24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

18. mál, sala lands undan prestssetrinu Borg á Mýrum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að af þeim fimm frv. kirkjumálanefndarinnar, sem hér liggja fyrir, séu í þessu frv. fólgnar till., sem líklegastar muni til þess að valda verulegum deilum og umr. úti um land. Í því er sem sé farið fram á nokkra breyt. á því, hvernig prestar fái veitingu fyrir sínum embættum. Það, sem hefir vakað fyrir kirkjumálanefndinni, er, að kosningar presta verði ekki með alveg jafnmikilli líkingu við þingmannskosningar eða borgarstjórakosningar eins og verið hefir. Kirkjumálanefndin álítur, eins og margir aðrir, að það geti verið óheppilegt fyrir prestana og söfnuðina, að presturinn komi inn í prestakallið eftir harðar deilur um það, hvort hann eigi að koma eða ekki, þar sem stór minni hl. af söfnuðinum hefir e. t. v. tekið ástfóstri við annan prest, en beðið ósigur og er því oft í baráttuhug.

Nú hefir kirkjumálan. lagt til, að í stað þessara almennu kosninga kæmi einskonar ráðning á prestinum, þannig að trúnaðarmenn safnaðarins semdu við prestinn; og í þessu er nýmælið fólgið.

Þó að ég viðurkenni, að það sé rétt, sem kirkjumálan. bendir á um galla á prestskosningunum, þá býst ég við, að mikill hl. þjóðarinnar vilji ekki missa það frelsi, sem hún hefir haft. Þess vegna er þetta eitt af þeim málum, sem er heppilegast, að verði rætt og ritað um, því að það má vera, að þetta sé ekki sú rétta lausn, en að umr. geti leitt til þess, að önnur lausn finnist heppilegri en hér er stungið upp á.

Legg ég svo til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.