07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (834)

22. mál, fimmtardómur

Frsm. minni hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Ég þarf ekki að segja hér nema örfá orð. — Hæstv. dómsmrh. komst út í heimspekilegar hugleiðingar, sem mjög voru á við og dreif og lítið komu málinu við, og get ég því látið þeim ósvarað.

Hæstv. ráðh. líkti umsögn hæstaréttar við lélega skrifaða blaðagrein. Ég vil þó benda á það, að bæði brtt. hv. meiri hl. og brtt. á þskj. 416 bera vott um það, að álit réttarins hefir haft sína þýðingu. Hæstv. ráðh. talaði um form réttarins, og skildi ég þar ekki, hvað hann var að fara. Hann sagði, að rétturinn ætti að vera „sjálfgetinn“. Ég sé ekki, hvernig það má verða, þar sem rétturinn hefir ekkert veitingarvald, heldur er það aðeins gert að skilyrði, að væntanlegir dómarar hafi staðizt prófraun hjá réttinum. Þetta er því ekkert annað en útúrsnúningur.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að dómarar hæstaréttar væru öðruvísi en aðrir menn að því leyti, að þeir yrðu ekki fyrir áhrifum af bókum eða umheiminum. Ég held einmitt, að dómarar í hæstarétti hafi sérstaklega góða aðstöðu til þess að setja sig inn í atvinnu- og athafnalíf landsins. Þeir verða oft að dæma í málum, er slíkt varða, og verða því beinlínis að kynna sér atvinnuhætti og ástand þjóðlífsins.

Hæstv. ráðh. sagði, að Norðmenn væru 100 árum á undan hinum Norðurlandaþjóðunum í öllum framförum. Gæti ég trúað, að Svíum og Dönum þætti sá dómur nokkuð hæpinn, og sama finnst víst öllum, nema hæstv. dómsmrh.

Hæstv. ráðh. talaði um dóm, sem felldur hefði verið í Svíþjóð árið 1887 og farið hefði í bága við almenningsálitið, og kenndi hann því um, að dómarinn hefði verið farinn að stirðna fyrir aldurs sakir. En þetta þarf alls ekki að vera dómarans sök, heldur er miklu líklegra, að þetta hafi stafað af því, að löggjöfin hafi ekki fylgzt með tímanum, því að auðvitað á að dæma eftir lögunum, en ekki eftir almenningsálitinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að við, sem hefðum andmælt frv., hefðum ekki beitt rökum eða skynsemi. Þetta skoða ég aðeins sem sleggjudóm, sem ekki er svaraverður.

Um heiti réttarins ætla ég ekki að ræða nú, þar sem hv. 3. landsk. hrakti svo gersamlega skoðanir hæstv. ráðh. um það atriði við 1. umr.

Hæstv. ráðh. kvað þjóðina ekki mundu sætta sig við, að hæstiréttur fylgdist ekki með tímanum. Ég þykist þess fullviss, að hæstiréttur vor muni ávallt fylgjast með tímanum, og veit og vona, að þjóðin verður ávallt á þeirri skoðun, að halda beri uppi virðingu fyrir hæstarétti og að þeir, sem vilja rýra álit hans, sæti ómildum dómum.

Þá vík ég lítið eitt að hv. frsm. meiri hl. Hann klifaði á því, að óhætt hlyti að vera að taka það í lög, sem leyft væri í stjskr., er hann ræddi um aldurstakmark dómara upp á við. En þetta er hinn herfilegasti misskilningur, því að í 57. gr. stjskr. stendur: „Þó má veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en eigi skal hann missa neins í af launum sínum“. Hér er sagt, að sú eina takmörkun um aldur gildi upp á við, að framkvæmdarvaldið megi veita dómara lausn frá embætti, er hann er orðinn fullra 65 ára, án þess að hann missi neins í af launum sínum. Löggjafarvaldið getur því alls ekki sett þau ákvæði, að dómari skuli fara frá á þessum aldri, nema með því að brjóta stjskr. Þetta hafa þeir líka skilið, hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. landsk., og því hafa þeir borið fram brtt. sínar. Hæstv. dómsmrh. virðist leggja töluvert annan skilning í þær brtt. en hv. flm., því að hæstv. ráðh. kvað hér aðeins vera um sparnaðarhugmynd að ræða. Ef stjskr. hefði engin ákvæði haft um aldurstakmark dómara, hefði þetta getað staðizt, en nú er það útilokað.

Ég vil ekki deila um merking orðsins „atferli“, sem okkur hv. frsm. meiri hl. greinir á um, en vísa í því efni til málaþekkingar hv. þdm. og orðabókanna.