14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (932)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er ekki ætlun mín að fara að hefja þessar umr. að nýju, enda skoða ég málið útrætt hvað efnishliðina snertir. Aðeins vildi ég gera aths. við ýms þau ummæli, sem að mér var stefnt við fyrri hl. þessarar umr., og mun þó fara fljótt yfir sögu og sleppa mörgu af því, sem ég hafði skrifað niður hjá mér.

Hv. form. sjútvn., hv. 1. þm. S.-M., sagði, að inn í þessar umr. hefði verið dregið ýmislegt óviðkomandi hjal. Ég hefi ástæðu til að halda, að hv. þm. hafi átt við þær aths., sem ég gerði í sambandi við störf sjútvn., og vil því svara hv. þm. því, að það er honum sjálfum að kenna, að þetta hefir dregizt inn í umr. Hv. meiri hl. n. skýrði skakkt frá störfum n., eins og ég sýndi fram á við fyrri hl. umr., með því að lesa upp úr gerðabók n. Hirði ég ekki um að lesa þetta upp að nýju, en læt mér nægja að mótmæla því, að við í minni hl. höfum dregið þetta inn í umr. Á því á hv. meiri hl. n. sök, og enginn annar.

Hv. 4. þm. Reykv. beindi því að mér, að ég hefði lítið starfað í n. og sjaldan sótt fundi hennar. Það er nú að vísu rétt, að ég hefi ekki komið á ýmsa fundi n., en það er með öllu rangt, að ég hafi ekki sótt nema 10 af 23 fundum n. Ég má segja, að ég hafi ekki mætt á 8–9 fundum, sem stafar sumpart af því, að ég hefi verið veikur, og sumpart af því, að ég var allmjög riðinn við Íslandsbankamálið á sínum tíma og mat meira að vinna að lausn þess en að lesa sjólögin með hv. 4. þm. Reykv., enda gat ég eins vel lesið þau heima hjá mér eins og undir handarjaðri hv. 4. þm. Reykv. Og ég þori að segja, að ég sé eins vel lesinn í sjólögunum og hv. þm., og get lýst yfir því, að ég er reiðubúinn til þess að ræða þau við hann hvenær sem hann vill. Ég skal sýna það og sanna við umr. um þau, að málamyndalestur hans hefir ekki nægt honum. Annars hygg ég, að gerðabók sjútvn. beri það með sér, að einmitt þeir fundir n. séu merkilegastir, sem ég hefi sótt. Hv. þm. Vestm. getur ekki einn rekið á eftir störfum n., og er hann þó viðurkenndur dugnaðarmaður.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ég hefði sagt við sig undir fjögur augu, að till. hans væru skynsamlegar og að ég mundi því ljá þeim fylgi mitt. Þetta er ekki rétt haft eftir mér hjá hv. frsm. meiri hl., enda verð ég að játa, þó að ég hafi talsverðar mætur á honum, að hann hefir reynzt mér hinn hálasti í öllum viðskiptum. Að því leyti er þó þessi umsögn hans rétt, að ég sagði, að till. hans gætu verið skynsamlegar frá sjónarmiði ríkissjóðsins, en að ég hinsvegar gæti ekki aðhyllzt þær, vegna þess, að ef þær væru samþ., mundi framkvæmd þess verks, sem hér er um að ræða, niður falla.

Hv. 4. þm. Reykv. beindi því til mín, að ég notaði aðstöðu mína í sjútvn. til þess að tefja fyrir framgangi þeirra mála, sem mér væru ógeðfelld. Það kann að vera nokkuð til í þessu, enda finnst mér það ekki nema í alla staði eðlilegt og sjálfsagt, að ég sem þm. í minnihlutaflokki reyni eftir mætti að tefja framgang þeirra mála, sem ég tel skaðleg þjóðinni. Annað get ég ekki gert sannfæringar minnar vegna. Þegar ég get ekki beinlínis fellt lög, sem að mínu áliti væru skaðleg landi og lýð, er það siðferðisleg skylda mín að reyna að tefja, að þau nái fram að ganga.

Það er rangmæli hjá hv. 4. þm. Reykv., sem ég áður hefi mótmælt, að ég hafi látið líklega í n. um till. hv. form. n., hv. 1. þm. S.-M. Ég gerði tilraun til þess í n. að fá hv. form. n. til þess að standa við þessa till. sína, en þar sem hann virtist á báðum áttum um hana, sagði, að hún gæti átt við eitthvert málið o. s. frv., fannst mér ástæðulaust af mér að vera að herða að honum, ekki sízt þar sem ég sjálfur var andvígur till.

Ég tel ekki rétt að þreyta hv. deild lengur með karpi út af störfum sjútvn., þó að okkur, sem þá n. skipum, beri á milli um ýmislegt viðvíkjandi störfum n. Hitt er annað mál, þó að við gerum það á nefndarfundum.