11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (929)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Sigurðsson:

Ég skal vera stuttorður. — Ég get sparað mér að svara þeim hv. þm., sem nú var að setjast niður, því að þau atriði, sem hann gerði einkum að umtalsefni, hafa þegar verið rækilega rædd hér í deildinni, svo að ég get leitt hjá mér að tala um þau að þessu sinni. Hv. þm. hélt því fram, að oft væru þau veður á Húnaflóa, að skip gætu ekki athafnað sig, hvorki austan- eða vestan megin flóans. Ég skal nú að vísu ekkert fullyrða um þetta, en þó vil ég draga það mjög í efa. Hygg ég, að sjaldan komi þau veður, að skip geti hvorki athafnað sig á Hólmavík eða Skagaströnd. (HJ: Það getur verið fleira en veður; það getur verið þoka, sem veldur slíku). Já, vitanlega, en það getur víðar komið þoka en á Húnaflóa, t. d. á Skagafirði. En það skal játað, að ég þekki ekki þá þoku, að ekki sé hægt að ferma eða afferma skip. Annars skal ég benda hv. þdm. á það, að Skagafjörður er alveg opinn fyrir í norðangarði, svo að hvergi er hlé fyrir skip, enda kemur það þrásinnis fyrir, að skip verða að leita sér skjóls undir Þórðarhöfða og liggja þar, í stað þess að fá sig afgreidd á höfnum. Það er þess vegna alveg víst, að Skagafjörður þolir engan samanburð við flesta aðra firði landsins hvað þetta atriði snertir. En viðvíkjandi því, að Skagaströnd sé betur fallin til hafnargerðar sökum staðhátta þar heldur en Sauðárkrókur, þá má benda á það, að samkv. þeim skjölum og áætlunum, er lágu fyrir í fyrra, snertandi hafnargerðina á Skagaströnd, gat ég ekki séð, að slíkt væri á nokkrum skynsamlegum rökum byggt. Bryggjupláss fæst þar t. d. alls ekki betra en á Sauðárkróki, nema síður sé, og yfirleitt eru öll skilyrði fyrir skip og afgreiðslu þeirra a. m. k. ekki betri en á Sauðárkróki, og þó er hafnargerðin þar álitin og áætluð dýrari en á Sauðárkróki. Mér er því ekki vel ljóst, í hverju sá munur liggur.

Þá var hv. þm. að ræða um afstöðu mína í fjvn. til bryggjugerðar í Keflavík o. v. En þá er því til að svara, að ekki var gengið til atkv. um það mál í n., svo að hjal hv. þm. um þetta er gripið úr lausu lofti. (HJ: Það er bezt að spyrja form. n.). Það fara að tíðkast vitnaleiðslur nú á dögum, en annars má skera úr um þetta með því að athuga bókunina.

Yfirleitt er það mín skoðun á þessum hlutum, að sjálfsagt sé, að sýslufélögin leggi fram tiltölulega meira þegar um minni framkvæmdir er að ræða, svo sem bryggjugerðir, en ríkið styrki hinsvegar ríflega hinar stærri framkvæmdir, t. d. hafnargerðir.

Það verður svo ekki öllu fleira, sem ég þarf að svara að svo stöddu. Aðeins vil ég taka það fram að lokum, og leggja hv. þm. það ríkt á hjarta, að framkvæmd þessa máls mun hafa stórkostlega þýðingu fyrir héraðið, enda er það fram flutt samkv. einlægum vilja og samhuga óskum héraðsbúa.