11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (910)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, lá þetta mál fyrir síðasta þingi. Varð það afgr. til 3. umr., en dagaði þá uppi. Við umr. í fyrra gat hv. flm. (JS) um ýmsar ástæður fyrir því, sem er óþarfi að fara að rifja hér upp nema að litlu leyti. Hann benti á, að héraðsbúar hefðu þegar fyrir 15 árum hafizt handa í þessum efnum af eigin rammleik og hefðu unnið að garði, sem nú væri orðinn 60 metra langur, en þyrfti að verða 250 metrar og breikka líka. Vitamálastjóri taldi, að á þennan hátt fengist góð höfn og bryggjupláss fyrir skip á 75 metra svæði og fyrir báta á 130 metra svæði. Fylgdi frv. kostnaðaráætlun frá vitamálastjóra.

Skagfirðingar hafa fært rök fyrir þörfinni og hv. 2. þm. Skagf. hefir sýnt fram á, hverjar breyt. eru að verða á atvinnurekstri þar nyrðra. Bátaútvegur er stórum að aukast þrátt fyrir hafnleysið. Nú er það kunnugt, að við Skagafjörð eru einhver ríkustu síldarmið landsins, og mundu menn vafalaust tæplega kjósa fremur aðra síldveiðahöfn, ef höfnin væri bætt. Skagafjörður er eitt af blómlegustu héruðum landsins, og það er einhuga ósk allra héraðsbúa að fá góða höfn á Sauðárkróki.

Þegar þetta mál lá fyrir sjútvn. í fyrra, klofnaði n. um það, eins og nú. Við hv. þm. Vestm. lögðum til þá eins og nú, að frv. væri samþ. óbreytt. En þáverandi minni hl. (SvÓ og SÁÓ) kom fram með till. í málinu, sem voru Skagfirðingum mun hagstæðari en brtt. meiri hl. eru nú, og þó leit hv. deild svo á, að Skagfirðingum væri ekki sýnd nægileg sanngirni á þann hátt, og felldi því till. Þykist ég því mega vona, að sá eindregni meiri hl., sem fylgdi frv. í fyrra, fylgi því einnig nú.

Um brtt. meiri hl. er það að segja, að með þeim er gengið inn á alveg nýja braut. Hingað til hefir ríkissjóður lagt fram ¼-2/5 kostnaðar og ábyrgzt það, sem á vantaði. Nú leggur meiri hl. til ríkissjóðsframlag að 1/3, ríkisábyrgð á 1/3, en héruðin eða viðkomandi hafnarsjóður leggi fram 1/3 hjálparlaust. Það má játa, að ekki sé nein föst regla enn gildandi um þessi efni, en að svo miklu leyti sem fordæmin hafa skapað reglu, þá er hún sú, að ríkissjóður hefir tekið ábyrgð, á þeim hluta kostnaðarins, sem hann hefir ekki lagt fram.

Í brtt. meiri hl. er vikið frá þessari reglu á óheppilegan hátt. Stóru kaupstaðirnir, sem þó ættu óneitanlega að eiga hægara með að útvega sér lánsfé en kauptúnin, hafa fengið fulla ríkisábyrgð á því, sem umfram er framlag ríkissjóðs. Með þessu væri því kauptúnunum sýnt óhæfilegt ranglæti.

Í fyrra flutti stj. frv. til laga um hafnargerð á Skagaströnd, þar sem ríkissjóðsframlag átti að nema helmingi kostnaðar. Þingið lækkaði framlagið niður í 2/5, en tók ábyrgð á 3/5. Það er því ekki lítil stefnubreyt., sem orðið hefir hjá hv. stjórn, ef hún skyldi standa á bak við till. meiri hl. í máli þessu. Ég held, að afleiðingin yrði sú, ef héruðin eiga að leggja fram 1/3 kostnaðar hjálparlaust, að hin smærri kauptún gætu alls eigi ráðizt í hafnargerðir.

Við þetta þarf ég litlu að bæta nema því, að mér virðist sem talsverðra missagna gæti í þskj. 236, þar sem svo segir:

„Sá fágæti atburður hefir gerzt í máli þessu, að minni hl. nefndarinnar (ÓTh og JJós) hefir gefið út álit um málið og tvö önnur hafnarlagafrv. (Dalvíkur og Akraness), er fyrir nefndinni hafa legið, áður en upplestur hófst í nefndinni eða nokkur ákvörðun hafði verið tekin af henni um meðferð þeirra“.

Þetta verð ég að segja, að eru blátt áfram tilhæfulaus ósannindi. Ég vil biðja hv. ritara n. að lofa mér að sjá fundarbókina, svo ég geti lesið upp úr henni nokkur orð, með leyfi hæstv. forseta. (Sækir bókina). Þar stendur:

„Framkomin till. frá Ásg. Ásg. um að vísa öllum hafnarlagafrv. er fyrir nefndinni liggja til stjórnarinnar . . . . Tillagan felld með jöfnum atkvæðum . . . . S. Á. Ó. greiddi ekki atkvæði .... Ólafur Thors og Jóh. Jós. lýstu yfir því, að þeir mundu skila minni hluta áliti“.

Það liggur í augum uppi, að þeir tveir nm., sem atkv. greiddu með þessari till., þeir hv. frsm. meiri hl. og hv. þm. V.-Ísf., voru þá þegar búnir að taka afstöðu til málsins. Hv. 4. þm. Reykv. greiddi hinsvegar ekki atkv. En við hv. þm. Vestm. lýstum þá þegar yfir, að við gæfum út sérstakt nál. Svo kemur þrem dögum seinna skriflegt nefndarálit frá form. n., þar sem býsnazt er yfir því, að við hv. þm. Vestm. höfum tekið ákvörðun í málinu, áður en frv. hafi verið lesið upp í viðurvist hans, og virðist vera mjög hneykslaður á því. (SvÓ: Já, á því, að frv. skyldi ekki vera lesið áður). Já, einmitt það. En hvað má þá segja um það framferði hv. form. sjálfs, að vilja vísa málinu til stj. á sama fundinum, og samþykkja till. um það? Ef framkoma okkar hv. þm. Vestm. er glæpsamleg, hvað má þá segja um hann sjálfan?

Ef þetta væri einhver ungur ærzlabelgur, sem ætti hlut að máli, þá væri það kannske skiljanlegt, hve margsaga hv. þm. hefir orðið í máli þessu, en þegar þessi gamli sómamaður fer þannig að, þá má segja, að svo bregðast krosstré sem önnur tré.