11.04.1930
Efri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (866)

460. mál, bókasöfn prestakalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Kirkjumálanefndin hugsar sér, að komið verði upp föstum bókasöfnum á prestssetrum, sem fylgi þeim og séu eign þeirra og fylgi embættunum. Þegar til þess er litið, að nú er verið að byggja upp prestssetrin í varanlegum steinhúsum, er vel hugsanlegt, að geyma megi á prestssetrunum bækur um lengri tíma án þess að þær skemmist. Hinsvegar eiga prestarnir við svo vond launakjör að búa, að erfitt er fyrir þá, ef ekki ókleift, að koma sér upp bókasöfnum og halda þeim við af eigin rammleik. Ég skal ekkert um það segja að svo stöddu, að hve miklu leyti bókasöfn eru heppileg undir þessu formi, en það er hægt að hugsa sér, að þessi hugmynd kæmi til framkvæmda í sambandi við skipulagningu á almennum bókasöfnum í sveitum og kaupstöðum.

Fleiri orð sé ég ekki ástæðu til að láta fylgja þessu frv., en get vísað til þess, sem ég sagði í sambandi við það frv., sem var næst á dagskrá á undan þessu og fjallaði um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra (þskj. 459). Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til menntmn. að umr. lokinni.