16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (975)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Steinsson):

Ég veit ekki, hvort það hefir nokkra þýðingu að taka nú til máls um þetta mál. Mér sýnist forlög frv. ákveðin, svo að langar umr. verða varla til annars en að tefja tímann. Ég lít svipuðum augum á öll þessi mál, sem hér liggja fyrir, um hafnargerð á Sauðárkróki. hafnargerð í Dalvík og hafnargerð á Akranesi, og get því látið mér nægja eina ræðu um þau öll. Þessi hafnarmál komu fram snemma á þinginu og hafa verið athuguð vendilega í n. í Nd. og síðan samþ. þar með allmiklum meiri hl. Hingað til Ed. bárust þau þegar nokkuð var áliðið þings. Ég hygg, að það hafi verið í kringum 8. þ. m., sem þessum málum var vísað til sjútvn., svo að því verður ekki neitað, að n. hefir haft lítinn tíma til að afgreiða málin. Ég verð að segja það, að ef það hefði verið jafn áhugi allra nm. að afgreiða þau frá n., hefði afgreiðsla þeirra getað orðið liðlegri. Ég hygg, að þegar þau komu fyrir n., hafi a. m. k. einn nm. verið þá þegar ráðinn í því að ljá þeim ekki fylgi sitt úr deildinni. Annar minni hl., hv. þm. Ak., var að vísu tregur í fyrstu að láta þessi mál halda áfram, en þó varð það úr, að hann skrifaði undir sérstakt nál., þar sem hann leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt.

Ég verð að líta svo á, að það standi mjög líkt á með allar þessar þrjár hafnargerðir, sem hér liggja fyrir. Í Nd. voru færð fram mörg rök fyrir öllum þessum þremur málum, svo skýr og sterk, að þeim verður ekki mótmælt, og álít ég óþarft að fara að telja þau öll upp hér. Á öllum þessum stöðum eru hafnir mjög slæmar og því mikil þörf á því, að bætt sé um.

Í hafnalögunum var svo ákveðið, þó að ef til vill hafi eitthvað verið breytt í því efni á síðari þingum, að ríkissjóður skyldi leggja fram 1/3 hluta og ábyrgjast 2/3 hluta. M. ö. o., það hefir alltaf viðgengizt sú regla, að ríkissjóður ábyrgðist það, sem hann hefir ekki beinlínis lagt fram. Þetta er líka skiljanlegt. Fátækir hreppar gætu ekki lagt út í svona mannvirki, sem kostuðu hundruð þúsunda, án ábyrgðar ríkissjóðs. Þeir gætu alls ekki fengið lán nema með svona sterkri ábyrgð, og að neita þeim um hana væri sama og að neita þeim um höfnina.

Af þessum ástæðum legg ég á móti brtt. 2. minni hl. Það er ekki af því, að ég álíti ósanngjarnt, að hrepparnir leggi mikið fram án ábyrgðar ríkissjóðs, en þeim er það algerlega um megn. Ég vona því, að þessi brtt. verði felld, ef hv. flm. hennar vill ekki taka hana aftur, sem væri það eðlilegasta, og ennfremur af þeim ástæðum, að svo lítil líkindi sem eru til þess, að frv. verði samþ. óbreytt, þá eru engin líkindi til, að frv. nái fram að ganga, ef breyt. verða á þeim. Ég vona ennfremur, að þótt brtt. hv. þm. Ak. falli, þá verði það ekki til þess, að hann fari að spyrna fótum við framgangi þessara mála hér í d., heldur veiti þeim sitt fylgi, að þau nái fram að ganga.