11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (930)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hefir verið beint nokkrum orðum til mín, sem ég get ekki látið ósvarað. Get ég þó verið fáorður, því fæst af þessu hefir verið veigamikið, þótt ég vilji gera því nokkur skil.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri undarlegt, að við jafnaðarmenn værum á móti hinum ítrustu kröfum um ríkisframlög til slíkra framkvæmda. Ég verð nú að segja það, að ég sýndi skíran lit í þessum efnum í fyrra á þinginu. (MG: Hv. þm. hefir aðra afstöðu nú en í fyrra). Nei, alls ekki, en þess ber að gæta, að nú liggja þrjú slík mál fyrir þinginu, en í fyrra ekki nema tvö, sem fram komu. Hv. þm. gaf í skyn, að hann myndi láta kjósendur sína vita, hvernig með mál þetta hefði verið farið á Alþingi. Af þessum og öðrum orðum hv. þm. má ráða það, sem reyndar er vitanlegt, að hv. þm. er þetta kosningamál fyrst og fremst, miklu fremur en sannfæringarmál. En hv. 1. þm. Skagf., sem einu sinni hefir verið ráðh., ætti að vita það, að stundum verður þó ekki hjá því komizt að segja fólki afdráttarlausan sannleikann um það, hvað er hægt og hvað ekki. Ég held, að það séu nokkur takmörk fyrir því, hversu miklar byrðar ríkið getur tekið á sínar herðar. Og það verður í tíma að reisa skynsamlegar skorður gegn óhæfilegum fjárútlátum úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda, enda þótt þær séu í sjálfu sér þarfar. Ég vil enganveginn leggja að jöfnu þá nauðsyn, sem er á höfn á Sauðárkróki, eða t. d. á Akranesi eða Keflavík. Ég viðurkenni, að höfn sé mjög nauðsynleg á Sauðárkróki, en hinsvegar getur engum dulizt það, að hafnarþörfin er öllu brýnni t. d. á Akranesi, vegna hinnar miklu útgerðar. Af Akranesi ganga nú um eða yfir 20 stór skip, en af Sauðárkróki aðeins fáeinir litlir vélbátar, svo að þetta er alls ekki sambærilegt. Líkt má segja um Keflavík. Þar er ætlunin að reisa bryggju, og samkv. till. n. á hreppurinn að taka á sínar herðar 170 þús. kr. af kostnaðinum, en Skagafjarðarsýsla öll að taka ábyrgð á aðeins 108 þús. kr. Það verður þess vegna ekki sagt, að n. láti Skagfirðinga njóta verri kjara en önnur héruð, sem líkt stendur á fyrir. En aðalreglan, sem n. vill fylgja í þessum efnum, er að láta héruðin leggja eitthvað af mörkum, taka á sig byrðar eftir því, sem er eftir atvikum hæfilegt.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Skagf. Hann lagði mikið upp úr því, að Sauðárkrókur væri sérstaklega illa settur sökum veðurfars, svo að skip gætu þrásinnis ekki fengið afgreiðslu þar sökum veðra. Ég neita því ekki, að þetta geti komið fyrir, en þótt svo sé, þá er nú ekki ýkjavegur yfir til Hofsóss, svo að skipin geta venjulega athafnað sig þar, ef þau geta það ekki á Sauðárkróki. Síðan er næsta skipsferð notuð til þess að flytja þær vörur, sem af þessum sökum komast ekki til réttrar hafnar á tilsettum tíma. Ennfremur má benda á, að fleiri hafnir eru við Skagafjörð, sem til greina geta komið í þessu tilliti, svo sem Kolkuós. (MG: Engin byggð þar nú). En annars er þetta ekki meginatriði málsins. Það, sem aðallega vakir fyrir hv. flm., er hinn upprennandi útvegur við Skagafjörð; flutningarnir eru aukaatriði. (MG: Það er hvorttveggja, sem vakir fyrir okkur). Hv. þm. sagði, að almennur áhugi lægi að baki þessu máli í héraðinu. Ef svo er, sem ég efa alls ekki, þá sannar það aðeins okkar mál í meiri hl., og þá ætti sá áhugi að koma fram í því, að héraðsbúar vilji nokkuð á sig leggja til framkvæmdar þessu máli, með því að taka á sig ábyrgð á sínum hluta kostnaðarins. Ég benti einnig á áðan, að þetta hafnarfrv. er í rauninni ekki ægilegt hvað kostnað snertir, því hann er áætlaður um 625 þús. kr., en hitt er alvarlegra, að fyrir þinginu liggja nú tvö önnur frv. um fjárframlög til hafnargerða, þar sem annað nemur um 1200 þús. kr., en hitt 400–500 þús. kr. Þegar ráðin eru örlög eins af þessum frv., þá verður að hafa hliðsjón af hinum tveimur. Ég satt að segja skil ekki, hvar þetta lendir, ef ríkið tekur slíkar byrðar á sig ár eftir ár. Erum við menn til að standast slíkt?

Hv. þm. talaði um það, að fólk væri hætt að haldast við í héraðinu og leitaði burt til annara landshluta. Þetta má vel vera rétt, en heldur hv. þm., þótt höfn væri byggð á Sauðárkróki, að slíkir mannflutningar væru þar með úr sögunni? Það lögmál, sem gildir í þessum efnum, er það, að fólk leitar þangað, sem lífvænlegra er og betri afkomuskilyrði. Og hv. þm. veit það ósköp vel, að afli getur brugðizt á Skagafirði eins og annarsstaðar, hvort sem höfn verður byggð á Sauðárkróki eða ekki. Það er því enganveginn byggt fyrir það, að fólkið flytji burt úr héraðinu, þótt þetta frv. verði samþ. Hinsvegar ber á það að líta, að frá sjónarmiði bóndans ætti það ekki að vera neitt hnoss, ef upp risi í héraðinu stórt kauptún, og ég held, að hv. þm. taki því ekki málið frá þeirri hlið, eða þá að hann er orðinn víðsýnni og frjálslyndari en hann hefir hingað til fengið orð fyrir.

Ég held svo, að ég þurfi ekki að svara fleiru. Ég skil mætavel aðstöðu þeirra hv. þm., sem að frv. standa; þeir þurfa að hafa einhverju að hampa framan í kjósendur sína. En Alþingi, sem þarf að ráða fram úr þessum málum í heild, það þarf vissulega að líta á hagsmuni fleiri manna en þeirra, sem senda hv. flm. þessa frv. inn á Alþingi.

Að síðustu vil ég beina nokkrum orðum til hv. 2. þm. G.-K. Ég sé nú, að hann er flúinn úr deildinni, en ég vona, að einhver af hinum elskulegu flokksbræðrum hans muni flytja honum það, sem ég vík að honum nú. Það hefir verið rætt um afgreiðslu þessa máls í n. Hv. þm. fór með hrein ósannindi, og hefir þeim þegar verið hnekkt að nokkru leyti, og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það, en form. n. er reiðubúinn til þess að bera vitni um þá hluti, ef þarf. Um vinnubrögð n. ætti hann sem minnst að tala, því að hann hefir sízt stuðlað að greiðari afgreiðslu mála úr n., nema síður sé. Að vísu hefir hann fært sér til afsökunar á því, hversu illa hann hefir sótt fundi n., að hann hafi verið önnum kafinn sökum Íslandsbankamálsins. Þetta er þó ekki nema hálfur sannleikur, því að á 13 fundum af 23, sem n. hefir haldið, hefir hv. 2. þm. G.-K. ekki mætt, og tveir eða þrír af þessum fundum hafa verið áður en Íslandsbankamálið kom á döfina. Fer ég svo ekki frekar út í það; við höfum venjulega mætt þrír í n. og athugað hin minni mál. Þetta mál hefir verið hjá n. í 30 daga, en sum mál eru nú búin að vera 50 daga hjá n., sem ættu a. m. k. að koma jafnsnemma fram og þetta mál. Þau hafa í öllu falli siðferðislegan rétt til þess. En það er nú komið sem komið er og þýðir ekki um að sakast. En um hv. 2. þm. G.-K. er það að segja, að hann hefir beinlínis tekið sér þá afstöðu í n., að reyna á allan hátt að tefja afgreiðslu mála. Annað er ekki hans hlutverk í n. Úr því að farið er að tala um þetta, þá er bezt að segja sannleikann. Einkum ætti hv. 2. þm. G.-K. ekki að tala digurbarkalega um vinnubrögð n., því hann hefir of synduga samvizku í þeim sökum til þess að vera með nokkurn rembing og áfellisdóma á aðra. Hann ætti að spara sér slíkt. Honum er það sjálfum fyrir beztu. Vona ég svo, að hann melti þetta fram eftir nóttinni. Hefi ég svo ekki fleira að svara og get því látið máli mínu lokið.