19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég hefi lítið um þetta mál að segja eins og sakir standa. Frv. var lítilsháttar breytt við síðustu umr., sem ég tel heldur til skemmda en bóta. Þó álít ég það ekki skipta verulegu máli og vil því láta samþ. frv.

Það var að skilja á hv. 3. landsk., að hann teldi þetta frv. ganga feti framar í áhættustarfsemi, er lánsfélögunum væri heimiluð, heldur en frv. 1928. Ég verð nú að bera brigður á réttmæti þessarar staðhæfingar. Ég hygg, að hv. þm. eigi við ákvæði frv. um sparisjóðsstarfsemi. (JÞ: Víxilstarfsemi). Ég man ekki betur en í frv. 1928 væru ákvæði um sparisjóðsinnlög, og jafnvel um víxilstarfsemi líka. Auðvitað er áhættusemi þessara fyrirtækja einkum og sér í lagi komin undir því, hversu góðir menn veljast til forstöðu.

Þá gat hv. 3. landsk. þess, að í grg. stjfrv. í fyrra hefði staðið, að frv. um atvinnurekstrarlán, sem borið hefði verið fram 1928 af honum o. fl., væri sniðið eftir erlendum fyrirmyndum. Ég held nú, að þetta hafi verið nærri sanni, enda mátti jafnvel skilja. það á ræðu eins flm. á síðasta þingi, að Raffeisenslögin þýzku hefðu verið höfð til hliðsjónar við samning frv.