11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (913)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Hannes Jónsson:

* Hv. 2. þm. Skagf. talaði allmikið fyrir hafnargerð á Sauðárkróki og færði því mannvirki allmikið til gildis; er í sjálfu sér ekkert undarlegt við það, þótt einhver framför ætti sér stað við slíkar framkvæmdir, og yfirleitt væru framkvæmdir einkennilegar, ef engin breytt aðstaða fengist við það. En það, sem verður að leggja alveg sérstaka áherzlu á, er einmitt það, hvað ríkið getur lagt fram og hvað eðlilegast er, að það geri.

Ég skal ekki að svo komnu ræða aðstöðu hv. þm. gagnvart því atriði, að það sé óeðlilegt, að ríkissjóður neiti um ábyrgð á þeim hluta kostnaðar, sem héraðið á að leggja fram til þessa mannvirkis. En dálítið einkennileg finnst mér aðstaða hv. þm. í fjvn., því að hann hefir skrifað undir nál. fjvn., þar sem tekin er ákvörðun um styrk til lendingarbóta á einum sjö stöðum. N. kemst að þeirri niðurstöðu, að þessar lendingarbætur séu mjög nauðsynlegar og aðkallandi. Hv. n. hefir samt ekki séð sér fært að veita nema 1/3 í næstu fjárlögum til þessara mannvirkja, af því sem hún ræður til að ríkið leggi fram til þeirra. Í fjárlagafrv. fyrir 1931 er því áætlaður 1/9 hluti kostnaðar. Hefir n. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinsvegar leggur nefndin eindregið á móti því, að ríkið taki á sig nokkrar ábyrgðir fyrir þeim hluta kostnaðar við mannvirki þessi, sem héruðunum ber að leggja fram“.

Nú veit ég satt að segja ekki, hvorum endanum á hv. þm. ég á að trúa, þeim, sem veit að styrkveitingunni til þessara mjög svo nauðsynlegu mannvirkja, eða hinum, sem veit að fjárveitingunni og ábyrgðinni fyrir kostnaðinum við hafnargerðina á Sauðárkróki. — Ef þessi stefna væri tekin upp í þinginu, er augljóst, hvað það mundi hafa í för með sér. Það mundi hafa það í för með sér, að þar sem þarf að fá slíkar lendingarbætur, eins og þær sjö, sem áður voru nefndar, mundi verða snúið að því að biðja um hafnargerðir. Ég veit, að það er ósköp auðvelt að útvega áætlun um hafnargerð eins og á Sauðárkróki og hafa sömu aðferð og hv. flm. þessa máls ætla að hafa og eins og var höfð um afgreiðslu hafnargerðarinnar á Skagaströnd, en það er að byrja að byggja einhvern lítinn hluta verksins, sem gæti verið eins og lendingarbót.

Nú er í ráði að byrja á höfninni á Skagaströnd, en í raun og veru er það ekki nema lendingarbót, sem fjvn. hefir tekið svona aðstöðu til. Nú liggja fyrir þinginu þrjú hafnafrv. Kostnaðurinn við þær er áætlaður um 2200000 kr. Ég býst við, að það orki nokkuð tvímælis, hvort sé réttara að leggja á 3. millj. í einar þrjár hafnir eða verja því til lengingarbóta víðsvegar um land. Það er áreiðanlegt, að fyrir það fé mætti gera lendingarbætur víðsvegar með ströndum fram, svo að vel mætti við una. Þó að nú sé gert mikið fyrir samgöngumálin til sjávar, þá er ómögulegt, að hvert hérað geti fengið sína höfn. Það verður að komast af á ódýrari hátt.

Ég hefi ekki heyrt þess getið, að Sauðárkrókur sé neitt útundan eða illa settur með afgreiðslu skipa. Margir kaupstaðir eru miklu verr settir, t. d. Húsavík. Ef Sauðárkrókur fær nú höfn, er ekki nema eðlilegt, að aðrir kaupstaðir, sem eru verr settir, vilji fá höfn líka, en þá fæ ég ekki séð, hvernig ríkið ætti að geta staðið straum af slíkum kostnaði. Ég hefi heyrt því fleygt, að hv. 2. þm. G.-K. hafi fast í hyggju að koma upp höfn hér einhversstaðar suður með sjó. (ÓTh: Fyrir mitt fé?). Nei, ætli hv. þm. ætli sér ekki að fá fé til þess úr ríkissjóði? Og ekki yrði það ódýrasta höfnin. (ÓTh: Því er alltaf verið að skrökva upp á mig hér í þessari hv. deild?). — Það er því áreiðanlegt, að þegar hafnarmálunum er komið svona, er bezt, að þingið afgreiði þau með því að vísa þeim til hæstv. stj., svo að hún geti athugað, hvaða stefnu ríkið á að taka. (PO: Stj. hefir lýst yfir sinni stefnu). Hún hefir ekki gert það nema aðeins hvað viðvíkur höfninni á Skagaströnd. Það er búið að setja það í lögin, að gera skuli höfn á þessum stað, af því þess þarf nauðsynlega með. (PO: Já, þetta er afstaða stj. — JÓl: Það er bara af pólitískum ástæðum). En ég vil ekki láta byggja höfn við hverja hundaþúfu á landinu. (MG og JS: Er þá Skagafjörður hundaþúfa? — Forseti: Ekki samtal). Jafnvel þó að það væri vilji stj., þá ætti þingið að vera á móti því, hvaða stj. sem það væri, ef þingið áliti það ekki hyggilegt og illt að framkvæma það.

Ég sé ekki, að hv. 2. þm. Skagf. hafi skrifað undir nál. fjvn. með fyrirvara, og þykir mér því einkennileg afstaða hans, að hann skuli ekki vilja ganga í ábyrgð fyrir bráðnauðsynlegar hafnarbætur, en vilja óður og uppvægur, að gengið sé í ábyrgð fyrir fjárframlög til hafnar

bóta; sem héraðsbúar geta risið undir sjálfir, en gæti verið, að ríkissjóður yrði að borga að mestu leyti, ef hann gengi í þessa ábyrgð.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en aðeins geta þess, að mér virðist stefna til vandræða, ef oft koma svona frv. fyrir þingið. Ef þetta frv. yrði samþ. hér og kæmist í framkvæmd, þá væri ekki þar með búið, heldur væru miklar líkur til þess, að þá kæmu mörg önnur svipuð frv., sem ættu alveg sama rétt á sér og þetta, sem hér liggur fyrir nú.