11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (919)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er létt verk að vera frsm. í máli, þegar jafnmargir aðrir hv. þm. og nú hafa talað ágætlega fyrir málinu. Ég hefi því litlu við að bæta.

Ég álít naumast viðeigandi að fara í langt karp við hv. form. sjútvn. um það, sem fram hefir farið á fundum n. Ég hefi sagt sannleikann í því máli áður. Ég vil aðeins bæta því við, að þegar búið var að greiða atkv. um þá till. hv. þm. V.-Ísf. að vísa þessum málum öllum til stj., þá var bæði sá hv. þm. og hv. form n. (SvÓ) búnir að taka afstöðu í málinu og gátu því ekki átt samleið með okkur, sem vildum, að þetta frv. yrði samþ.

Mér þóttu það ákaflega brosleg rök hjá hv. form. sjútvn., þegar hann segir: Ég játa, að ég var í fyrra með hafnargerð á Skagaströnd og að hún fengi 2/5 kostnaðar og fulla ábyrgð fyrir afganginum, en það var af því, að ég leit á þá hafnargerð sem lendingarbót. (SvÓ: Það voru fleiri en ég, sem litu þannig á það, þ. á. m. hv. 1. þm. Skagf.). Ónei, það er nú ekki rétt. Það eru ekki allir þeim gáfum gæddir að geta friðað samvizkuna með því einu að nefna hafnargerðina á Skagaströnd lendingarbætur. Já, það má nú fyrr vera mismunur á hugarfari frá því í fyrra. Þá voru það 2/5 kostnaðar og full ábyrgð. Nú er það ekki nema 1/3 úr ríkissjóði og aðeins ábyrgð fyrir 1/3 kostnaðar. Þetta er svo veigamikill aðstöðumunur, að tæplega er hægt að skilja, hvað valdið hefir slíkum straumhvörfum á einu ári hjá þessum hv. þm. og máske fleirum. Hv. þm. rökstyður þessa aðstöðu sína með því, að þær kröfur verði að gera til aðilja, að þeir fórni einhverju fyrir málið. Þetta er rétt. En við viljum einmitt, að þeir fái aðstöðu til þess að geta fórnað 3/5 kostnaðar. En till. hv. meiri hl. eru einmitt þess eðlis, að Skagfirðingum gefist ekki tækifæri til að færa þessa fórn. Þeir vilja svæfa viðleitni hlutaðeigandi aðilja til að koma höfninni í verk. Hv. þdm. verða að gera sér það ljóst, að ríkissjóður verður að taka á sig ýmsa bagga, svo nauðsynleg þjóðþrifaverk verði unnin, enda hefir ríkissjóður tekið á sig margar slíkar ábyrgðir, og verkin hafa reynzt bæði héruðunum og ríkinu til stórra hagsbóta. Svo mun enn verða. Og það hefir ekkert það komið fram, sem sýni það, að rétt sé, að ríkið kippi að sér hendinni um aðstoð við framkvæmd slíkra mannvirkja. Litlir sem engir skellir hafa lent á ríkissjóði og þörfin ekki síður brýn, nú en áður.

Ég hefi um stund orðið að vera fjarstaddur vegna annara áríðandi mála. Hefi ég því ekki heyrt allt, sem fram hefir farið. Ég heyrði þó nokkur orð til hv. þm. V.-Húnv. Hann var að rökstyðja það, að lögin um hafnargerð á Skagaströnd gæfu ekkert fordæmi. Ég held nú samt, að það sé erfitt að komast framhjá því, að þar sé um fordæmi að ræða. Það var hæstv. ríkisstj., sem bar þetta fram og lagði til, að ríkið léti helming kostnaðar, en tæki ábyrgð á láni, er næmi hinum helmingi. Ég verð einmitt að líta svo á, að till. sjálfrar stj. skapi fordæmi. Og ég verð að álykta, að stjórnarflokkurinn hljóti einmitt að telja sér skylt að fara eftir því fordæmi, sem stj. gefur. Og ég verð að álíta, að þörfin fyrir höfn sé ekki minni á Sauðárkróki heldur en Skagaströnd, heldur, eins og hv. 2. þm. Skagf. ljóslega sýndi, ríkari. Upplendi Sauðárkróks er einhver blómlegasta sveit landsins. Og ég hafði í raun og veru ekki skilið til fulls þá miklu möguleika, sem tengdir eru við þetta mannvirki, fyrr en ég hafði heyrt ræðu hv. 2. þm. Skagf. Mér varð þá fyrst fullljóst, til hve mikilla hagsbóta þetta mundi leiða fyrir héraðið.

Ég þarf ekki miklu að svara ræðu hv. 4. þm. Reykv. Hann sagði ósatt um afgreiðslu þessa máls í sjútvn. Hann talaði um flaustursafgreiðslu. Um þetta sérstaka mál er það að segja, að við hv. þm. Vestm. höfum margborið fram í n. þá ósk, að þetta mál yrði afgr. Og við rökstuddum þá ósk okkar með því, að það hefði verið rætt í n. í fyrra og væri því n. kunnugt. Frv. þurfti því ekki langrar athugunar; aðeins um það, hvort hægt væri að aðhyllast fjárhagshlið þess. En hvernig sem við hömruðum á þessu, þá fengum við enga áheyrn, og önnur mál voru afgr. á undan. En þá þótti okkur líka svo langt gengið, að við létum bóka yfirlýsingu þá, sem frá hefir verið sagt, og þó biðum við enn, til þess að freista þess, hvort samvinna tækist ekki. En þegar við skildum það til fulls, að meining meiri hl. n. væri að svæfa þetta mál, þá brutumst við úr n. og bárum fram till. okkar. Meiri hl. n. sá þá eigi annað ráð vænna en að fylgja okkur eftir með sínum till. En að við höfum tjáð okkur reiðubúna til að fylgja þeim till., er einskær vitleysa. N. klofnaði á till. um að vísa málinu til stj. Voru 2 með, en 2 móti. Hv. 4. þm. Reykv. var þá ekki búinn að manna sig svo upp, að hann væri búinn að taka afstöðu til málsins. (SÁÓ: Ég var ósamþykkur till.!). Annað segir fundarbókin. Og það er leiðast, að hv. þm. er sjálfur ritari n. Hann hefir því sína eigin handskrift á móti sér. Annars, ef allt er rengt, sem ég segi frá störfum n., verð ég að panta þingskrifara til að sitja á fundum n. og bókfæra það, sem fram fer.

Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, þótt hv. 4. þm. Reykv. segi, að ég komi sjaldan á nefndarfundi. Við skulum segja, að þetta sé rétt. En þegar ég kem þangað, þá situr hv. þm. Vestm. milli hv. form. og hv. 4. þm. Reykv. eins og dauðuppgefinn dráttarhestur, klafasár og sveittur við að tosa þessum dæmalausu sleðum áfram. Ég man eftir því, að ég kom eitt sinn á fund. Þá voru þeir að lesa 36. gr. eins frv. Viku síðar kom ég aftur á fund, og þá voru þeir að lesa 57. gr. sama frv. og voru þá í sama kafla. Þótt hv. þm. Vestm. sé duglegur með afbrigðum og laginn á að fá menn til að starfa, þá er honum þó ofraun einum að fá slíka menn til að starfa svo að gagn sé að. Mitt hlutverk verður því að kippa í sleðann með hv. þm. Vestm., og mjakast þá venjulega eitthvað áfram.

Ég fann ástæðu til þess að leiðrétta frásögn hv. 4. þm. Reykv., því ég vil ekki, að gefnar séu falskar skýrslur um það, sem fram fer í n. En ef þeir ætla sér að skýra rangt frá, þá ættu þeir að hafa vit á því að skjalfesta ekki neitt það, sem gerir þeirra eigin orð að engu.

Að endingu vil ég segja, að það er ekki rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., ef hann heldur, að við sjáum ekki, að hér er um töluverðan mun að ræða fyrir ríkissjóð. En við sjáum það einnig, að hér er um jafnmikinn mun að ræða fyrir hinn aðilann. Ef ríkissjóður gengur ekki í aðra og meiri ábyrgð en hann og hans skoðanabræður vilja, þá kemst verkið aldrei í framkvæmd. (SÁ6: Þetta eru fullyrðingar og ekkert annað). Fullyrðing, sem stendur a. m. k., ef taka á gilda umsögn frá umboðsmönnum þeirra, sem sent hafa þessa málaleitun sína til Alþingis. Báðir hv. þm. Skagf. hafa lýst yfir því í deildinni, að þeir gangi út frá, að ef till. meiri hl. nái fram að ganga, þá muni málið ekki koma til framkvæmda. Ég verð að vona, að hv. 4. þm. Reykv. taki tillit til þessara yfirlýsinga, og að þær geti orðið til þess að breyta atkv. hans. Ég get vel skilið, að hann vilji fara þá leið, sem hann telur ríkissjóði ódýrasta, ef hann gengur þess dulinn, að sú leið verði málinu að falli. En ég vona hinsvegar, að þegar hann hefir fengið yfirlýsingu kunnugustu manna um, að sú aðferð sé ekki til annars en að drepa málið, þá hverfi hann frá villu síns vegar og greiði atkv. með þessu máli.