07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (829)

22. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég mun ekki þurfa langa framsögu fyrir hönd meiri hl. allshn. í þessu máli, þar sem flest, sem máli skiptir, er tekið fram í nál.

Eins og nál. sýnir, hefir allshn. leitað umsagnar um frv. hjá dómurum hæstaréttar, lagadeild háskólans og Málalutningsmannafél. Íslands. Umsagnir hafa borizt frá dómurum hæstaréttar- og Málaflutningsmannafélagi Íslands, en hinsvegar ekki frá lagadeild háskólans. Má vera, að það valdi, að einn prófessoranna hefir verið veikur nokkurn tíma undanfarið.

Umsögn hæstaréttardómaranna er prentuð sem fskj. með nál. meiri hl., en umsögn Málaflutningsmannafél. Íslands með nál. minni hl.

Það, sem verður fyrst fyrir frá leikmannssjónarmiði, þegar þessar umsagnir eru lesnar, er það, að báðir þessir aðiljar taka varnarafstöðu í málinu. Þetta er nú ef til vill ekki svo einkennilegt um Málaflutningsmannafélag Íslands, þar sem starf meðlima þess er fólgið í því að taka vissa afstöðu til mála, annaðhvort um sókn eða vörn. Mér sem leikmanni skilst, að afstaða Málafl.mannafél. sé afsakanleg. En ég sé ekki, að svo veigamiklar ástæður komi fram í umsögn þeirra gegn frv., að skylt sé að taka þær til greina.

Að því er snertir umsögn hæstaréttar finnst mér einkennilegt, að hann skuli taka þá afstöðu til málsins, sem þar kemur fram. Hefði mátt búast við því, að umsögnin yrði hlutlaus og byggð á réttarfarslegum grundvelli eingöngu. Hygg ég, að allir þeir, sem umsögnina lesa, séu sammála um það, að afstaða sú, sem þar er tekin, geri það að verkum, að ekki sé hægt að bera fullt traust til hennar. Svo langt er jafnvel gengið, að farið er óviðurkvæmilegum orðum um þann embættismann ríkisins, sem stendur að frv. Tel ég þetta illa farið, að slíkt skuli koma frá þeim mönnum, sem fella skulu úrslitaúrskurð í dómsmálum þjóðarinnar. En þess verður að gæta, að í hæstarétti sitja bara menn með mannlegar tilfinningar. Og mér virðist þessi umsögn sýna það, að nokkurrar oftrúar hafi kennt hjá þeim, sem haldið hafa því fram, að gagnrýning á hæstarétti gengi guðlasti næst. Það hefir jafnvel verið látið í ljós í einu blaðinu, að gagnrýning á hæstarétti væri landráð. Þeim, sem hafa látið sér detta slíkt í hug, hafa verið valin hin óvirðulegustu heiti (JÞ: Og að makleikum). Það getur komið fyrir, að gagnrýningaraðferðin geti verið vafasöm, en aðfinningar eru ekki aðeins heimilar, heldur beint nauðsynlegar. Það má ekki verða fast trúaratriði, að hæstiréttur sé óskeikull, eins og páfinn var talinn í gamla daga.

Ég lít svo á, að þó að fyrirkomulag það, sem nú er á hæstarétti, hafi verið gott á sínum tíma og verið tekið eftir góðum fyrirmyndum þá, sem þó voru orðnar gamlar, þá liggi það í augum uppi, að endurbætur geta ekki verið nein goðgá. Það er þvert á móti skylda löggjafarvaldsins að hafa vakandi auga á því, að farið sé eftir því, sem bezt hefir reynzt með þeim þjóðum, sem oss eru líkastar að eðlisfari og atvinnuháttum. Það frv., sem hér liggur fyrir, er sniðið eftir nýjustu fyrirmyndum í nágrannalöndunum. Hygg ég, að þær endurbætur, sem í frv. felast, geti orðið þjóðinni að miklu liði, ef allir leggjast á eitt um að gera sem bezt úr frv.

Það, sem ég hefi nú sagt, er um málið almennt. Sé ég ekki ástæðu til að fara neitt að ráði út í einstakar gr. frv., enda er ítarlega farið inn á hverja einstaka gr. í grg. frv., og sömuleiðis í umsögn hæstaréttar og nál. meiri hl. Hinsvegar tel ég rétt að drepa nokkuð á brtt. á þskj. 374, þó að segja megi, að full grein sé gerð fyrir þeim í nál. meiri hl.

Margar þessar brtt. eru aðeins leiðréttingar á ýmsum villum, sem slæðzt höfðu inn í frv. annaðhvort í prentun eða handriti og meiri hl. hefir leiðrétt.

1. brtt. er þess efnis, að halda því fyrirkomulagi, sem verið hefir, að aðaldómarar kjósi forseta. Meiri hl. lítur svo á, að reynslan hafi ekki gefið tilefni til breyt. á þessu.

Þá er 2. brtt. við 5. gr. Meiri hl. taldi rétt að rýmka heimild til þess, að aukadómarar væru látnir taka sæti í fimmtardómi í opinberum málum. Það kom til mála í n., að aðiljar í einkamálum gætu líka öðlazt rétt til, að aukadómarar væru skipaðir í málum þeirra. En á því voru mikil vandkvæði, því að þá hefði þurft að flokka málin eftir því, hve umfangsmikil þau eru. N. vildi því ekki gera þetta að till. sinni, en hinsvegar býst ég við, að hinn meðnm. minn komi nánar inn á þetta atriði.

Þá er h-liður 2. brtt. Hann er afleiðing af 1. brtt., og sama má segja um a-lið 4. brtt.

Þá kemur b-liður 4. brtt., við 8. gr. Meiri hl. lítur svo á, að þau skilyrði, sem sett eru um aldur í 8. gr., séu veitingarskilyrði. Hefir risið ágreiningur um þessa gr., einkum 3. málslið hennar, og því haldið fram, að þar væri um brot á stjskr. að ræða. Þessa fullyrðingu telur meiri hl. mjög vafasama, enda hefir hann ekki breytt ákvæðum þessa tölul. að öðru leyti en því, að hann skuli orða þannig, að aðaldómarar séu eigi yngri en þrítugir og eigi eldri en sextugir, og orðað um síðari málsgr. til þess, að ljóst kæmi fram, að þetta væru veitingarskilyrði. En í síðasta lið þeirrar málsgr. segir, að enginn fastur dómari megi vera eldri en 65 ára. Hygg ég, að skoðanir skiptist um þetta atriði, því að sumir munu telja það stjskr.-brot. Skal ég ekki vekja deilur um það nú, enda má búast við, að okkur meirihlutamönnum verði fundið það til foráttu, að við séum ólögfróðir menn.

Í 57. gr. stjskr. segir, að dómurum í hæstarétti verði ekki vikið frá né fluttir í annað embætti, nema verið sé að koma á nýrri skipun. Þó má veita dómara, sem orðinn er 65 ára, lausn frá embætti. Þetta er aðeins heimild. Ég verð að líta svo á, að í 8. gr. frv. sé aðeins ákveðið af hendi löggjafarvaldsins, að þessa heimild skuli nota. En ágreiningurinn virðist byggjast á því, að mikill munur sé á orðunum má og skal, það beri að hafa langt bil milli þess, sem leyft er, og þess, sem fyrirskipað er. Það er í sjálfu sér rétt. En það, sem leyft er með orðinu „má“ verður ekki talið brot, þó að það sé gert að reglu. (JóhJóh: Hverjum er leyft það?) Stjskr. segir ekkert um það. (JóhJóh: Framkvæmdarvaldinu, en ekki því almenna löggjafarvaldi). Mér hefir aldrei dottið í hug, að þingið gæti sett þessa dómara af. En þar sem þetta aldurstakmark er heimilað í stjskr. með því að gefa leyfi til þess, verður meir hl. að líta svo á, að í 8. gr. frv. sé ekki gert annað en að látinn sé í ljós sá vilji þingsins, að þessi heimild sé notuð.

En í „praktisku“ lífi er ekki alltaf gerður mikill munur á þessum tveimur orðum, „má“ og „skal“. Því mun mega finna stað, að sjálfur hæstiréttur hafi talið, að þessi orð mætti túlka nokkurn veginn jafnt. Ég hygg, að til sé hæstaréttardómur, sem beri það með sér, að dómararnir líti svo á, að orðið „skal“ í vissum lögum mætti túlka sem „má“. Slíkar forsendur má finna í einum dómi hæstaréttar. Og þegar hæstiréttur finnur ástæðu til að túlka þannig, að lítill munur sé á, þá er ofureðlilegt, að okkur virðist þessu vera líkt farið.

Frá mínu sjónarmiði séð er því ekki hægt að finna neitt stjórnarskrárbrot í 8. gr., ef hún er rétt túlkuð. Ég hefi talið rétt að fara nokkrum orðum um þetta atriði nú, því ég þykist vita, að þessi liður sé stærsta ágreiningsatriðið í öllu málinu.

Þá er c.-liður 4. brtt. og er líka við 8. gr. frv. Þar hefir fallið úr við prentun; þetta er ekki annað en leiðrétting. Við 17. gr. eru sömuleiðis tvær leiðréttingar af þessari orsök. (JÞ: Er það ríkisprentsmiðjan, sem reynist svona illa?). Það þori ég ekki að segja um, því að við nm. höfðum annað handrit en það, sem í prentsmiðjuna fór. Því söknuðnm við þessara nauðsynlegu ákvæða, þegar við fórum yfir prentaða frv. Ég vil ekki leggja dóm á, hvort þetta eru syndir afritara eða prentara, enda skiptir það ekki máli.

Næsta brtt. er við 22. gr. og er að vissu leyti breyting, en hún er gerð til samræmis við það, sem stendur annarsstaðar í frv. og meiri hl. taldi alveg rétt að taka upp. Það mun einnig vera í samræmi við ákvæði, sem standa í hæstaréttarlögunum nú. (JóhJóh: Ætti bara að standa „aðila“ fyrir „honum“. Fer betur á því). Já, það má vel vera. Þetta þarf þó ekki að valda nokkrum misskilningi.

7. brtt. er prentvilluleiðrétting, og sama er að segja um þá 8.–9. brtt. a-liður er leiðrétting að því leyti, að bætt er inn í 43. gr. til skýringar orðunum „í einkamálum“. Sama er að segja um b.-liðinn. — 10. brtt. er smávægileg. Ég geri ekki ráð fyrir, að hún valdi neinum deilum. Aftur er 11. brtt. allveruleg. Því að í frv. er orðalagið þannig, að helzt má skilja, að dómarar eigi að kveða upp dóminn jafnskjótt og málsflutningi er lokið. En meiri hl. n. taldi þetta ekki rétt, enda sést greinilega í grg. frv., að þetta er alls ekki meiningin. Þar er ætlazt til þess, að ráðagerð fari fram milli þess að málsflutningi er lokið og dómur er upp kveðinn. Þó að þetta sé efnisbreyt., er það í raun og veru leiðrétting.

12. brtt., við 52. gr., a.-liður felur í sér, að forseti réttarins geti gefið leyfi til að vera við ráðagerðir. Meiri hl. áleit rétt að banna þetta ekki. Þó yrði sjálfsagt að fara svo varlega í þetta, að það sé aðeins heimild fyrir forseta að veita þetta. — Síðari liður brtt. b, er aðeins orðabreyt., sem tekur efni sitt ofurlítið skýrara fram en áður var.

Ég hefi máske orðið nokkuð langorður, en ég geri ráð fyrir, að hv. deild taki ekki hart á því. Sennilega verða hér meiri umr. en þær, sem ég legg til. Sjálfsagt má búast við, að fram komi eitthvað, sem ég eða meiri hl. n. finnur ástæðu til að svara, en þá er nógur tími til þess síðar.