11.04.1930
Efri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (878)

462. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég geri ráð fyrir, að ef þetta frv. hefði komið fram fyrr á þinginu, hefðu verið töluverðir möguleikar fyrir því, að það hefði getað gengið fram nú. Það hljóðar um viðhald og meðferð kirkjugarða, líkhúsa, heimagrafreita og margt fleira, er að þessu lýtur. Þetta er efni, sem ég býst við, að gætu ekki orðið miklar deilur um. En satt að segja hafa kirkjugarðar okkar, sérstaklega í Reykjavík og stærri kaupstöðum, verið í töluverðri vanrækslu, þannig að ekki er með öllu vansalaust, hvernig meðferð þeirra hefir verið.

Ég vil leggja til, að þessu frv. verði vísað til allshn. að lokinni umr.