11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (909)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég þarf ekki að vera margorður um þetta mál, og get ég að mestu leyti vísað til nál. meiri hl. á þskj. 236. Að vísu hefir afgreiðslu þessa máls borið að með nokkuð fágætum hætti af hálfu hv. minni hl., en út í þá sálma ætla ég ekki að fara, nema sérstakt tilefni gefist.

Meiri hl. lítur svo á, að með þessu frv. og öðrum slíkum sé gengið feti framar en fært sé um framlög ríkissjóðs til hafnarbygginga og ábyrgð hans á lánum hafnarsjóða. Undanfarið hefir ríkissjóður lagt fram ¼–2/5 kostnaðar og tekið ábyrgð á því, sem á skorti og hafnarsjóðirnir áttu að leggja fram sjálfir. Þessar ábyrgðir nema nú orðið ærið hárri upphæð, og fyrir hefir komið, að ríkissjóður hefir orðið að taka að sér greiðslu á lánum hafnarsjóðanna vegna ábyrgðanna, og ætla ég, að ríkissjóður hafi þegar tapað nokkru á aðra millj. á þennan hátt. (MG: Hefir þetta komið fyrir nema á einum stað?). Ég þori ekki að segja um, hvort þetta hefir orðið á einum eða tveimur stöðum.

Meiri hl. vill halda sér við þá reglu um framlag ríkissjóðs, sem algengust hefir verið, að ríkissjóður leggi fram 1/3 kostnaðar við hafnargerðir. Hinsvegar ætlast

meiri hl. til, að ríkissjóður taki ekki áábyrgð á meiri upphæð en sem svarar framlagi hans, og verði því hafnarsjóður ávallt að leggja fram 1/3 kostnaðar hjálparlaust af hálfu hins opinbera.

Þetta skilyrði viljum við setja til þess, að sýnt sé í upphafi, að hafnarsjóðirnir hafi yfir einhverjum efnum að ráða og geti ekki ófyrirsynju velt yfir á ríkissjóð öllum vanda og kostnaði af óvarlegum áætlunum. Ábyrgðir þessar eru þegar orðnar þungbærar ríkissjóði, og verða vitanlega því viðurhlutameiri sem þær eru fleiri.

till. kom fram hjá meiri hl., að afgreiða þetta mál með því að vísa því til stj. með áskorun um, að hún undirbyggi nýja heildarlöggjöf um hafnargerðir til næsta þings. Meiri hl. álítur nauðsynlegt og sjálfsagt, að slík löggjöf komist á sem fyrst, því að allt handahóf í þessum málum er hættulegt. Jafnframt því að meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 236, vill hann því eindregið hvetja til, að slík heildarlöggjöf verði lögð fyrir næsta þing. Vitanlega væri bezt, að hægt væri að vísa á einhverja innlenda lánsstofnun, sem hafnarsjóðirnir gætu leitað til, því lántökur þeirra erlendis geta hæglega orðið til að spilla fyrir lánstrausti ríkissjóðs, einkum þegar margir nota þær á útlendum peningamarkaði.

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi og komist þá nokkuð á veg. Meiri hl. lítur svo á, að vegna þess, að á Sauðárkróki sé þörfin fyrir hafnarbætur brýnni en víða annarsstaðar, þá sé eigi rétt að fresta afgreiðslu þess með rökstuddri dagskrá, og hefir því lagt til að fara þann miðlunarveg, sem brtt. á þskj. 236 lúta að.