17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

5. mál, sveitabankar

Björn Kristjánsson:

Ég leyfði mér í fyrra að koma fram með nokkrar brtt. við þetta frv. og að gera grein fyrir þeim þá. En þar sem hæstv. stj. hefir ekki tekið þær að neinu leyti til greina, kem ég ekki fram með þær í þetta sinn óbreyttar, heldur í nýju móti, ef það gæti leitt til samkomulags.

Fyrsta brtt. á þskj. 120 gengur út á það, að fella burtu samábyrgðarlögskylduna, því hún upphefur sjálfsákvörðunarrétt félagsmanna yfir eignum þeirra, og það eins lengi og þeir eru félagar eða lögin eru í gildi. Félagi er því ekki lengur fjár síns ráðandi að lögum, sem undirgengst slíka samábyrgð eða gengur í slíkan félagsskap, því hann er að lögum skyldur til að borga uppáfallandi, ótilteknar upphæðir fyrir vanskilamenn félags síns, og ég geri ekki ráð fyrir, að eintómir efnamenn lendi í slíkum félagsskap, enda er sýnilegt, að frv. ætlast ekki til þess, því þar er gert ráð fyrir að veðsetja allt lausafé sitt fyrir slíku láni.

Sá maður, sem gengur inn í sveitabanka, hann gengur ekki inn í samvinnufélag, þar sem hver sem áður heldur sjálfstæðum fjárráðum sínum, heldur gengur hann inn í sameignarfélag, þar sem hver félagi, sem efni hefir, missir fjárráð sín að meira eða minna leyti. Þessu veldur sá aðferðarmunur, að ganga í félag með lögþvingaðri samábyrgð samkv. landslögum, sem staðið geta um áratugi, eða að ganga í félag, þar sem efnuðu mennirnir, t. d. í einum hreppi, ganga af fúsum vilja og vel yfirlögðu ráði í samábyrgð frá ári til árs, eins og gerðist áður en lögin um samvinnufélög gengu í gildi og þau kaupfélagalög, sem samvinnufélagalögin byggðust á.

Það er og alveg óþarfi að láta landslögin fyrirskipa neiti um samábyrgð í viðskiptamálum. Það hefir hvert félag fyrir sig frjálsræði til að kveða á um, enda veit ég ekki til, að í landslögum nokkurs lands sé slík samábyrgð fyrirskipuð, nema á Íslandi. Samvinnufélagalögin hafa innleitt þetta. Þess vegna legg ég til, að þetta samábyrgðarákvæði falli burt.

En fyrir utan það, sem ég hefi nú sagt, gefur slíkt samábyrgðarlagaákvæði alveg ranga hugmynd um, hvað hugtakið samábyrgð þýðir. Lagaákvæði þetta segir beinlínis, að allir félagsmenn skuli standa í samábyrgð, allir fyrir einn og einn fyrir alla fyrir skuldbindingum félagsins. Það eitt veiti fulla tryggingu, að öll höfðatalan sé í ábyrgðinni.

En slíkt gefur alveg ranga hugmynd um, hvað samábyrgð hefir að þýða. Það er að tryggja skilvísa greiðslu skuldar. Þá tryggingu veita aðeins efnamennirnir í hverjum hreppi, sem eiga eignir að mun umfram skuldir. Hinir geta vitanlega ekki komið til greina sem ábyrgðarmenn, sem lítið eða ekkert eiga. Og hvernig getur löggjafinn þá farið að valdbjóða þeim að ábyrgjast skuldagreiðslur? Því þótt samvinnufélagalögin frá 1921 geri það, þá er það eins og hver önnur meinloka, sem enginn lætur sér detta í hug að fara eftir, ekki einu sinni þeir, er börðust fyrir samþykkt þeirra laga. En þrátt fyrir það hefir fjöldi manna í landinu glæpzt á þeim lögum, í þeirri trú, að þau séu einhvers virði. Og hvað er það, er alþýða manna hér á landi getur ekki glæpzt á, ef um fjármál og ímyndaðan hag er að ræða?

Ég legg því til, að c-liðurinn falli burt, sem alóþarft og skaðlegt ákvæði, því bæði geta sveitabankar skapað sér samábyrgð heimafyrir, ef þörf er á, og þá á þann hátt, sem við á, og svo getur banki sá eða sparisjóður, sem þeir skipta við, áskilið samábyrgð efnuðustu mannanna fyrir láni, þegar ástæður eru til og aðrar framboðnar tryggingar reynast ónógar.

Kem ég þá að annari brtt. Hún er við 4. gr. e. Hér (þ. e. í frv. eins og það er) er sveitabönkum heimilað að reka almenn sparisjóðsviðskipti, jafnt við utanfélagsmenn og félagsmenn.

Hér er sýnilega verið að rænast eftir sparifé vinnuhjúa og ómyndugra, sem nú leggja uppsparað fé sitt í sparisjóði eða banka.

Það er öllum vitanlegt, að það, sem atvinnuvegir þjóðarinnar nú mestmegnis lifa á, er sparisjóðsféð, sem alþýðan í landinu hefir safnað upp á mörgum árum, og sem nú mun vera nálægt 40–50 millj. kr.

Það hvílir því hin ríkasta skylda á Alþingi að játa slíkt fé njóta hinnar ýtrustu verndar og tryggingar fyrir því, að það fari ekki forgörðum fyrir handvömm eða sviksemi einstakra manna eða stofnana.

Sparisjóðslög vor frá 1915 hafa gert tilraun til að veita þessa vernd, en hún er hvergi nærri fullnægjandi. Væri það verkefni fyrir hæstv. stj. að finna betri leið í þessu efni en verið hefir, og vil ég þar benda henni á löggjöf Svíaríkis í þessu efni. Eins og kunnugt er, hafa 3 sparisjóðir kollsiglt sig. Þarf því frekar að auka trygginguna fyrir sparifjáreigendur en veikja hana. En það tel ég gert með frv. þessu. Eða hvaða trygging felst í því, þótt 10–50 bændur í einum hreppi hói sig saman og stofni sveitabanka og velji sér stjórn úr sínum hópi, til að útvega sér rekstrarfé? Hugurinn mun fyrst og fremst verða bundinn við það, að ná í féð, en trygginganna minna gætt, nema á stöku stöðum. Yfir höfuð eru bændur hér á landi litlir fjármálamenn, sem von er. Þeir eru, enn þann dag í dag, vanastir við það, að láta aðra reikna fyrir sig, enda er láns- og vöruskiptaverzlun enn í fullum blóma, einkum í sveitum. Það gerir hið óheilbrigða viðskiptafyrirkomulag, sem byggt er á skipulagsgrundvelli sósíalista, sem margir bændur hafa enn ekki komið auga á, en ekki hreinum og frjálsum viðskiptagrundvelli.

Ég legg því til, að þessi liður falli burt. Það er nóg, að samvinnufélögin hafi þennan rétt. Hann er heldur ekki næg trygging fyrir sparifjáreigendur bankans.

Þá kem ég að 4. gr. f-lið. Félagsmaður á ekki að geta sagt sig úr þessu félagskríli með minni fyrirvara en gilda í svonefndum samvinnufélögum, en eins og kunnugt er, getur sá tími orðið 3 ár. Og engin trygging er sett fyrir því, að úrsegjandi fái innieign sína greidda innan hæfilegs tíma, eða yfir höfuð nokkurntíma. Á þessu er ráðin nokkur bót með brtt. 1½ árs fyrirvarinn ætti að vera nægur.

Þá kem ég að 4. brtt., að 11. gr. falli niður. Er það afleiðing af brtt. við 4. gr. e.

Þá kem ég loks að brtt. við 14. gr., sem nefna mætti byltingagrein. Þar er öllu snúið öfugt við gildandi viðskipta- og réttarvenju. Þar er sveitabankastjórninni heimilað að gera fjárnám í eigum skuldara án dóms og laga. Sveitabankastjórnin er gerð að hæstarétti, án þess nokkurri vörn verði komið við. Og ekki er stjórn félagsins gerð ábyrg fyrir gerðir sínar, eins og t. d. veðdeild, ef hún selur veð án undangengins dóms. Og ekki er sveitabankastjórninni skylt að auglýsa uppboðið. Hún getur því féflett einstaklinginn eins og hún vill. Og salan getur farið fram án þess aðrir skuldheimtumenn fái að vita um það, sem þó, ef til vill, vildu leysa skuldarann út, ef þeir fengju að vita um þvingunaruppboðið, því engin ákvæði eru um slíkt í frv. Það væri ekki vandgert að koma pólitískum andstæðingi sínum á kné, ef þess grein yrði að lögum. Og ekki er vandgert að flækja alþýðumönnum inn í slíkan félagsskap. Svo óvar er almenningur um sig, þegar pólitískir braskarar eru á ferðinni.

Þá ræðst þessi grein á skiptalögin frá 1878, þar sem kröfur sveitabanka eiga að ganga fyrir öllum öðrum kröfum í þrotabúi félagsmanns.

Útfararkostnaður hefir jafnan verið talinn fyrsta forgangsskuld í þrotabúi. Hvað segja sveitarstjórnirnar um það, að eiga nú að borga þessa skuld?

Skiptakostnaður hefir verið næsta forgangsskuldin til ríkissjóðs. Er ríkisstj. albúin til að gefa sveitabönkum, sem eru aðeins einkaviðskiptafyrirtæki, þennan kostnað?

Þar næst kemur fé ríkissjóðs, fé kirkna, sveitarfélaga, stofnana og ómyndugra fé, sem sá gjaldþrota kann að hafa haft undir höndum. Á líka að gefa sveitabönkunum þetta fé? Svo segir lagagreinin. Og hvað segja bændur um kaup og matarverð vinnuhjúa sinna, sem nú er forgangsskuld, eins og er, en sem enga tryggingu eiga nú að fá fyrir kaupi sínu.

Við erum því miður ekki þeir fjármálamenn eða sú stærð, að okkur geti tekizt slysalaust að kippa fótunum undan fjármálalöggjöf þeirri, sem hér hefir lengi gilt og sniðin er eftir fjármálalöggjöf nágrannalandanna, sem lengri reynslu hafa en við. Þess vegna geri ég það að aðaltill. minni, að 14. gr. verði felld í burt, en sem varatill., að sveitabönkum sé heimilt að taka lausafé manna sem sjálfsvörzluveð, á líkan hátt og gert er ráð fyrir í lögunum frá 1927, um sjálfsvörzluveð í fiski, sem bankarnir hafa mjög notað síðan og hefir veitt mikla fyrirgreiðslu, þótt sú löggjöf sé æðihæpin og vel megi misbrúka hana.

Tryggasta leiðin væri að reisa við aftur viðskipta-„móral“ landsmanna, sem var svo góður í mínu ungdæmi, að enginn þurfti að veðsetja kindur sínar eða kýr fyrir viðskiptaskuld. Það væri æskilegt, að hægt væri að reisa við slíkan viðskipta-„móral“ og gera hann svo góðan sem hann var.

Ég hefði haft löngun til að koma fram með fleiri brtt., en læt þetta nægja í bráð. Að lokum vil ég geta þess, að ég ætla mér ekki að eiga í neinu þrefi um þessar brtt., né um það, sem ég hefi sagt, en vísa til dómgreindar þeirra manna, sem lesa kunna umr. um þetta á sínum tíma.

Ég sé, að n. er sameinuð nú og flytur nokkrar brtt. á þskj. 113, sem eru heldur til bóta, en hvergi fullnægjandi. Því þótt nú væri í frv., að aðeins skyldi taka sparisjóðsfé af innanfélagsmönnum, þá er örðugt að vita, hvort það verður ekki misbrúkað. Eða hver ætti að hafa eftirlit með því, að ekki yrði farið út yfir það strik? En ákvæði, sem er þannig, að ekki er hægt að hafa eftirlit með því, að því sé hlýtt, er þýðingarlaust og til engra bóta.

Það er til dálítilla bóta hjá n., að vilja láta 82. gr. skiptal. standa, en þar stendur, að útfararkostnaður, skiptakostnaður og skiptalaun sé forgangsskuld. Annars er brtt. þýðingarlítil og alls engin „princip“-breyting.