25.01.1930
Efri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Erlingur Friðjónsson:

Það er örlítil fyrirspurn, sem mig langar að bera fram við hæstv. forsrh., sérstaklega hvort hann geri ráð fyrir, að hér sé eingöngu leitað eftir styrk frá sjávarútveginum til að endurgreiða þann kostnað, sem framvegis mun leiða af flugferðum í þágu hans við síldarleit og slíkt.

Ég spyr að þessu aðallega vegna þess, að það hafa komið fram raddir í þá átt; að ef til vill væri réttara, að síldarútvegurinn hefði sérstaka flugvél, litla og hentuga, í þeim eina tilgangi að leita eftir síld. Ef síldarútvegsmenn tækju þetta ráð, að spila algerlega upp á eigin spýtur, þá vildi ég strax leita álits hæstv. ráðh. um það, hvort hann teldi rétt að skattleggja sjávarútveginn á þennan hátt, ef hann bjargaði sér algerlega upp á eigin spýtur, — ef hann óskaði eftir að hafa þetta mál út af fyrir sig, að kosta alveg flugferðir í sína þágu og vera ekki að nokkru leyti upp á ríkið kominn í þeim efnum.