14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (844)

276. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég vildi aðeins út af ummælum hæstv. dómsmrh. taka það fram, að þar sem hann talaði um bæjarstjórn Reykjavíkur og vinsamlega afstöðu hennar, þá er málið ekki komið lengra en til borgarstjóra og e. t. v. einnar nefndar. Menntmn. áleit ekki ráðlegt að senda það til umsagnar bæjarstjórnarinnar, þar sem svo mjög var áliðið þingtímann. En þess má náttúrlega vænta, að vilji bæjarstj. standi þar á bak við.

En hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir þeim möguleika, að þetta mál yrði tekið til afgreiðslu við þingið á Þingvöllum. Um það verð ég að segja, að ég er ekki ánægður með frv. eins og það er, ef það á að koma til afgreiðslu við svo hátíðlegt tækifæri. Og ég áskil n. rétt við 3. umr. til þess að taka það atriði til athugunar, hvort ekki ætti að breyta þessu frv., ef fyrirhugað er að láta afgreiðslu þess vera svo hátíðlega sem ráðh. jafnvel gerði ráð fyrir.

Mér finnst maður nefnilega varla geta verið þekktur fyrir að samþ. á þúsund ára afmælishátíð þingsins lög, sem seinni þing geta gert að engu með því að synja um fjárveitingu.