25.01.1930
Efri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Erlingur Friðjónsson:

Aðeins örfá orð. Ég drap á þessa hugmynd um flugvélanotkun í sambandi við síldarútveginn. Ég geri ráð fyrir, að flugvélar verði aðallega notaðar til síldarleitar. En hitt er líka vel hugsanlegt, að flugvélar geti jafnframt komið að nokkru liði við strandgæzlu.

Síðasta sumar mun síldarútvegurinn hafa lagt fram 40 þús. kr. til síldarleitar með flugvél. En eftir þessu frv. má gera ráð fyrir, að tekjurnar frá síldveiðunum verði um 50 þús. kr., ef það verður samþ. óbreytt. Og ástæðan til þess, að minnzt hefir verið á, að síldarútvegurinn annaðist sjálfur síldarleitina, er einmitt sú, að það þykir orka nokkuð tvímælis, að hann þurfi að verja jafnvel 40 þús. kr. til þeirra hluta á hverju sumri, hvað þá 50 þús. Sá kostnaður gæti máske orðið til muna minni, ef sérstök, lítil og hentug flugvél væri fengin í þessum eina tilgangi.

Þessum ummælum mínum beini ég til hæstv. ráðh. og þeirrar n., sem í er málið til meðferðar.