19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1931

Einar Jónsson:

*) Ég spurðist fyrir um það í byrjun fundar, hvort till., sem ekki eru komnar ennþá, mundu ekki koma undir umr. Þar eru brtt. frá mér, sem ég hefi orðið nokkuð seinn með, því að ég hefi verið fjarverandi tvo undanfarna daga. Hæstv. forseti fullyrti, að þær mundu koma, en ég hefi ekki séð þær ennþá, enda eru fleiri till., sem hafa komið síðar fram en hæstv. forseti ákvað. Hvernig á að fara að þessu? Það er ekki gott að tala fyrir þeim brtt., sem eru ekki komnar fram, því að þá vita menn ekkert fyrir hverju verið er að tala.

Þegar ég kom úr ferðalagi mínu í morgun, sá ég hér á ferðinni 56 eða 57 brtt., og ég skal lýsa því yfir, að fyrir bónda úr sveit sé ég ekki ástæðu til að samþ. nema ef til vill tvær af þessum 57 brtt. Hér er um bitling að ræða, styrk til einstakra manna, sem lítil líkindi eru til, að mundu vinna þjóðinni gagn. Ég álasa engum þm., þó að hann vilji útvega vinum sínum styrk, en ég hefi aldrei séð aðrar eins styrkbeiðnir lagðar fyrir Alþingi og þær, sem eru á þessu þskj. En þær brtt., sem ég flyt, eru til framfara og bóta á atvinnuvegunum, svo að það er full ástæða til að samþ. þær. Önnur brtt. mín er um síma í héraði, sem aldrei hefir haft hans not, en hin er um mælingar og rannsóknir á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Ég býst annars ekki við, að ég hafi leyfi til að tala fyrir þeim, fyrr en þær eru komnar fyrir sjónir hv. þdm. En fengi ég leyfi hæstv. forseta, skyldi ég skýra þessar brtt nú.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.