þess, að hann mótmælti, að þetta væri rétt eftir sér haft. En hann var þó svo heiðarlegur að kannast við orð sín, og eftir nokkra daga varð hann að hverfa úr stöðu sinni.

Atvik þessu líkt hefir komið fyrir hér á landi; það er ekki langt síðan einn íslenzkur dómari lét sér þau orð um munn fara, að hann vildi, að það væri búið að skera hausinn af öllum jafnaðarmönnum. Náttúrlega hefði átt að víkja þessum manni úr stöðu sinni, eins og danska hæstaréttardómaranum.

Vera má, að í þessu frv. séu einhver atriði, sem þurfi að breyta frá lögfræðilegu sjónarmiði, og ætti það að vera auðvelt í meðferð þingsins. En höfuðatriði frv., þau sem ég minntist á, eru til mikilla bóta og leiða til þess, að dómstóllinn gætir betur en áður réttar lítilmagnans í þeim málum, sem koma fyrir í okkar þjóðlífi.

Það verður að teljast eitt af því nauðsynlegasta, að stofnun eins og hæstiréttur, sem hefir völd yfir fjármunum og æru manna, hafi dómara með fullum starfskröftum og andlegu fjöri. Þeir mega ekki vera svo gamlir, að gáfur þeirra séu farnar að sljóvgast. Þess vegna álít ég, að þegar dómararnir eru orðnir 60 ára, þá eigi þeir að fara, þó það sé nú ekki ákveðið í þessu frv.

Það er kunnugt, að öflugir verzlunarhringar og fjármálastofnanir erlendis hafa þá reglu að láta starfsmenn sína fara frá með fullum launum, þegar þeir eru orðnir 50 ára, og taka þá aðra yngri menn í staðinn. Þetta þykir þeim borga sig. — Það er vissulega ekki minna um vert að hafa menn á bezta skeiði við dómarastörfin.

Ég mun því styðja þetta frv., eða vinna að því, að þær höfuðbreyt., sem í því felast, verði að lögum á þessu þingi.