27.01.1930
Neðri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (896)

24. mál, samskóli Reykjavíkur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Því fremur vildi ég nota tækifærið nú að segja nokkur orð um þetta mál við 1. umr., að í hv. Ed. er rétt ókomið frv. um skipun unglingafræðslunnar í landinu, sem ég vænti, að hv. þdm. kynni sér vel og rækilega til samanburðar því frv., er hér liggur fyrir til umr.

Þegar frv. þetta um samskóla Reykjavíkur var borið fram 1927, þá var enn brýnni þörf að bæta úr því ástandi, sem þá var, heldur en nú. Að vísu skal það játað, að sumir sérskólarnir hafa enn við slæm húsakynni að búa og full þörf á betri og fullkomnari byggingum. En frv. var þá, því miður vil ég segja, ekki nógu vel undirbúið, og svo er enn. Hugmyndina um þennan samskóla hafði einn skólamaður okkar fengið við að sjá í iðnaðarbæ einum í Þýzkalandi þetta skólafyrirkomulag, en vitanlega er um allt önnur skilyrði að ræða í slíku iðnaðarlandi eins og Þýzkaland er heldur en í okkar fámenni. Frv. þetta, eða samskólahugmyndin, er því innflutt, en hefir ekki vaxið upp og þroskazt í íslenzkum jarðvegi, eins og ég mun koma að síðar í ræðu minni.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkið byggi og reki skóla, sem geti tekið á móti mörgum hundruðum nemenda. Hér fermast á ári um 400 börn, svo að ef ákveðin yrði skólaskylda, þá yrði það geysimikill fjöldi, ef allir ættu að stunda framhaldsnám í 2 eða 3 ár. Inn í þetta skólabákn eru teknir sérskólar svo sem iðnskólinn, verzlunarskólinn og vélstjóraskólinn, eins og hv. flm. hélt fram. En það sýnir, hvílíkt handahófsverk þessi frumvarpssmíði er, að teknir eru með tveir einkaskólar, en einum ríkisskóla, eins og t. d. stýrimannaskólanum, er með öllu sleppt. Það er einmitt þetta, sem sýnir öllu betur, að þessi samskólahugmynd er innflutt, en ekki af íslenzkum rótum runnin. Í iðnaðarlandi, eins og Þýzkaland er, veltur á mestu að fá sem bezt menntaða iðnaðar- og verzlunarstétt. Því er ekki nema eðlilegt, að Þjóðverjar beiti sér fyrir stofnun slíkra skóla. En hjá okkur er iðnaður allur í smáum stíl, og að því leyti er til verzlunarstéttarinnar kemur, þá er aðalstarf hennar að dreifa út aðfluttum vörum innanlands, enn sem komið er, því að salan á saltfiski er enn að mestu í höndum útlendinga.

Aftur á móti vil ég alls ekki neita því, að verzlunarskólinn hafi við slæm húsakynni að búa og margskonar sleifarlag á rekstri hans, en þó að svo sé, er engin ástæða til að rjúka nú upp og gera hann að ríkisskóla. Enda vil ég leyfa mér að skjóta því til hv. flm., sem er einn í flokki þeirra manna, sem halda þessum skóla uppi, að það er alls ekki vansalaust fyrir hann eða hans flokk að hafa skólann jafnilla útbúinn eins og raun ber vitni. En þeir eiga að sýna þann manndóm sjálfir og metnað að bæta úr þessu. Þeir eru það efnum búnir margir hverjir, að þeir geta þetta, ef viljann skortir ekki, og þeir eiga að gera það; hitt er frekja, að ætla að hlaupa frá réttmætum skyldum og varpa öllu upp á ríkissjóð.

Þetta, sem ég hefi nú nefnt, er höfuðgalli á hugsun þeirri, er felst í frv., að leggja aðaláherzluna á þessi tvö atriði: vélfræði og verzlunarmenntun, því hvorugt á hér við í jafnstórum stíl og frv. gerir ráð fyrir. Því að hvað gerir hávaðinn af þessum 400 börnum, sem fermast hér á ári? Verða þau verzlunarmenn, smiðir eða vélstjórar? Nei, langmestur hluti þessara unglinga verða sjómenn og verkamenn eða verkamannakonur. Nám þessara unglinga þyrfti því að sníðast við það starf, sem síðar bíður þeirra í lífinu. Hér er mest þörf á góðu skólaeldhúsi og á námi, sem fræðir um aðalatvinnugreinir þjóðarinar. Hinsvegar neita ég því ekki, að þörf sé bæði á smiðum og vélstjórum, en allt er það takmarkað. Misskilningur Jóns Ófeigssonar er í því fólginn, að hann tekur upp í frv. sitt hugmynd, sem hann hefir eignazt erlendis á snöggu ferðalagi og orðið hrifinn af, en hvorki litið á þarfir Íslendinga eða neitt til þess gert að bræða hana saman við ástandið eins og það er hér.

Þá er annað atriðið, kostnaðarhlið málsins, og verður því ekki neitað, að eftir frv. er sá kostnaður mjög mikill, sem ætlazt er til, að ríkið leggi á sig. Í fyrsta lagi er ríkinu gert að skyldu að reisa húsið með öllu tilheyrandi að mestu leyti, því að það, sem hinir aðilarnir eiga að leggja fram, er alveg hverfandi. Og í öðru lagi mun rekstrarkostnaðurinn koma að mestu leyti á ríkið, eins og í pottinn er búið með frv.

Ef þessi skóli reynist góður, þá má gera ráð fyrir, að aðsóknin geti vaxið svo, að skólinn telji um 1000 nemendur, og 3/4 af rekstrarkostnaðinum verður þá engin smáræðis upphæð fyrir ríkið á ári.

Ég vil sízt mótmæla því, að eitthvað þurfi að gera til þess að auka unglingafræðsluna og bæta. En verði frv. þetta að lögum í því formi, sem það er fram borið, þá verður afleiðingin sú, að hinir kaupstaðirnir víðsvegar um land eiga hlutfallslega sama rétt til hjálpar ríkisins, hver út af fyrir sig. Með þessu vil ég þó ekki segja, að þetta geti ekki verið skynsamlegt, en eins og frá frv. er gengið, verður þetta of dýrt, og þess vegna vil ég, að þingið athugi það vel og gaumgæfilega. Ég sé ekki eftir fénu, ef svo er um hnútana búið, að því sé varið til góðra og gagnlegra hluta. En stefna frv. er skökk. Bærinn á að sjálfsögðu að leggja meira fram en frv. ætlast til, einkum þó að því leyti, er við kemur rekstrarkostnaðinum.

Annars vil ég undirstrika, að það er hægt að sanna, að þeir menn, sem hafa undirbúið málið, þeir hafa ekki hirt um að afla þeirra gagna, sem skyldi. Mál þetta var og er enn mjög illa undirbúið.

En eins og menn muna, hefir vaxið upp samhliða þessu máli annað fyrirkomulag, sem var viðurkennt af þinginu 1928. Þá var samþ. frv. um vísi að almennum gagnfræðaskóla fyrir Reykjavík og slegið föstu vissu hlutfalli um fjárframlög bæjarins annarsvegar og ríkisins hinsvegar. Þá voru og á þinginu í fyrra samþ. lög um héraðsskóla og slegið föstu hlutfalli um fjárframlög til þeirra. Og í Ed. í fyrra varð það að samkomulagi með öllum flokkum að reyna að koma fram endurbótum á alþýðufræðslunni hér í bæ og ákveðið, að ríkissjóður skyldi leggja fram 80 krónur á hvern nemanda, en bæjarfélagið 120 krónur. Nú höfum við fræðslumálastjórinn endurskoðað það frv. og samið annað á grundvelli þess, sem lagt verður fyrir Ed. mjög bráðlega. Það fjallar um annað og meira en alþýðufræðsluna í Reykjavík einni saman, sem sé um alþýðufræðsluna í sex helztu kauptúnum landsins. Fjárframlögin viljum við hækka, þannig að ríkissjóður greiði 100 krónur á hvern nemenda, en það bæjarfélag, sem hlut á að máli, 150 krónur. Slíkur gagnfræðaskóli mundi vafalaust verða kvöldskóli að nokkru leyti, fyrir þá, sem eiga erfitt með að sækja skóla á daginn. Og hann mundi verða „samskóli“ að því leyti, að a. m. k. í hinum stærri kauptúnum mundi smám saman hlaðast utan á hann ýmisk. viðbætir, í Reykjavík t. d. skólaeldhús, nægilega stórt til þess, að velflestar ungu stúlkurnar í bænum gætu sótt þangað praktiska menntun um allt, er að bústjórn lýtur. Á sama hátt mundi verða bætt við fyrir karlmenn, en fyrst verðum við að láta reynsluna segja til um þörfina og fá að vita, hvað það eiginlega er, sem menn vilja í þessu efni.

Ég get enn bent á ein missmíði í 10. gr. frv., þar sem talað er um launin. Það er gert ráð fyrir, að ungmennaskólastjórinn hafi að byrjunarlaunum 3200 krónur, auk dýrtíðaruppbótar, en hinir skólastjórarnir 4400 krónur. Hvaða réttlæti er í þessu? Stærsti skólinn á að vera lakast settur. Þetta má auðvitað hæglega laga, en það sýnir þó, að ekki er nægilega vel um málið hugsað.

Ég er á þeirri skoðun, að þetta frv. eigi að fara til nefndar, en mér þótti rétt, að hv. þdm. fengju að vita það nú þegar, að annað frv. er á leiðinni í hinni deildinni, sem er miklu víðtækara en þetta frv., og þar sem fyllilega er tekið tillit til gjaldþols ríkissjóðs og öllum kostnaði skipt sanngjarnlega á milli ríkissjóðs og þeirra bæjarfélaga, sem hlut eiga að máli. Það er þegar í öllum kaupstöðum landsins kominn vísir að almennum skóla, sem bæjarfélögin vilja leggja fram fé til. Öðru máli er að gegna um Reykjavík. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir engan áhuga sýnt til að bæta úr skólamálum bæjarins, sér til lítillar sæmdar. Í vetur var t. d. borin fram í bæjarstj. till. um, að heimilað væri fé til skólabyggingar, en hún var felld með 10:5 atkv., ef ég man rétt.