07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (831)

22. mál, fimmtardómur

Jón Jónsson:

Það er ekki laust við, að ég standi upp hálfhikandi til að tala í þessu máli, því að ég hefi ekki öðlazt þá sérþekkingu, sem þarf til að hafa fullt vit á því, og hlýt ég því að ræða um það sem leikmaður.

Þetta frv. ræðir um einn af þeim hornsteinum, sem þjóðfélagið hvílir á, nefnilega dómsvaldið. Þegar hús eru byggð, veltur á mestu, hvernig hornsteinarnir eru lagðir, ef það á að vera traust, og eins er með þetta, að mest ríður á því að búa hér vel um, til þess að tryggja rétt þegnanna, þannig að bæði voldugir og veslir standi jafnir að lögum. Þetta skiptir því miklu máli, en vissulega er réttaröryggið í landinu ekki komið undir dómstólunum eingöngu, heldur líka dómurunum.

Eins og ég tók fram strax í byrjun, hefi ég ekki lagaþekkingu og er því máske ekki fyllilega dómbær á þetta mál, en þó verð ég að segja það, að eitt atriði þessa frv. er áreiðanlega til bóta, en það er hin opinbera atkvgr., því að þá getur alþjóð frekar fylgzt með og dæmt málin út frá sínu sjónarmiði, og það skapar dómnum aðhald. Ég verð að segja það, að ég er ekki fyllilega ánægður með umsögn hæstaréttar, því að mér virðist hún vera með nokkuð öðrum blæ en æskilegt væri. Mér virðist, sem umsögnin sé lituð af persónulegum hagsmunum og tilfinningnm, enda farið óviðurkvæmilegum orðum um einstaka menn, þannig að ekki er hægt að styðjast við þetta plagg sem óhlutdrægan úrskurð um frv., heldur ber það frekar keim af framburði málafærslumanna, sem fara hörðum orðum um málin, eins og t. d. þegar hér stendur, að einstakir menn hafi borið fram rakalaus ummæli um réttinn, og annað þessháttar. Þetta gerir erfiðari aðstöðuna fyrir okkur ólöglærðu mennina, að dæma um málin, en ég hygg, að þau ummæli, sem komið hafa fram um hæstarétt bæði í blöðum og manna í millum, séu ekki eins rakalaus og rétturinn fullyrðir. Ég segi ekki þar með, að hæstiréttur hafi brugðizt vonum mínum, heldur þvert á móti. Hann hefir reynzt vel um þetta 10 ára skeið, sem hann hefir starfað hér í landinu, þó að einstaka dómar geti orkað tvímælis, og þá einkanlega þeir, sem snerta pólitísk mál. Þá er annað atriði í þessu frv., sem ég álít, að sé til bóta, en það er fjölgun dómendanna, því að þá ætti að fást meiri trygging fyrir því, að dómar væru vel hugsaðir og réttir.

Annars skal ég taka það fram, að ég hefi ekki getað athugað þetta mál eins vel og skyldi, því að það er tiltölulega stutt síðan nál. var útbýtt, og ég hefi síðan verið upptekinn við önnur störf.

Sú skoðun hefir almennt verið ríkjandi, að dómarar yrðu að halda sér sem mest utan við alla pólitík. Þess vegna er þeim bönnuð þingseta, og sumir hafa haldið því fram, að dómarar mættu ekki eiga kunningskap við marga menn, og jafnvel viljað geyma þá einhversstaðar uppi í afdölum, þar sem þeir gætu sem minnst afskipti haft af umheiminum. Þá er annað, sem kemur til athugunar, og það er, að löggjafinn hefir reynt að tryggja dómendurna og gera þá sem fastasta í sessi og sjálfstæða gegn ytri áhrifum, með því að setja þau tryggingarákvæði, að ekki megi setja dómara af nema með dómi. Þessi tryggingarákvæði eru mjög mikils virði. Til þess að tryggja það, að þessi ákvæði séu haldin, hefi ég leyft mér, ásamt hæstv. forseta þessarar deildar, að bera fram brtt. við frv. á þskj. 416.

Við lítum svo á, að það orki tvímælis, hvort þetta frv. sé þess eðlis, að í því felist breyt. á dómaskipuninni, og viljum því, að það sé tekið fram í 1., að tilætlunin er ekki sú, að gömlu dómararnir víki sæti fyrir fullt og allt, heldur að þeir sitji í hinum nýja dómi, ef þeir æskja þess. Ella mætti svo fara, að þessi 1. yrðu skoðuð sem yfirskin þess að leggja hæstarétt niður og losna þannig við núv. dómara hans.

Samkv. 57. gr. stjskr. er dómsmrh. veitt heimild til þess að veita dómara, sem orðinn er 65 ára, lausn frá embætti, en hinsvegar er ekkert bann lagt við því, að dómarar megi vera eldri. Til þess að eigi sé hvikað í neinu frá ákvæðum stjskr. um þetta efni, leggjum við til, að það ákvæði frv., að enginn dómari megi vera eldri en 65 ára, falli niður.

Ég sé ekki ástæðu til að koma mikið inn á ræðu hv. frsm. minni hl. allshn. í þessu máli. Þó vil ég taka það fram út af ræðu hans, að frá mér, né heldur mínum flokksbræðrum, hefir ekki komið fram neitt vantraust í garð hæstaréttar. Hitt er annað mál, að bæði ég og aðrir litum svo á, að einstakir dómar réttarins orki mjög tvímælis, en ég býst við, að hið sama verði uppi á teningnum um einstaka dóma hæstarétta allra landa. Mér er engin launung á því, að sumir dómar hæstaréttar hafa gengið mjög á annan veg en ég hefði búizt við, en þó að ég játi svo um mælt, lýsir sér ekkert vantraust á réttinum í því.