10.02.1930
Efri deild: 18. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Síðastl. sumar var haldið uppi síldarleit með flugvél um mánaðarskeið. Þessi síldarleit bar svo góðan árangur að dómi skynbærra manna, að þeir hafa óskað eftir, að henni yrði haldið áfram framvegis. En til þess að svo geti orðið, þarf mikið fé, því að flugvélar eru afardýrar í rekstri, og um það, hvernig afla megi fjár í þessu skyni; fjallar þetta frv.

Flugfélagið naut í fyrra styrks til að halda uppi síldarleit sinni frá Síldareinkasölu Íslands, Félagi íslezkra botnvörpuskipaeigenda, og að einhverju leyti frá öðrum síldveiðendum, en slíkt framlag er of veikur grundvöllur til að byggja á síldarleit, er að fullu gagni megi koma, og er þetta frv. fram komið til að ráða bót á því. Frv. er samið af áhugamanninum dr. Alexander Jóhannessyni. Hefir hann, eftir nána yfirvegun og í samráði við aðra, sem glöggt skyn bera á þessi mál, komizt að þeirri niðurstöðu, að sú aðferð, að skatta síldarveiðina á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir, sé bezta og sanngjarnasta leiðin til þess að afla fjár í þessu skyni. Sjútvn. er það ljóst, hvílíka þýðingu síldarleit úr lofti hefir fyrir síldveiðarnar, og hún sá ekki aðra leið heppilegri til þess að sú starfsemi gæti haldið áfram en þá, sem farin er í frv.

Leggur n. því til, að frv. verði samþ., en vill þó gera á því nokkrar smávægilegar breyt., sem ég skal leyfa mér að gera örstutta grein fyrir.

Fyrsta brtt. n. er við 2. gr. frv. og gengur út á, að sett sé það skilyrði gegn framlagi sjóðsins til síldarleitar, að leitinni sé stöðugt haldið uppi, með þar til hæfri flugvél, frá 1. júní til 15. sept. ár hvert. Virðist ekki nema sjálfsagt að setja þetta skilyrði, því að hér er um mikið framlag að ræða. Í meðalsíldveiðiári ætla ég, að það muni nema 50—60 þús. kr.

Önnur brtt. n. er við 3. gr. frv., í tveim stafliðum. A-liðurinn fjallar um, að beitusíld verði undanþegin þessum skatti. Eftir frv. er ætlazt til, að öll síld verði skattlögð, hvort sem hún er brædd, söltuð eða notuð til beitu. Nú er það mjög óeðlilegt að skattleggja beitusíldina nokkuð, og virðist því n. ástæða til að undanskilja hana skatti með öllu. Auk þessa er mjög erfitt að fylgjast með sölu beitusíldar, og þar af leiðandi illt að fást við að innheimta þann skatt, sem á hana kynni að vera lagður.

Síðari stafliðurinn (b) fjallar um það, að í stað 150 kg. komi 135 kg. N. vill færa þetta til samræmis. Það er venja að reikna eitt mál af bræðslusíld á 135 kg., og samsvarar það 1½ hektólítra af saltsíld. Þetta breytir ekki tekjum sjóðsins, nema hvað búast má við, að þær ef til vill vaxi.

Loks leggur n. til, að aftan við 5. gr. verði bætt, að 1/10 af tekjum sjóðsins sé lagður í sjóð til eflingar flugferðum. Það kemur fram í aths. frv., að ekki er meiningin að verja öllum tekjum sjóðsins til útihalds flugvélar til síldarleitar, enda er svo kveðið á í 5. gr., að ekki megi verja nema 9/10 af tekjunum í því skyni. Telur n. því rétt að bæta við, að því, sem eftir er, skuli varið til eflingar flugferðum almennt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér frv., og býst við, eins og málið horfir við, að frv. verði samþ.