07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (833)

22. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi að vísu miklu minna að svara hv. frsm. minni hl. eftir að hæstv. dómsmrh. hefir flutt sína ræðu, því að hann hefir tekið til athugunar mörg atriði, sem fram komu í ræðu hv. frsm. minni hl. En ég get þó ekki látið hjá líða að svara nokkrum orðum þeim atriðum, sem hv. þm. sagði sérstaklega viðvíkjandi nál. meiri hlutans.

Hann virtist viðurkenna, að nokkrar umbætur fælust í þessu frv., en þegar hann fór að telja þær upp, gat ég ekki heyrt nema eina, sem hann viðurkenndi, og hún var launahækkunin. Hann nefndi að vísu opinberu atkvgr., en ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en að hann teldi orka tvímælis, hvort hún væri bót frá því, sem nú ætti sér stað. Mér virtist hann færa sem aðalröksemd, að þrátt fyrir það, þótt þetta ákvæði væri búið að standa í lögum í Noregi um alllangt skeið, hefðu Danir ekki séð neina ástæðu til þess að taka það upp. (JóhJóh: Og ekki Svíar og ekki Finnar heldur!). Mér virðist því, að það megi fyllilega draga út úr ræðu hv. frsm. minni hl., að í raun og veru sé ekki nema um eina umbót að ræða á hæstaréttarlögunum, og það sé launahækkunin. Ég ætla ekki að fara út í að rökræða þetta nánar. Það kemur fram í grg. og nál. og einnig þeim ræðum, sem fluttar hafa verið, að hér er um miklu fleiri atriði að ræða heldur en hv. frsm. minni hl. hélt fram.

Hann sagðist líta svo á, að mjög væri athugavert fyrir Alþingi að taka ekki til greina álit hæstaréttardómaranna um frv. En ég lýsti því í fyrri ræðu minni, að ýmislegt í umsögn hæstaréttardómaranna hefði gert það að verkum, að ég sem ólöglærður maður get ekki talið umsögnina að öllu leyti óvilhalla. Þess hefir verið getið hér af hæstv. dómsmrh., að þegar lögin um hæstarétt voru samin, virtist hinu háa Alþingi, að ekki væru óbrigðular þær till., sem komu þá frá dómurunum í landsyfirréttinum. Það hefir verið tekið fram, að Alþingi gekk þá í móti þeim till., og svo virðist vera, sem hv. frsm. minni hl. telji það ekki hafa verið illa ráðið.

Annars býst ég við, að eins og málið nú liggur fyrir, hafi deilur um gagnsemi þess ekki mikla þýðingu. Ég geri ráð fyrir, að það sé nokkurnveginn víst, að málið gangi ekki fram á þessu þingi. Og þá álít ég nægilega mikið komið fram í málinu til þess, að þjóðin eigi kost á að gera sér nokkra grein fyrir því. En í lýðfrjálsu landi verður æðsti dómstóllinn í öllum málum dómstóll þjóðarinnar. Með því vil ég ekki segja, að niðurstöðum hins æðsta dómstóls í landinu verði raskað, og þeim verður ekki raskað, því að einhversstaðar verður að vera endir allrar þrætu. En það er krafa, sem leiðir af þjóðskipulagi okkar, að það verði að vera þjóðin, sem ræður sínum hæstarétti. Menn segja, að á því séu gallar. En þetta er einusinni bein afleiðing af þjóðskipulagi því, sem við búum við. Þess vegna lít ég svo á, að hvernig sem fer um þetta mál á þessu þingi og því næsta og þar næsta, þá er það víst, að þjóðin sættir sig aldrei við það til langframa, að hæstiréttur sé sá helgidómur, sem ekki megi við koma. Ég kom að því í fyrri ræðu minni, að það atriði, að trúa á hæstarétt sem óskeikulan, gæti leitt út í ekki minni hættu en það að breyta honum.

Þá tel ég rétt að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. frsm. sagði um nál. okkar meirihl.manna. Hann sagðist ekki geta séð, að hægt væri að finna þeim orðum stað, sem standa í nál., að nokkurrar ókurteisi verði vart í umsögn hæstaréttardómaranna um hæstv. dómsmrh. Ég ætla ekki að deila mikið um þetta atriði. Ég ætla að skjóta því algerlega undir úrskurð þjóðarinnar, hvernig á þetta mál verður litið. Ég tel tvímælalaust gæta þar ókurteisi gagnvart hæstv. dómsmrh. Ég ætla ekki að fara að lesa upp einstök orð úr álitinu. Ég tel betur farið, að þeir, sem um málið fjalla, kynni sér það sjálfir.

Þá sagði hv. þm., að í nál. teldum við, að stjórnarliðið stæði á bak við þær svívirðingar, sem staðið hefðu í Alþýðublaðinu og Tímanum um hæstarétt. Þetta eru orð hv. frsm. Hitt er rétt, að í nál. meiri hl. stendur, að ýmis ummæli í blöðum hinna frjálslyndari flokka hér á landi hafi hnigið til alvarlegrar gagnrýni á dómum réttarins. (JóhJóh: „.... og bak við þá flokka stendur meiri hl. af kjósendum í landinu“, segir. í nál.). En þær svívirðingar, sem hv. frsm. talaði um í ræðu sinni, höfum við ekki gert okkur seka um; við höfum aldrei talað um annað en gagnrýni á dómum hæstaréttar.

Þá vildi hann telja, að við meirihl.menn misskildum orðið „atferli“, og sagði, að við þyrftum ekki annað en að fletta upp í orðabókum, þá gætum við séð, hvað orðið þýddi. Ég þarf ekki að fletta upp í neinum orðabókum. Ég hygg, að ef farið er í gamla dóma undirréttar og yfirréttar, sé orðið „atferli“ venjulega notað um saknæmt athæfi. Ég veit líka, að hæði hv. frsm. minni hl. og við allir notum það orð ekki venjulega um annað en það, sem við teljum a. m. k. ámælisvert. Hitt skal ég ekkert um segja, hvað orðabækurnar segja um þetta. Getur vel verið, að þær séu óskeikular, en við verðum að taka til greina, hvað orðin þýða á tungu þjóðarinnar. (JóhJóh: Það skyldi maður halda, að maður fyndi í orðabókum!). Það er ekki alveg víst.

Þá vildi hann gera töluvert úr því, að við hefðum ofmælt, þar sem við segjum í nál., að okkur virðist vera farið heldur niðrandi orðum um prófessorana í lagadeild háskólans, þar sem dómararnir segja í áliti sínu, að hæstiréttur eigi að fá þá að láni. Ég skal ekkert um þetta þrátta við hv. þm. En það er víst, að í því sambandi, sem orðin standa, hlýtur hver maður að álita, að hæstaréttardómurunum finnist þeir taka niður fyrir sig. Þó geri ég ráð fyrir, að þótt prófessorarnir í lagadeid séu skipaðir á annan veg en dómararnir, þá megi ætla, að þeir standi dómurum hæstaréttar á sporði í lögfræði.

Þá kom hv. frsm. að aðalatriðinu, sem honum virtist vera í þessu máli, en það var um 8. gr. og ákvæði hennar um 65 ára aldur. Hann játaði að vísu, að í 57. gr. stjskr. væri heimild til að veita hæstaréttardómurunum lausn frá embætti, þegar þeir væru 65 ára gamlir. En hann neitaði hinsvegar, að á þessari heimild mætti byggja lagasetningu. Þess vegna ætti út frá því að álíta, að á ákvæðum stjskr. væri ekki hægt að byggja lagasetningu. (JóhJóh: Þetta er misskilningur. Gegn ákvæðum stjskr. er ekki hægt að setja lög). Ef stjskr. heimilar dómsmrh. að veita dómurum úrslitadómstóls lausn, þá lít ég svo á, að hvað sem dómurinn heitir, megi setja lög um, að hann geri það. (JóhJóh: Þessi stjórnarskrárgrein heimilar löggjafarvaldinu ekki neitt). Frv. talar heldur ekki um, að Alþingi setji dómarana af. Það er ekki hægt að kalla það að ganga í berhögg við stjskr. að láta gera það, sem hún heimilar. Ég sem ólögfróður maður hefi haldið, að það mætti setja í einstök lög, það sem er í stjskr., og að setja mætti lagaákvæði um ákvæði stjórnarskrárinnar, svo framarlega sem þau ganga ekki lengra en stjskr. heimilar. Og nú er enginn ágreiningur um það, að stjskr. heimilar að veita 65 ára dómurum lausn. (JóhJóh: Í einstökum tilfellum). Ágreiningurinn virðist vera um það, hvort setja má lög um, að gera skuli það, sem stjskr. heimilar, að gert sé.

Að síðustu sagði hv. þm. Seyðf., að við meirihl.menn færum mjög óvarlega í fullyrðingum okkar, þar sem við værum ólögfróðir menn. Ég býst við, að þetta megi að sumu leyti til sanns vegar færa. En þegar vill svo til, að sjálfum dómurum hæstaréttar verður það á að fara óvarlegum ummælum um þetta mál, þá má ekki furða sig á því, þó okkur ólögfróðu mönnunum, sem um þetta mál er skylt að fjalla, yrði það sama á. Viðurkenni ég þó hreint ekki, að ummæli okkar séu neitt óvarleg.

Ég minntist ekki á brtt. hv. 6. landsk. og hæstv. forseta í fyrri ræðu minni; sá ég ekki ástæðu til að tala um þær, fyrr en hv. flm. hefðu gert grein fyrir þeim.

Um fyrri brtt. er það að segja, að í henni kemur fram nokkur skoðanamunum milli hv. flm. og meiri hl. n. Ég veit ekki, hvort hv. flm. byggja skoðun sína á sömu röksemdum og hv. minni hl. n., enda skiptir það ekki svo miklu máli. Aðalatriðið er það, hvort menn vilja fallast á þá hugsun eða ekki, sem að baki frv. liggur, að óheillavænlegra sé fyrir réttaröryggið, að í úrslitadómstóli sitji menn á gamalsaldri. Það virðist ekki ágreiningur milli hv. flm. brtt. og okkar meiri hl. n. um það, að ákvæði frv. um að veita 65 ára gömlum dómurum lausn komi ekki í bága við stjskr. En hv. flm. virðast álíta betra, að heimild stjskr. sé ekki notuð. Aftur á móti vil ég láta ákveða 65 ára hámarksaldur fyrir dómarana, og nota þannig út í yztu æsar heimildina.

Verði þessi brtt. samþ., teldi ég vel við eigandi að bæta inn í frv. við 3. umr., að dómsmrh. skuli vera heimilt að veita dómurunum lausn 65 ára. (JóhJóh: Sú heimild stendur í stjskr.). Það fengist þá úr því skorið, hvort hv. dm. telja stjórnarskrárbrot að setja í lög ákvæði, sem stendur í stjskr.

Um síðari brtt. hefi ég lítið að segja. Meiri hl. lítur svo á, að ef dómararnir í hæstarétti vilja vera áfram dómarar í fimmtardómi, þá muni þeir sækja um það og að sjálfsögðu verða skipaðir. Telur hann því brtt. óþarfa. Hinsvegar finnst mér, að ef á annað borð á að ákveða, að sömu dómarar verði áfram, að fella ætti niður orðin „ef þeir óska þess“. Mér finnst viðkunnanlegra að gera þá að tvímælalausri skyldu, að sömu dómarar sitji áfram. Vitanlega gætu þeir eftir sem áður sótt um lausn, þegar þeim sýndist.

Get ég svo ofurvel látið útrætt um þetta mál frá minni hálfu. Ég hefi gert í því það, sem mér hefir fundizt sannast og réttast, og þykist ég hafa skýrt það svo vel sem í mínu valdi stendur, sérstaklega í nál. Vona ég, að starf okkar meiri hl. beri árangur á sínum tíma; hvort sem mál þetta verður leyst fyrr eða síðar, vona ég, að þar komi alþjóðarvilji til greina. Og til þess að þjóðin eigi hægara með að átta sig á málinu, er nauðsynlegt að leggja þau gögn fram til skýringar, sem hægt er.

Það eiga sennilega einhverjir eftir að tala um þetta mál, og mun ég ekki leggja mikla áherzlu á að svara, þó einhverjir verði til þess að hnjóða að meiri hl. fyrir afgreiðslu þessa máls. Eins og það liggur nú fyrir, er bezt komið á því, að þjóðin skeri úr.