19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1931

Einar Jónsson:

Austur í Rangárvallahreppi er þannig ástatt, að þar er engin símstöð út frá aðallínunni, sem liggur frá Reykjavík og austur. Þess vegna óska menn þar eystra eftir, að símalína verði lögð frá Efra-Hvoli og upp á Land, sem lægi frá Efra-Hvoli um Stóra-Hof, Vestri-Kirkjubæ og Geldingalæk.

Menn úr þessum sveitum hafa gert tilraunir til að fá þetta samþ., en landssímastjóri álítur, að samkv. símaáætlunum muni þessi lína ekki geta komið fyrr en næsta ár, m. ö. o. 1931. En mönnum þykir illt að verða að bíða, og óska eftir að fá línuna á þessu ári. Kostnaður yrði ekkert afskaplega mikill, með því að ríkið greiddi helminginn, þá yrði sá styrkur ca. 10 þús. kr. Flutning allan á efni frá höfn munu héraðsbúar taka að sér á sinn kostnað.

Í vetur hefi ég verið að leita eftir því hjá landssímastjóra og atvmrh., hvort þetta mundi fást, en fékk ekki vissu fyrir því, nema því væri komið inn í fjárl. Og ég sé vitanlega það, að það verður að fara þá leið, því að annars er engin vissa fyrir því, að þessu verði framgengt næsta ár. Þess vegna þykir mér vissara að fá þessa fjárveitingu í þessum fjárl., til þess að framkvæmdirnar þurfi ekki að bíða.

Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu um þetta atriði, en vil aðeins lýsa því fyrir þeim, sem ókunnugir eru þar eystra, hversu erfitt menn eiga þar í strjálbýlinu á söndunum austur í Rangárvallasýslu. Það er óþægilegt fyrir menn að þurfa að fara 10–30 km. til að síma og fá ef til vill ekkert samband, verða að fara heim aftur erindislaust og eiga á hættu að fara sömu erindisleysuna, þó að þeir fari aftur næsta dag. Það blandast því engum, sem þekkir þessar ástæður, hugur um, að þarna er mjög mikil þörf fyrir síma. Ég skal ekkert um það dæma, hvort hún er þar mest, en ég veit, að hún er mjög knýjandi. Ef hv. deild treysti sér til að taka þessari brtt. minni vel, væri ég ánægðari en áður. En samt mun ég ekki fara í hrossakaup með þetta mál; ég er ekki vanur því. Ég geng aldrei inn á atkvgr. í nokkru máli, nema ég vilji það sjálfur.

Ég veit, að hv. fjvn. mun athuga þetta mál og skilja, hver nauðsyn er hér á ferðum. Annars læt ég laust og bundið með það, hvernig þetta mál fer, og legg það algerlega í vald hv. deildar, hvernig hún greiðir atkv. um það.

Þá er annað mál, sem er ekki síður mikilsvert. Það er athugun á vatnafyrirhleðslu í Markarfljóti og Þverá. Vegamálastjóri, sem er þessu mjög kunnugur, álítur, að þessara rannsókna sé hin mesta þörf. Ég þarf ekki að minna á það, að á síðasta þingi voru veittar 10 þús. kr. til rannsókna á þessu svæði. Ég hefi nú í dag fengið bréf frá búnaðarmálastjóranum, sem mun hafa mesta þekkingu á þessum málum af þeim mönnum, sem nú eru uppi hér á landi, og hann álítur ekki nóg, þó að veittar hafi verið 10 þús. kr. í þessu skyni síðastl. ár. Til þessara rannsókna var Ásgeir Jónsson frá Þingeyrum fenginn á síðasta ári, og lauk hann þá við 1/3 af því, sem þar þarf að rannsaka. Ásgeir er góður og gegn maður, og þrátt fyrir það, að hann notaði sinn tíma eins vel og hann gat, gat hann ekki afkastað meiru en þessu. Þess vegna álít ég, að þetta Alþingi þurfi að veita aðrar 10 þús. kr. til þessara rannsókna og svo þriðju tíu þús. næsta ár.

Ég gæti talað langt mál um þetta til að lýsa því fyrir ókunnugum mönnum, hver nauðsyn er að vernda sveitirnar þar eystra fyrir vötnunum. En ég vona, að þess þurfi ekki, en menn geti sett sig inn í þessar ástæður, þó að ég skýri málið ekki nánar nú.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þær rannsóknir, sem gerðar voru í fyrra að tilhlutun stj.

Þá er eftir að athuga lágsvæðin, sem grasi vaxin eru ennþá, t. d. Landeyjar o. fl., í hverri hættu þau standa, ef ekkert er gert þeim til verndar. Gagnvart vatnafyrirhleðslunni var ég svo heppinn, að Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri fékk mér bréf í dag um þessi atriði, og hefi ég fengið það í hendur hv. formanni fjvn. Vona ég, að hv. n. taki málið til athugunar eftir þessum tillögum.

Mér leiðist að þurfa að standa hér þing eftir þing og benda á það, hvernig Rangæingar eru hafðir útundan um fjárframlög úr ríkissjóði. Þótt þeir séu kannske ekki heppnir með þingmenn, þá finnst mér það nokkuð lítið, að þeir eigi að láta sér nægja einar 600 kr. Fjárlfrv. í fyrra var svo úr garði gert, að þeir áttu að fá þetta eitt, og eins kom það núna frá hæstv. stj. Veit ég, að mínir hv. þingbræður sjá, hver hlutdrægni er hér á ferð, og heiti ég nú á hv. fjvn. og þingheim allan að fara nú ekki svo að sökum við Rangæinga, að þeir fái ekki frekari styrk, einkum til samgöngubóta.

Ég vildi óska, að allir mínir kæru þingbræður hefðu verið staddir með mér austur á Rangárvöllum í fyrrakvöld, til þess að sjá, hvernig þar er umhorfs í vonzkuveðri. Ég var þá austur í Gunnarsholti með öðrum manni, Tómasi Tómassyni, ættuðum frá Reyðarvatni. Og það get ég sagt mönnum, að þar var svo dimmt af sandrokinu, að það var alls ekki ratljóst. En þó er það vatnabrotið, sem er til allra mestrar eyðingar í þessari sýslu, því að það rótar niður túnum manna og grasnyt. Ef ríkið hleypur ekki undir bagga með mönnum og styrkir þá eitthvað í baráttunni gegn vötnunum, þá eru þeir bara dauðir.

Eins og ég hefi sagt áður, sé ég ekki, að það sé til neins að vera að tala hér í tómri deildinni, þótt nú séu hér raunar óvenjumargir saman komnir. Vil ég heita á þá, sem viðstaddir eru, að bregðast ekki Rangæingum í þessu nauðsynjamáli þeirra. Einkum heiti ég þó á hv. fjvn.-menn — ég sé, að hv. þm. Mýr., sem er góður maður, er hér inni, og eins hv. form. og hv. frsm. fyrri hlutans, sem situr í forsetasæti.