07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (832)

22. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Grundvallaratriði þessa frv. voru rædd allítarlega við 1. umr., og gerist því ekki þörf að fara nákvæmlega út í frv. nú.

Það er ósennilegt, að frv. sem þetta, er gerir svo mikilvæga breyt. á dómaskipun landsins, geti tímans vegna gengið fram á þessu þingi, eins og nú er orðið áliðið þingtímans. Hefir það mjög tafið málið, að annar stærsti flokkur þingsins hefir snúizt öndverður gegn frv. og gengið svo langt í andstöðu sinni að neita jafnvel málfræðilegum staðreyndum, sem hver sæmilega menntaður maður hlýtur að viðurkenna. Og þó að sá síminnkandi hluti þjóðarinnar, sem fylgir Íhaldsflokknum endurskírða að málum, finni ekki til löngunar til að tengja að nýju þau bönd við fortíðina, sem slitnað hafa þegar landið varð ófrjálst, og finni ekki til þjóðlega, þá verður að taka því. Hitt er víst, að þetta frv. heldur áfram að lifa eftir þetta þing og þennan dag, og þar mun koma, að sú vinna, sem hv. allshn. þessarar deildar hefir lagt í frv., kemur að fullum notum. Það tókst með vinnu þessarar deildar í fyrra að koma sér saman um aðalatriðin í fyrirkomulagi Menntaskólans hér í Reykjavík og á Akureyri, og þó að þau frv., sem að þessu lutu, næðu ekki afgreiðslu þingsins þá, er nú svo komið, að búið er að afgreiða frv. um Menntaskólann á Akureyri, og afgreiðslu hins frv. verður sennilega lokið fyrir þingfrestun. Þó að þetta frv. nái því ekki fram að ganga á þessu þingi, hefir nú verið lagður sá grundvöllur, sem gerir málið auðleystara á næsta þingi. Og það er að mörgu leyti kostur, þegar um mál er að ræða sem þetta, að þjóðin fái tækifæri til að kynnast því og segja sitt álit á því. Og ég er ekki í neinum vafa um það, hvernig það álit verður. Mér virðist, sem straumarnir bendi til, að fyrir næsta þing komi áskoranir, sem hv. minni hl. gerir ekki ráð fyrir. Það virðist óneitanlega vera skarpari skilningur hjá borgurum landsins á þessu máli heldur en lýsir sér hjá sumum hv. þm. fyrir því, hversu nauðsynlegt er, að aðaldómstóll landsins sé betur útbúinn en gert var af þeim mönnum, sem stofnuðu hann og tóku enska lánið þrem árum síðar. Það menningarstig, sem þessir menn stóðu á, var þess eðlis, að allar líkur eru til, að hin uppvaxandi kynslóð sætti sig ekki við að búa að handtökum þeirra. Það er sannarlega lítil ástæða til að taka of hátíðlega löggjafarafrek þeirra manna, sem fólu Kúlu-Andersen dauðadrukknum að taka 10 millj. kr. lán fyrir hönd þjóðarinnar árið 1921. Og það er ekki nema gott til þess að vita, að kjósendur skuli fá tækifæri til þess fyrir næsta þing að segja þm. frá því, hvað þeir hugsa um það form, sem þessir menn völdu hæstarétti 1919.

Áður en ég held lengra, vil ég víkja nokkrum orðum að þeim álitum, sem fram hafa komið, og þá fyrst að áliti hæstaréttar. Get ég verið stuttorður um það, því að það er ef til vill bezta sönnunin fyrir því, að ekki hefir tekizt að öllu leyti vel að byggja þann rétt. Hér liggur fyrir alvarlegt mál, sem byggt er á ítarlegum rannsóknum, og var því mjög óviðeigandi, að hæstiréttur skyldi ekki kunna það form í framgöngu, sem þjóðin hlaut að heimta, og álit hans vera einna áþekkast lélega skrifaðri blaðagrein. Ég býst við því, að svo muni fara, þegar farið verður að ræða þetta meðal þjóðarinnar, að mörgum muni finnast sem ástæða sé til að óttast, að dómarar hæstaréttar eigi ekki þá réttlætistilfinningu, sem þeir þurfa að eiga, þar sem þeir geta ekki skrifað hlutlaust og reiðilaust um mikilvægt mál, sem umsagnar þeirra er leitað um. Það er mjög slæmt, að dómarar réttarins skuli ekki á öllum tímum kunna að stilla orðum sínum í hóf, og þegar slíkt bætist við hið ófullkomna form, sem réttinum var búið 1919, ætti mönnum að skiljast, að full ástæða er til að gera hér á nokkra bragarbót.

Þó að Málaflutningsmannafélagið taki ekki vel í frv., sem skerpir aðhaldið með meðlimum þess, ætti hvorki að vekja undrun né eftirtekt. Það er á allra vitorði, að misbrestur er á því, að allir þeir menn, sem þar eiga hlut að máli, uppfylli þau skilyrði, sem gera verður til málafærslumanna við æðsta dómstól þjóðarinnar. Og þar sem þetta frv. fer fram á aukið aðhald, er ekki nema mannlegt, þó að stéttin í heild sinni leggi gott til með þessum lélegri einstaklingum sínum.

Hvortveggja álitin, sem ég nú hefi drepið lauslega á, eru gildislaus að öðru leyti en því, að þau sýna betur en nokkuð annað, á hve traustum grundvelli þetta frv. er reist, og hversu nauðsynlegt það er, að þeir menn, sem skipa æðsta dómstól þjóðarinnar, eigi við betri kjör að búa en nú hafa þeir og sé gert það mögulegt að auka þekkingu sína og viðsýni með samneyti við réttarfræðinga annara landa. En hér kennir sem víðar í átökunum í okkar íslenzka stjórnmálalífi tvennskonar hugsunarháttar. Annarsvegar er sá hugsunarháttur, sem gerir litlar kröfur um víðsýni þeirra manna, sem hæstarétt skipa, vill launa þá af svo skornum skammti sem unnt er, og ekkert samneyti við erlenda réttarfræðinga. Hinsvegar er sá hugsunarháttur, sem þetta frv. byggist á. Hið fyrra liggur í farveg þess gamla og úrelta, hið síðara tilheyrir þeim nýja tíma. Og það eru allar líkur til þess, að hið nýja muni sigra og hið gamla og úrelta hverfa úr sögunni.

Eitt af því, setri hv. frsm. minni hl. hélt fram, var það, að ekki mætti gera þær breyt. á æðsta dómstólnum í landinu, sem núv. dómarar hans legðu á móti. Hv. frsm. minni hl. gleymdist það í þessu sambandi, að þegar hæstiréttur var stofnaður, var það borið undir landsyfirréttinn gamla, hvort halda skyldi hinni skriflegu málafærslu eða taka upp munnlega. Dómarar yfirréttarins lögðu eindregið á móti munnlegri málafærslu, en Alþingi virti álit þeirra að vettugi og lögfesti hina munnlegu málafærslu. Og nú dettur engum í hug að breyta til í þessu efni.

Hv. frsm. minni hl. hélt því einnig fram, að með þessu frv. væri rétturinn gerður háðari framkvæmdarvaldinu en skyldi, og gæti af því stafað mikil hætta fyrir réttaröryggið í landinu. Ég held, að hv. þm. hafi horft á þetta út frá flokkslegu sjónarmiði og látið stjórnast af tilfinningum augnabliksins gagnvart núv. stj., vegna óttans við, að alltaf sæti sama stj. að völdum. En allt breytist, og allir flokkar koma jafnt til greina í þessu efni. Flokkarnir eru til skiptis í meiri hl. og ein stj. tekur við af annari, og þannig koma fram í framkvæmdavaldinu þeir ýmsu straumar, sem ráða í þjóðlífinu á hverjum tíma.

Aðalatriðið í gagnrýni hv. frsm. minni hl. byggðist á þeirri hugsun, að hæstiréttur ætti að skapa sig sjálfur, vera sjálfgetinn og standa utan við þá strauma, sem uppi eru í þjóðlífinu. Er þetta hin argasta meinloka, eins og ég sýndi fram á við 1. umr. þessa máls. Við landsyfirréttinn giltu venjulegar stjórnarveitingar, og þegar hann var lagður niður og hæstiréttur stofnaður, voru dómarar yfirréttarins fluttir þangað. Og í þau 11 ár, sem hæstiréttur hefir staðið, hafa dómprófin aldrei verið framkvæmd, heldur eru þeir menn, sem enn hafa skipað dómarasæti í réttinum, allir þangað komnir fyrir einfalda stjórnarveitingu. Eftir þessu hefir það verið goðgá af Jóni sál. Magnússyni, þegar hann veitti dómaraembættin við hæstarétt, þar sem þeir, er hann veitti þau, hafa allir setið í réttinum próflausir, því að ég býst við, að þótt Jóni sál. Magnússyni hafi tekizt vel í vali þessara manna, muni öðrum stj. takast það vel líka. Það er ekkert annað en reykur, að hæstiréttur eigi heimtingu á því að skapa sig sjálfur um alla eilífð eftir þeim brotum, sem rekja má til veitinga Jóns sál. Magnússonar á embættum réttarins. Segjum t. d., að þeir dómarar, sem réttinn skipuðu, aðhylltust sérstaka lífsstefnu, og að rétturinn ætti til langframa að skapa sig sjálfur. Segjum, að allir dómararnir væru t. d. aðventistar og kæmust að þeirri niðurstöðu, að aðrir en þeir, sem héldu laugardaginn heilagan, væru óhæfir til að taka sæti í réttinum. Ég tek þarna hugsað dæmi til þess að snerta ekki á málum augnabliksins, en það sýnir vel, hvílík fjarstæða þetta er. Og ég get bætt við öðru dæmi úr raunveruleikanum.

Einn af hinum núv. dómurum við hæstarétt hefir haldið því fram í fyrirlestri, að sannanirnar fyrir öðru lífi væru svo raunhæfar, að bezt væri að rita sögu landsins a. m. k. að hálfu leyti í öðrum heimi, eftir framburði dáinna manna, og þá væntanlega stílfært af öndunum sjálfum. Segjum nú, að dómararnir við hæstarétt væru allir spíritistar, og að þeir færu að gera ráð fyrir því, að til væru jöfnum höndum himnesk sem jarðnesk málsgögn og viðurkenndu svo ekki sem eftirmenn sína aðra en þá, sem tryðu á hin himnesku málsgögn eða tækju þau jafnvel fram yfir hin jarðnesku.

Ég þykist vita, að hv. frsm. minni hl. sé með mér í því, hvílík hætta gæti af þessu stafað. En það er einmitt höfuðgallinn á því formi, sem hæstarétti var valið 1919, að rétturinn skuli hafa rétt til að skapa sig sjálfur. Það væri gaman að vita, hvað minnihlutaflokkur þingsins hugsaði, ef meiri hl. neytti aðstöðu sinnar til þess að tryggja það, að íhaldsstefnan yrði í minni hl. við allar kosningar, hver svo sem vilji kjósenda í landinu væri, og meiri hl., t. d. sá, sem nú er, skapaði þannig sjálfur næsta meiri hl. og svo um alla eilífð. Það sjá allir, hvílík fjarstæða þetta er, þegar það er fært yfir á hið pólitíska svið, og hvílík hætta má af því stafa, ef einhverjum klíkum gefst tækifæri til að víggirða sig í valdasvæði, svo að þær megi vera óáreittar í þjóðfélaginu, hvað sem þær aðhafast.

Sú hugsun, að æðsti dómstóllinn í landinu eigi að vera eins og dautt líkþorn utan við áhrif þjóðarinnar, hlýtur að víkja fyrir kröfunni um það, að hæstiréttur verði háður þeim straumum, sem uppi eru í þjóðlífinu á hverjum tíma. Þessi þróun verður ekki stöðvuð frekar en hægt er nú að halda uppi einveldi til lengdar. Í Sviss, því landi, sem demokratiskt menningarástand er lengst komið, eru dómararnir kosnir af þjóðinni. Á Norðurlöndum hefir Noregur brotið ísinn og afnumið þessa sjálfsköpun dómstólanna. Er þetta skiljanlegt, þegar litið er til þess, að þar er land með tiltölulega sterku lýðræði, enda var Noregur heilli öld á undan Svíþjóð og Danmörku í frelsismálunum.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á það, að það er rangt hjá hv. frsm. minni hl., að hæstiréttur verði háður framkvæmdarvaldinu eftir þessu frv. Eins og undirdómararnir eru á hverjum tíma útnefndir af mismunandi stj. af öllum flokkum og öllum lífsskoðunum, eins þarf að vera um skipun dómaranna við æðsta dómstólinn í landinu. Það er óttalegt til þess að hugsa, ef æðsti dómstóllinn yrði eins og dauð klíka, sem lítið fylgdist með hinu raunverulega lífi almennings í landinu. Góður dómstóll dæmir dóma, sem eru í samræmi við réttlætistilfinning heiðarlegra borgara á hverjum tíma.

Þá er það næsta atriði, sem hv. minni hl. kom að, hve lítið réttaröryggi væri í því, ef prófessorarnir við háskólann væru í réttinum, því að þeir væru háðir umboðsvaldinu. Nú eru þrír prófessorar við lagadeildina, og þeir munu koma til að skiptast á sem dómarar, og í öðru lagi er eins og hv. frsm. minni hl. hafi gleymt því, að háskólinn hefir sjálfsköpunarvald, að hann heldur því fram, að hann ráði sjálfur embættisveitingum hjá sér. Ef einhver stj. færi því að flytja menn úr embættum, yrðu þeir áður að velja sína eftirmenn í háskólanum.

Ég segi hvorki, að þetta sé gott eða illt, en hv. þm. misskilur þá reglu, sem hann álítur góða og sem er líka við lagadeildina.

Hv. þm. hélt því fram, að það væri ósvinna að stinga upp á, að ritaraembættið væri stofnað aftur. Fyrir mitt leyti get ég verið með eða móti þessu atriði, eftir því sem verkast vill. Það er hægt að færa rök bæði með og móti. En svo mjög hefir færzt í vöxt starf ritarans á síðustu árum, að sá maður, sem gegnir því starfi nú, þykist hafa þar nóg að gera. Ég býst og við, að þegar tímar líða, verði að hafa mann alveg við þetta.

Þá er það opinbera atkvgr., sem hv. þm. náttúrlega vill ekki viðurkenna fremur en hæstaréttardómararnir eða málfærslumennirnir. Þetta atriði er mjög skylt hinu, hvort hæstiréttur á að geta varið sig fyrir því, að þjóðin viti nokkuð um hann, og hvort hann eigi að geta setið eins og múmía utan við þjóðlífið. Það vakir fyrir hv. þm., og að því er virðist hæstaréttardómurunum sjálfum, ef dæma á eftir þeim dapurlega vitnisburði, sem þeir gefa af hæfileikum sínum í umræddu skjali til þingsins. En ég býst við, að fari eins um þetta og skriflegu málfærsluna o. fl. Landsyfirrétturinn var á móti henni, en varð að sleppa henni, vegna þess að tíðarandinn heimtaði umbótina og hafði sitt fram. Og ég býst ekki við, að lengi verði hægt fyrir dómarana að loka sig úti frá mannlífinu, eins og þeir virðast vilja.

Annars er fullkomið samhengi í þessu, þannig að þeir, sem vilja, að rétturinn skapi sig sjálfur frá kynslóð til kynslóðar, vilja líka, að t. d. minni hl. í réttinum verði að sætta sig við að bera ábyrgð á alveg gagnstæðum dómi við það, sem hann telur rétt.

Af því að bæði hv. minni hl., blöð þessa flokks og hæstaréttardómararnir sjálfir og málfærslumennirnir hafa ekki viljað viðurkenna neinn af þeim alveg auðsæju göllum, sem eru á núv. formi, hefir mér skilizt, að þeir vilji ekki taka neinum rökum, heldur vilji þeir taka á málinu eins og flokksmáli. Slíkir menn halda því fram, að nafnið hæstiréttur sé málfræðilega rétt, þar sem dómstigin eru aðeins tvö; þvílíka menn er ekki hægt að beygja nema með atkvgr., og það verður gert á sínum tíma, líka í þessu máli. Það er eins um suma þá menn, sem nú slá mikið á skjöldinn fyrir þjóðerninu; þeir sögðust áður ekki geta lifað hér nema undir dönskum fána. Þeir urðu samt að þola annað, og eins mun fara um þetta, að þeir verði að þola íslenzkt heiti á þessum dómstóli. Í þessu máli beita þessir afturhaldsseggir engri skynsemd, heldur ofurkappi og ruddalegu orðbragði. En slík frammistaða sýnir jafnt mennina og málstaðinn.

Ég vík þá að till. hv. 6. landsk. og hv. þm. A.-Húnv. Þeir hafa komið inn á sparnaðarhlið þessa máls, og mér hefir jafnvel skilizt á öðrum þeirra, að hann hefði í hyggju frekari sparnaðarráðstaf- anir við 3. umr. um laun dómaranna. Ég tel rétt að athuga allar hliðar þessa máls um leið og það er tekið til þeirrar meðferðar, sem gert hefir verið í vetur.

Við 1. umr. hafði ég sýnt fram á, að það gæti verið full ástæða til þess að skylda þá menn ekki lengur til vinnu, sem væru orðnir 60 ára að aldri, eins og t. d. Danir láta sína sjóforingja fara frá 60 ára, af því að þeir telja hættulegt, ef til stríðs kæmi, að þeir væru orðnir gamlir. En mér þótti sjálfsagt, að þeir færu frá með fullum launum, en það er náttúrlega kostnaðaratriði. Það munar um 5 ár í lífi manna, og þessir tveir hv. þm. hafa álitið, að fjárhagsatriðið sérstaklega væri þess eðlis, að réttara væri að halda sér við 65 árin.

Það var skýrt tekið fram í stjfrv., að þetta atriði ætti alls ekki við núv. dómara í hæstarétti, en ef kæmu nýir dómarar, þá er vitanlega gerður nýr samningur við þá, því að þá fengju þeir sín laun eftir sextugt án vinnu. En það er auðvitað kostnaður við öruggt réttarfar fyrir landið.

Ennfremur hafa þeir álitið, að ekki væri rétt að gefa núv. dómurum nokkurt tækifæri til að sleppa á eftirlaun. Ég hefi lesið í Morgunblaðinu, að þeir séu allir að verða 65 ára, það vantaði 1–2 ár á aldur sumra þeirra. Svo að ef trúa má Mbl., sem ég skal láta ósagt, þá er um lítið fjárhagsatriði að ræða. Enda var tekið beint fram í stjfrv., að dómendurnir vildu máske vera áfram, en líka gert ráð fyrir þeim möguleika, að þeir vildu ekki vera áfram. En eftir till. hv. 6. landsk. og hv. þm. A.-Húnv. eru þeir skyldaðir til að útenda sinn hámarksaldur sem dómarar, ef þeir eiga að geta fengið full eftirlaun. En viðvíkjandi þessu stóra máli, skipulagi réttarins til frambúðar, er þetta mjög lítið atriði.

Ég álít, að meðferð þessarar hv. d. verði ákaflega gagnleg fyrir seinni meðferð málsins, svo að þótt maður miði við, að málinu geti ekki tímans vegna orðið lokið á þessu þingi, þá hafa umr. hér, till. þær, sem fram hafa komið, og umr. í blöðunum orðið til þess að skýra málið. Það mun t. d. þykja merkilegt atriði, að blöð eins og Stormur, Framtíðin og Mbl. láta svo nú eins og hæstiréttur, í því formi sem hann er nú, og þeir menn, er hann skipa, standi undir vernd þessara stórvelda í heimi réttlátra dóma.