17.03.1930
Efri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (839)

276. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ef ég hefði ekki vegna veikinda verið forfallaður nú um mánaðar skeið frá því að sækja þingfundi, væri þetta frv. löngu fram komið. Ég hygg þó, að þessi dráttur á flutningi frv. þurfi ekki að koma svo mjög að sök. Svo framarlega sem Alþingi þykir hugmyndin þess verð, að hún nái fram að ganga, ætti frv. að geta náð afgreiðslu þessa þings, auðvitað með þeim breyt., sem Alþingi kann að vilja á því gera.

Skal ég nú víkja að því, af hverju lagt er til, að nú þegar verði hafinn undirbúningur undir væntanlega byggingu fyrir háskólann.

Nú er ekki fyrir það að synja, að sumir álíta, að það sambýli, sem verið hefir með Alþingi og háskólanum frá því að hann var stofnaður, geti að meinlausu haldið áfram. Ég er þar annarar skoðunar. Ég álít þetta sambýli mjög óheppilegt, bæði fyrir Alþingi og háskólann, og tel sjálfsagt, að á næstu árunum fyrir 1940 setji þjóðin sinn metnað í það að koma upp verulegum hluta af væntanlegri háskólabyggingu. Eins og ég mun síðar koma að, álít ég okkar kynslóð, sem nú lifum, það með öllu ofvaxið og ómögulegt að reisa háskólanum þvílíka byggingu, að nægja megi um aldur og æfi.

Alþingi sjálfu veitir ekki af að hafa allt alþingishúsið svokallaða undir, en þó hefir háskólinn orðið verr út úr þessu sambýli, eins og kennarar hans hafa gefið átakanlega lýsingu af og þm. er kunnugt. Þetta húsnæðisleysi háskólans lýsir sér ekki eingöngu í því, að kennslustofurnar eru litlar og ónógar, og að alger vöntun er á fyrirlestrasal og herbergjum undir söfn háskólans; nei, það, sem óheppilegast er við þetta húsnæðisleysi háskólans, er, að það eyðileggur algerlega samlífið milli námsfólksins, svo þýðingarmikill liður sem það er í allri háskólavist.

Ég hygg því, að um það þurfi ekki að deila, a. m. k. ekki til lengdar, að Alþingi og háskólinn verði að skilja samvistum, og það sem allra fyrst. Nú hefi ég heyrt mæta menn halda því fram, að Alþingi ætti sjálft að flytja úr sínu eigin húsi og láta háskólanum það eftir, svo stórt sem það er. Gallinn á þessu er sá, að alþingishúsið er ekki byggt sem háskólahús. Það stendur hér í miðjum bænum, og þó að það kynni að geta nægt háskólanum í næstu 40–50 ár, eru ekki líkur til, að það geti fullnægt þjóðinni í margar kynslóðir. Við Íslendingar getum lært af sögu annara þjóða í þessu efni, hve óheppilegt það er að loka háskóla inni miðbæjar. Svo var gert bæði í Osló, Berlín og Kaupmannahöfn á sínum tíma. En eftir því, sem þessar þjóðir stækkuðu og þarfir þeirra urðu fleiri og margbreyttari, þurfti að breyta háskólum þeirra og setja á stofn við þá nýjar og nýjar kennsludeildir, en vegna þess, að háskólanum hafði í upphafi verið settur staður mitt í áðurnefndum borgum, varð að byggja undir þær deildir, sem við bættust, langt úti í borgunum, þannig að deildirnar urðu viðskila við móðurstofnun sína. Af þessum ástæðum er það ekki heppilegt að ætla háskólanum þetta hús. Fari svo, að þingið vaxi upp úr þessari byggingu sinni, getur hún komið bænum eða landinu í góðar þarfir til eins og annars, en sem háskólabygging getur þetta hús aldrei komið til greina, af ástæðum, sem ég þegar hefi rakið.

Það er ekki gert ráð fyrir að byrja á þessari háskólabyggingu fyrr en að þremur árum liðnum, en að byggingunni verði svo lokið á næstu sex árum. Ástæðan til þess, að ekki hefir þótt heppilegt, að gera nú þegar kröfur um fjárframlög til þessarar byggingar, er fyrst og fremst sú, að það tekur langan tíma að undirbúa þessa byggingu, svo að hún megi sem bezt og haganlegast verða úr garði gerð.

Eins og sést á fylgiskjölum frv., hafa deildir háskólans gert lauslegar till. um það, hversu mikið húsrúm þær, hver um sig, muni þurfa á að halda. Nú er það vitanlegt, að deildum háskólans hlýtur að fjölga, eftir því sem þjóðin vex og verkefnin aukast, svo að samríma verður kröfur núv. deilda háskólans skynsamlegu framtíðarplani. Mun varla veita af næstu þremur árum til þess að velta því fyrir sér og undirbúa bygginguna, þannig að hún megi skapa háskólanum þau vaxtarskilyrði, sem hann verður að hafa, ef hann á ekki að verða nafnið tómt. Í frv. er gert ráð fyrir mjög hóflegri fjárhæð, 600 þús. kr., til aðalbyggingar háskólans, og þar sem þessi fjárhæð á að skiptast niður á sex ár, verður kostnaðarhlið málsins ekki óyfirstíganleg þjóð okkar, þó að fátæk sé.

Auk þeirra ástæðna, sem ég nú hefi talið fyrir því, að rétt sé að fresta háskólabyggingunni, vil ég benda á það, að nú sem stendur er verið að vinna að hálfgerðum skólabyggingum víða um land, auk þess sem liggur í loftinu að reisa unglingaskóla í mörgum kaupstöðum og í tveimur sveitum, Borgarfirði og Hrútafirði. Þegar svo hér við bætist, að hér í Reykjavík er mjög aðkallandi þörf fyrir alþýðuskóla, og ennfremur, að landspítalinn er ekki enn fullgerður og þarf að reisa við hann viðbótarbyggingar, virðist einsætt, að rétt sé að fresta háskólabyggingunni um næstu þrjú ár og nota þann tíma til nauðsynlegs undirbúnings. Er gert ráð fyrir, að einhverjir af starfsmönnum háskólans verði valdir í nefnd til að starfa með kennslumálastjóra og húsameistara að undirbúningi þessa máls.

Ég get búizt við því, að sumum kunni að virðast, sem hér sé um allt of lágt framlag að ræða í þessu skyni, 600 þús. kr., auk lóðarinnar, sem ætlazt er til, að Reykjavíkurbær sjái sóma sinn í að gefa háskólanum. Skal ég að vísu játa, að engin fullnaðarrannsókn hefir farið fram í þessu efni og að undirbúningur málsins verður að leiða í ljós, hversu miklar byrjunarkröfur verður að gera um þessa byggingu, en hitt þori ég að fullyrða, að háskólinn gæti verið ánægður um stundarsakir með að fá byggingu, sem væri nokkru stærri en Arnarhvoll, sem verður fullgerð á einu ári fyrir ekki meira fé en 250 þús. kr., í stað neðstu hæðar alþingishússins, sem hann verður nú að sætta sig við. Af þessu ræð ég það, að fyrir 600 þús. kr. sé hægt að reisa það mikla byggingu, að háskólanum væri stórsigur að henni, miðað við þau kjör, sem hann á nú við að búa. Ég lít svo á, að þessi fyrsta bygging sé aðeins byrjunarsporið og að við hana eigi eftir að tengjast ein viðbótarbyggingin af annari, eftir því sem þjóðin vex og eflist.

Auk þess vil ég benda á það, að í háskólabyggingunni verður mest um að ræða kennslustofur og fyrirlestrasali, og eru slíkar byggingar tiltölulega ódýrar.

Þá er það enn eitt atriði, sem með því mælir að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og að ekki má draga samþykkt þess til næsta þings, en það er lóðarspursmálið. Eins og tekið er fram í frv., er gert ráð fyrir, að háskólinn fái lóðina frá Skólavörðutorgi og væntanlegum stúdentagarði niður að Hringbraut. Frá mínu sjónarmiði er það óhjákvæmilegt, að háskólanum verði látin í té mjög stór lóð, og ég vænti þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur bregðist vel við í þessu efni, en biti sig ekki í þann hugsunarhátt, sem kemur fram í því að miða við þarfir augnabliksins á kostnað framtíðarinnar.

Í frv. er gengið út frá því, að háskólinn fái til sinna afnota eins stóra lóð og landsspítalinn hefir, og að þessi lóð verði milli lóðar landsspítalans og væntanlegs íþróttavallar niður að Hringbraut, auk þess sem gert er ráð fyrir, að skólinn fái nokkra sneið af landi neðanvert við Hringbraut, í áframhaldi af sjálfri byggingarlóðinni, og sú sneið myndi þá mæta ókomnum vexti háskólans og verða notuð sem leikvöllur, grasgarður (botanisk Have) o. s. frv. Eins og menn sjá, er hér ekki um það eitt að ræða að sjá fyrir þörfum háskólans eins og þær nú eru, heldur er miðað við áframhaldandi þróun hans, jafnframt því, sem litið er til þess, hvílík lífsnauðsyn háskólanum er að komast sem fyrst úr þeim þrengslum, er nú há kosti hans svo mjög. En af því að óhjákvæmilegt er, að háskólinn fái mjög stóra lóð til sinna afnota, og verið getur, að Reykjavíkurbær fari að ráðstafa þessum lóðum á næstunni, þó að ekki sé búið að því enn, ríður mjög á, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Það er í ráðagerð að reisa hér alþýðuskóla, og mér er kunnugt um það, að fyrir borgarstjóranum hér í bæ vakir, að sá skóli — og ef til vill fleiri skyldir skólar — verði reistur þarna á Skólavörðuholtinu, og það einmitt á þeirri landspildu, sem háskólinn þarf á að halda, ef hann á annað borð verður byggður þarna. Ef því þetta frv. nær fram að ganga á þessu þingi, verður hægt að leysa þessa hlið málsins, ef á annað borð er hægt að leysa hana, því að auðvitað er bærinn ekki skyldugur til þess að gefa þessa lóð, þó að þess sé að vænta, að hann setji metnað sinn í að gera vel við háskólann að þessu leyti, enda verður að telja það siðferðislega skyldu bæjarins að bregðast vel við um þessa málaleitan. Landið, sem um er að ræða, er heldur ekki mikils virði í sjálfu sér, — grjóturð, sem enginn kostnaður hefir verið lagður í að ryðja. En fyrir háskólann hefir þessi lóð engu að síður mikla framtíðarþýðingu.

Ég hefi hugsað mér, að þessu máli verði þokað áfram þann veg, að fyrst verði undið að því að útvega lóðina og undirbúa hina væntanlegu byggingu, og síðan reist allmikil bygging við hliðina á væntanlegum stúdentagarði. Má vel vera, að svo fari, að stækka þurfi þessa byggingu síðar, sem verður aðalbygging háskólans, en þannig verður að ganga frá henni, að háskólinn geti, strax og byggingunni er lokið, flutt í hana og tekið hana til sinna afnota. Hitt skiptir minna máli, þó að byggingin fái ekki strax í upphafi sína endanlegu mynd, enda er það með öllu ókleift okkar fátæka þjóðfélagi. Eins og ráðgert er, að í kringum landsspítalann rísi upp margar viðbótarbyggingar, eftir því sem þjóðin vex og þörfum hennar fjölgar, eins verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir, að utan um háskólann sjálfan risi upp ýmsar smærri byggingar, til afnota fyrir hinar ýmsu deildir hans, eða jafnvel sjálfstæðar um verkefni. Ríður því hið mesta á, að háskólinn strax í byrjun fái nógu stóra lóð, því að ella fer svo, að hyggja verður undir hinar ýmsu deildir hans hingað og þangað um bæinn, eftir því sem verkefnum háskólans fjölgar, hönd í hönd við þróun og vöxt þjóðarinnar.

Ein af þeim breyt., sem liggur í loftinu að gerð verði í sambandi við þróun háskólans, er, að einhver hin stærsta stétt landsins fái að einhverju leyti kennslu sína og undirbúning við hann. Ég á við kennarastéttina. Kennaraskólahúsið stendur á lóð landsspítalans, þannig að hægt er að reka skólann þaðan burt hvenær sem er, auk þess sem húsið er lélegt og ekki til frambúðar. Ég hefi þess vegna lagt til, að væntanlegar heimavistir fyrir kennaraefni yrðu byggðar á baklóð háskólabyggingarinnar þá er tímar líða fram, en húsrúm væri ætlað fyrir uppeldisvísindi í háskólabyggingunni sjálfri. Síðan er ætlazt til, að kennaraskólinn renni smátt og smátt inn í háskólann sem sjálfstæð deild. Í tveim þeim löndum, sem við höfum mest saman við að sælda, Skotlandi og Þýzkalandi, er þessum málum þannig skipað, að jafnmikinn undirbúning þarf til þess að vera barnakennari og læknir eða lögfræðingur, og samskonar inntökuskilyrði eru við tilsvarandi háskóladeildir. Á Norðurlöndum og Englandi eru þessi mál ekki enn komin í það horf, en það er aðeins talið kostnaðarspursmál, en væntanlega stefnir þróunin í sömu átt þar og í þeim löndum, sem lengst eru komin áleiðis í þessum efnum. Ég hefi þess vegna tekið þessi ákvæði upp í frv., til þess að við Íslendingar þyrftum ekki á sínum tíma að verða eftirbátar annara þjóða í þessum efnum.

Ég hygg svo, að ég þurfi ekki að eyða fleiri orðum að þessu frv., en vænti þess, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til menntmn.